Ársfundur NEAFC 21. - 24. nóvember 2000
Fréttatilkynning
Dagana 21. til 24. nóvember sl. var haldinn í London ársfundur Norðaustur–Atlantshafs fiskveiðiráðsins NEAFC.
Á fundinum var m.a. fjallað um stjórn veiða á úthafskarfa, makríl, kolmunna og norsk - íslenskri síld. Aðeins náðist samhljóða samkomulag um stjórn veiða úr norsk - íslenska síldarstofninum. Þá ákváðu samningsaðilar að halda aukafund á fyrri hluta næsta árs til að fjalla um stjórnun kolmunnaveiða auk annarra mála.
Á fundinum var m.a. kynnt ráðgjöf ICES, Alþjóðahafrannsóknarráðsins, um stjórnun veiða á úthafskarfa. Í ráðgjöfinni fólst að haga ætti stjórn veiðanna með þeim hætti að tekið væri tillit til þess að á svæðinu væri í raun tveir karfastofnar. Var gert ráð fyrir að veiðar úr þeim skyldu takmarkaðar við 60.000 tonn úr hinum hefðbundna úthafskarfastofni og 25.000 tonn úr djúpkarfastofninum, sem úthafskarfaveiðar Íslands hafa að mestu leyti beinst að undanfarin ár. Ísland lagði á það ríka áherslu á fundinum að stjórn veiðanna yrði hagað í samræmi við ráðgjöf ICES. Þess í stað kom fram tillaga um einn heildarkvóta úr báðum stofnunum sem hljómaði upp á 95.000 tonn. Það er ríflega 20% samdráttur frá því sem samþykkt var á síðasta ársfundi NEAFC. Var tillaga þessi samþykkt á fundinum. Ísland andmælti tilllögunni og taldi ófært að fallast á hana þar sem hún gengi þvert á tillögur Alþjóðahafrannsóknaráðsinns um ábyrgar veiðar úr úthafskarfastofnunum. Ísland lét bóka mótmæli sín við samþykktinni og mun ekki verða bundið af henni.
Í ljósi þess hvernig útbreiðsla karfans hefur breyst á undanförnum árum, þ.e. að hluti stofnsins heldur sig nú á svæði sem stjórnað er af NAFO, Norðvestur-Atlandshafs fiskveiðistofnuninni, var samþykkt að halda sameiginlegan fund með NAFO vegna stjórnunar veiða á úthafskarfastofninum. Ísland hefur boðist til að halda fundinn, snemma á næsta ári.
Þá var einnig samþykkt tillaga um stjórn veiða á makríl, sem Ísland mótmælti. Byggjast mótmæli Íslands á því að ekki er í samkomulaginu tekið tillit til stöðu Íslands sem strandríkis.
Evrópusambandið lýsti á fundinum áhyggjum af auknum ýsuveiðum á Rockall svæðinu og lagði á það áherslu að nauðsynlegt væri að ná stjórn á þeim.
Kjartan Hoydal var ráðin framkvæmdastjóri NEAFC og mun hann taka við starfinu hinn 1. mars nk
Sjávarútvegsráðuneytinu, 27. nóvember 2000.