Fréttabréf Verkefnisstjórnar og RUT nefndar kom út í nóvember 2000
Fréttabréf Verkefnisstjórnar og RUT nefndar nr. 2 kom út í nóvember 2000
Þar er fjallað um ný lög um persónuupplýsingar, heilbrigðisnet, rafræn framtöl, Internetnotkun Íslendinga auk fréttapistla af verkefnum og einstökum aðgerðum á vegum hins opinbera sem teljast skipta máli fyrir framgang upplýsingasamfélagsins.
Fréttabréf Verkefnisstjórnar og RUT nefndar nr. 2 (pdf skjal 210 kb)
Fréttabréf Verkefnisstjórnar og RUT nefndar nr. 1 (pdf skjal 50 kb)
Fréttapistlar úr fréttabréfinu:
Forsætiráðuneyti - verkefnisstjórn: Vefstjóri
- Ráðinn hefur verið vefstjóri fyrir stjórnarráðið, Sigurður Davíðsson. Er nú unnið að hönnun á nýju útliti stjórnarráðsvefsins en stefnt er að því að það komist í notkun upp úr næstu áramótum.
Rafræn viðskipti - rafræn stjórnsýsla
- Áfram er unnið að vinnuáætlun um rafræn viðskipti og rafræna stjórnsýslu sem lögð var fram í apríl síðastliðnum
- Verið er að skipa nefndir um verðlagningu á opinberum upplýsingum og um lagalega þætti varðandi rafræna stjórnsýslu. Rafræn viðskipti eru nú í kastljósinu og ber nauðsyn til að gera slíkt viðskiptaumhverfi öruggt og aðgengilegt.
Úr öðrum ráðuneytum
- Tilbúin er lokaskýrsla frá nefnd sem starfar á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytis og fjallar um aðgengi lagagagna á vefnum. Innan þess ráðuneytis er einnig unnið að tilraunaverkefni um rafrænar kosningar.
- Innan menntamálaráðuneytis er að hefjast stórt verkefni á sviði tungutækni og hefur verkefnisstjórn verið skipuð. Unnið er að því að velja nýtt bókasafnskerfi/upplýsingakerfi fyrir öll bókasöfn í landinu og semja um notkun þess. Nýlega var skrifað undir samning um aðgang að rafrænum gagnasöfnum sem tryggir aðgang allra Íslendinga að fjölmörgum erlendum tímaritum og gagnabrunnum. Þá stendur yfir verkefni sem varðar fartölvuvæðingu í framhaldsskólum. Þá er unnið að verkefnum sem varða lýsigögn (metadata) og hefur verið ráðinn þangað bókasafnsfræðingur sem er sérfræðingur í Dublin Core staðlinum en það tengist vinnu við efnisorðagerð.
- Í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti er unnið að verkefni sem varðar rafræna sjúkraskrá. Einnig er þar unnið að því að koma upp heilbrigðisneti og er þar búið að skipa stjórnarnefnd (sjá bls. 3). Eins er unnið að verkefnum á sviði fjarlækninga og er þar von á verkáætlun bráðlega.
- Í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti er unnið að verkefnum á sviði rafrænna viðskipta. Þegar hefur verið gerð úttekt á lagaumhverfi og samþykkt lög um rafræna skráningu verðbréfa en unnið að frumvarpi um rafrænar undirskriftir og frumvarpi um rafræn viðskipti. Sérfræðingur á þessu sviði er nýkominn til starfa í ráðuneytinu, Jónína Lárusdóttir lögfræðingur. Þá er núna verið að athuga hvernig standa eigi að vottun aðila sem bjóða þjónustu á sviði rafrænna undirskrifta.
- Á vegum fjármálaráðuneytis stendur yfir útboð í tengslum við tilraunaverkefni um rafræn innkaup, sem fengið hefur heitið Rafrænt markaðstorg ríkisins. Annars staðar í þessu bréfi (sjá bls. 4) er fjallað um fyrirhugaða aukningu rafrænna skattskila og þjónustu. Tvær stofnanir taka með Ríkiskaupum þátt í tilraunaverkefni með notkun á Innkaupakorti ríkisins.
- Í utanríkisráðuneytinu er unnið að því að koma málaskrárkerfum í öll sendiráð og að gera handbækur og ýmis gögn og upplýsingar um Ísland aðgengileg á vef. Einnig er þar unnið að verkefnum sem snerta sjálfvirkar þýðingar.