Hoppa yfir valmynd
6. desember 2000 Heilbrigðisráðuneytið

2. - 8. desember

Fréttapistill vikunnar
2. - 8. desember


Ný barnadeild við FSA tekin í notkun
Barnadeildin, fyrsti hluti nýbyggingar við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri var opnuð í dag, 8. desember. Heildarstærð nýju álmunnar er 4.200 fm., þar af er barnadeildin 800 fm. Þrettán rúm eru á deildinni, sjö á legudeild, fjögur á dagdeild og tvö rúm eru ætluð fyrirburum. Nú eru 23,5 stöðugildi á barnadeild FSA og hefur þeim fjölgað nokkuð á síðustu árum. Með opnun deildarinnar í nýju húsnæði gjörbreytist öll aðstaða fyrir sjúklinga og starfsfólk. Unnt verður að auka fjölbreytni í þjónustu deildarinnar, bæði innan hennar og utan. Þegar er hafinn undirbúningur að þróun sérfræðiþjónustu við sveitarfélög á Norðurlandi og mögulegt er að sveitarfélög á Austurlandi muni einnig njóta góðs af þjónustu deildarinnar. Kostnaður við innréttingu barnadeildarinnar, auk kostnaðar vegna rýmis sem er sameiginlegt með öðrum deildum nýju álmunnar nemur um 112 milljónum króna, sem er heldur minna en áætlanir gerður ráð fyrir. Kostnaður vegna tækjabúnaðar er um 20 m.kr.

Bygging einkarekinna sjúkrahúsa verður ekki heimiluð
Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, segist ekki munu heimila byggingu einkarekins sjúkrahúss. Þetta kom fram í svari hennar við fyrirspurn á Alþingi í vikunni. Ráðherra segir reynslu annarra þjóða sýna að það sé dýrt að reisa og fjármagna einkarekin sjúkrahús. Hér hafi verið lögð áhersla á að sameina sjúkrahús til að nýta betur rekstrarfé, mæta nýrri og dýrari tækni og nýta þann mannauð sem liggur í góðu fólki. Ráðherra telur ekki að biðlistar vegna aðgerða muni styttast með einkareknum sjúkrahúsum. Bygging, rekstur og tækjakaup vegna nýrra sjúkrahúsa kosti mikið fé og réttara sé að nýta þá fjáfestingu sem fyrir er. Í svari sínu á Alþingi sagðist ráðherra viss um að fyrir það fé sem þyrfti til að byggja upp einkarekstur væri unnt að eyða raunverulegum biðlistum sjúkrahúsanna. Ráðherra sagði fólk verða að hafa hugfast að biðlisti væri ekki það sama og biðtími. Hér á landi væru í mörgum greinum gerðar fleiri aðgerðir á hverja 100 þúsund íbúa en í öðrum löndum sem við miðum okkur við. Það væri nokkuð öruggur mælikvarði á gott heilbrigðiskerfi. Ráðherra benti á reynslu Bandaríkjamanna af einkarekinni heilbrigðisþjónustu. Þar fengi meirihluti þjóðarinnar góða en dýra heilbrigðisþjónustu en stór minnihluti fengi afar takmarkaða þjónustu. Aðalsmerki íslenskrar heilbrigðisþjónustu væri að þar væru allir jafnir og án efa vildu flestir varðveita þessa mikilvægu samfélagsþjónustu.

Endurnýjun samnings við Dana um líffæraflutninga
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og Tryggingastofnun ríkisins (TR) hafa endurnýjað samning við Rigshospitalet í Kaupmannahöfn um líffæraflutninga vegna íslenskra sjúklinga. Eldri samningur er frá árinu 1996. Reynsla af samstarfi við Rigshospitalet hefur verið góð að mati ráðuneytisins og TR, enda þekking, mannafli og tæknibúnaður sjúkrahússins með því besta sem gerist á þessu sviði. Líffæraflutningar eru ekki framkvæmdir á íslenskum sjúkrahúsum og hefur því verið samið við erlend sjúkrahús um aðgerðir af þessu tagi í mörg ár. Árlega hafa að jafnaði 8 - 10 Íslendingar gengist undir aðgerð vegna líffæraflutninga í Danmörku. Heildarkostnaður TR vegna brýnnar sjúkdómsmeðferðar erlendis, en í þann flokk falla líffæraflutningar, nam 182 milljónum króna árið 1999 og er ferðakostnaður þá ekki meðtalinn.

Sameining apóteka Landspítala - Háskólasjúkrahúss
Framkvæmdastjórn Landspítala - háskólasjúkrahúss hefur samþykkt tillögu forstjóra sjúkrahússins um að sameina apótekin í Fossvogi og við Hringbraut. Mun Sjúkrahúsapótekið ehf. kaupa rekstur apóteksins við Hringbraut. Framkvæmdastjórn sjúkrahússins leggur jafnframt áherslu á að öll þjónusta apóteksins og samskipti verði tekin til endurskoðunar. Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að kaupin fari fram um næstu áramót.
Nánar >

Ný þjálfunarlaug við endurhæfingar- og öldrunarlækningadeildir FSA
Ný þjálfunarlaug fyrir endurhæfingar og öldrunarlækningadeildir Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri við Kristnesspítala var vígð í dag, 8. desember. Bygging laugarinnar hefur verið eitt af brýnustu verkefnum FSA frá því það tók við rekstri Kristnesspítala árið 1993. Laugin mun breyta verulega aðstöðu til endurhæfingar og gera sjúkrahúsinu kleift að auka hana til muna. Laugin verður fyrst og fremst nýtt vegna endurhæfingar á vegum FSA en Akureyrarbær mun einnig fá afnot af henni fyrir skjólstæðinga sína. Heildarkostnaður vegna byggingar laugarinnar nemur um 56 milljónum króna.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
8. desember 2000

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta