Nr. 100, 8. desember 2000. Samráð um alþjóðleg umhverfis- og auðlindamál
Utanríkisráðuneytið |
Fréttatilkynning |
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Nr. 100
Í dag héldu auðlinda- og umhverfisskrifstofa utanríkisráðuneytisins og Fiskifélag Íslands ráðstefnu um alþjóðleg auðlinda- og umhverfismál, í samvinnu við sjávarútvegsráðuneytið, umhverfisráðuneytið og landbúnaðarráðuneytið. Ráðstefnan var liður í að efla samráð stjórnarráðsins við sjávárútveginn, en það hefur verið stefna stjórnvalda að styrkja slíkt samráð. Á ráðstefnunni var fjallað um þau mál sem efst eru á baugi. Má þar nefna skýrslu OSPAR (Samningur um vernd N-A-Atlantshafsins) um ástand Norð-Austur Atlantshafsins, málefni hafsins á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, væntanlega framkvæmdaáætlun Matvæla og landbúnaðarstofnunarinnar (FAO) um að stemma stigu við ólöglegum veiðum, tillögu Norðurlandanna um vistmerki fyrir sjávarafurðir, tillögu Íslands á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um afnám ríkisstyrkja í sjávarútvegi og alþjóðasamstarf Fiskifélags Íslands.
Ráðstefnuna sátu stjórn Fiskifélags Íslands og fulltrúar aðildarfélaga þess, auk starfsmanna utanríkis-, sjávarútvegs-, umhverfis- og landbúnaðarráðuneytisins.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 8. desember 2000.