Hoppa yfir valmynd
18. desember 2000 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Á samráðsfundi ríkis og sveitarfélaga mánudaginn 4. desember var undirritaður nýr samstarfssáttmáli ríkis og sveitarfélaga. Samstarfssáttmálinn gildir til ársloka 2002

Ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga gera með sér svohljóðandi samstarfssáttmála:


1. gr.

Aðilar eru sammála um, að ríkið og sveitarfélögin samræmi, eftir því sem kostur er, stefnu sína í opinberum rekstri með það fyrir augum, að unnt verði að ná þeim efnahagsmarkmiðum, sem ríkisstjórnin og Alþingi ákvarða á hverjum tíma.

2. gr.

Aðilar eru sammála um mikilvægi formlegs samstarfs ríkis og sveitarfélaga með það fyrir augum að auðvelda framangreinda samræmingu. Samstarfið felst í því að ríkisstjórnin hafi frumkvæði um nánar tiltekin atriði í löggjöf eða stjórnarframkvæmd en Samband íslenskra sveitarfélaga hvetji sveitarfélög til að fylgja nánar umsaminni stefnu í fjármálum sínum. Jafnframt eru aðilar sammála um mikilvægi áframhaldandi formlegs samstarfs um efnahagsmál með skipun fjögurra manna embættismannanefndar með fulltrúa félagsmálaráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins og tveimur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Nefndin kemur saman allt að fjórum sinnum á ári og fjallar um þróun í fjármálum og kjaramálum ríkis og sveitarfélaga.

3. gr.

Reglulega samráðsfundi skal halda tvisvar á ári, vorfund fyrir lok apríl og haustfund fyrir lok október. Aukafundi skal halda eftir þörfum, ef annar samningsaðili óskar þess. Í samráðsfundum taka þátt af hálfu ríkisins félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra, auk annarra ráðherra eftir því sem við á. Auk þess taka þátt í fundunum fulltrúar ríkisins í samstarfsnefnd, sbr. 6. gr. Af hálfu sveitarfélaga tekur stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga þátt í fundunum, ásamt fulltrúum hennar í samstarfsnefnd, sbr. 6. gr.

Félagsmálaráðherra boðar til samráðsfundanna.


4. gr.

Á vorfundi skal fjalla um ástand og horfur í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar og fjármál sveitarfélaga. Ennfremur skal fjallað um fjárlagatillögur einstakra ráðuneyta, er snerta hag sveitarfélaga og tillögur um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og önnur samskiptamál þessara aðila. Loks skal fjallað um stefnu ríkisstjórnarinnar varðandi nýja löggjöf, er snertir sveitarfélögin, verkefni þeirra og tekjustofna.

5. gr.

Á haustfundi skal fjalla um ástand og horfur í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar og fjármál sveitarfélaga. Auk þess skal fjalla um stefnu ríkis og sveitarfélaga varðandi rekstur, fjárfestingu og nýtingu tekjustofna á komandi ári og þau ákvæði fjárlagafrumvarps sem varða hag sveitarfélaga og óskir sveitarfélaga í því sambandi. Loks skal fjalla um ýmis önnur samskiptamál ríkis og sveitarfélaga eftir því sem ástæða þykir til.

6. gr.

Til undirbúnings samráðsfunda skal starfa sérstök samstarfsnefnd skipuð tveimur fulltrúum frá hvorum aðila um sig til tveggja ára í senn. Félagsmálaráðherra skipar formann nefndarinnar fyrra ár samningsins en fjármálaráðherra það síðara. Samstarfsnefndin skal koma saman reglulega til undirbúnings samráðsfunda. Afla skal gagna sem lögð skulu fyrir samráðfundi, þar á meðal þjóðhagsspár, upplýsinga um hag og rekstur sveitarfélaga og fjárhag ríkissjóðs ásamt yfirlýsinga um stefnu Alþingis og ríkisstjórnar í efnahagsmálum. Gera skal drög að yfirlýsingu samráðsfunda á slíkum undirbúningsfundum.

7. gr.

Ef ástæða þykir til skal á samráðsfundum gengið frá sameiginlegri yfirlýsingu er birt skal opinberlega og send viðkomandi stjórnvöldum.

8. gr.

Komi fram tillögur um meiri háttar breytingar á fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga og tekjustofnum sveitarfélaga, sem kveðið er á um í lögum eða gert hefur verið sérstakt samkomulag um, skulu þær teknar til umfjöllunar í samstarfsnefnd ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga áður en þær eru teknar til formlegrar afgreiðslu hjá aðilum þessa sáttmála.

9. gr.

Aðilar eru sammála um að á gildistíma samkomulagsins vinni þeir saman að tillögum um hvernig háttað verði eftirliti með framkvæmd Evrópusáttmálans um sjálfstjórn sveitarfélaga.

10. gr.

Samstarfssáttmáli þessi gildir til ársloka 2002 en fyrir októberlok þess árs skulu aðilar taka upp viðræður um endurnýjun hans.

Reykjavík, 4. desember 2000.

F.h. ríkisstjórnar Íslands

Páll Pétursson (sign.) félagsmálaráðherra, Geir H. Haarde (sign.) fjármálaráðherra

F.h. Sambands íslenskra sveitarfélaga

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson (sign.) formaður, Þórður Skúlason (sign.) framkvæmdastjóri


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta