Fréttapistill vikunnar
22. - 28. desember
Nýr framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunarinnar á Akranesi
Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur skipað Guðjón Brjánsson, framkvæmdastjóra Sjúkrahússins á Ísafirði, framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunarinnar á Akranesi til næstu fimm ára. Níu sóttu um starfið. Sérstök nefnd sem metur hæfni umsækjenda um stöður framkvæmdastjóra sjúkrahúsa, skv. lögum um heilbrigðisþjónustu, komst að þeirri niðurstöðu að fimm umsækjendanna uppfylltu skilyrði um menntun og reynslu í rekstri og stjórnun. Nefndin mat Guðjón Brjánsson hæfastan þeirra og skipaði heilbrigðisráðherra hann í stöðu framkvæmdastjóra að tillögu hennar.
Íslendingur tekur við formennsku í stjórnum NOMESCO og Nordiska klassifikationcentret
Sveinn Magnússon, skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu hefur tekið við formennsku í stjórn NOMESCO og einnig í stjórn Nordiska klassifikationcentret. Meginhlutverk NOMESCO er að tryggja samræmda gagnasöfnun á sviði heilbrigðistölfræði á norðurlöndunum og að miðla upplýsingum á þessu sviði. Nordiska klassifikationcentret ber einkum ábyrgð á að samræma þróun og notkun alþjóðlegra sjúkdómaflokkunarkerfa (ICD) á norðurlöndunum og sinnir jafnframt samstarfi við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO) á þessu sviði.
Reglugerð um hækkun bóta almannatrygginga o.fl. reglugerðir
Upphæðir bóta samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð hækka 1. janúar um 4,0% frá því sem þær voru í desember 2000. Reglugerð nr. 916/2000 sem kveður á um þessar hækkanir hefur tekið gildi. Þann 1. janúar tekur einnig gildi reglugerð nr. 948/2000 um greiðslur almannatrygginga í lyfjakostnaði, reglugerð nr. 925/2000 um iðgjald vegna slysatryggingar sjómanna og reglur um breytingu á reglum nr. nr. 213/1999 um ferðakostnað sjúkratryggðra sjúklinga og aðstandenda þeirra innanlands.
Nánar>
Gildistaka nýrra laga 1. janúar
Lög um sjúklingatryggingu nr. 111/2000taka gildi 1. janúar nk. Lögin gera ráð fyrir að sjúklingar verði tryggðir með sérstakri sjúklingatryggingu verði þeir fyrir heilsutjóni í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð hér á landi á sjúkrahúsi, heilsugæslustöð eða annarri heilbrigðisstofnun, í sjúkraflutningum eða hjá heilbrigðisstarfsmanni sem starfar sjálfstætt og hlotið hefur löggildingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra til starfans. Lögin ná einnig til sjúklinga sem svokölluð ,,siglinganefnd" Tryggingastofnunar ríkisins heimilar að senda til læknismeðferðar á sjúkrahúsi eða heilbrigðisstofnun erlendis í þeim tilvikum þar sem ekki er unnt að veita læknismeðferð hér á landi. Lögin fela í sér víðtækari rétt sjúklings til bóta en hann á eftir almennum skaðabótareglum þar sem nýju lögin fela í sér bótarétt án þess að fyrir liggi sök heilbrigðisstarfsmanns. Lögin taka gildi 1. janúar og taka til tjónsatvika sem verða frá gildistöku þeirra 1. janúar. Í reglugerð nr. 763/2000 eru tíundaðir þeir aðilar sem veita heilbrigðisþjónustu og er skylt hafa í gildi sjúklingatryggingu vegna tjóna sem eru bótaskyld samkvæmt lögunum.
Lög um lífsýnasöfnnr. 110/2000taka gildi 1. janúar nk. Markmiðið með lögunum er ,, að heimila söfnun, vörslu, meðferð og nýtingu lífsýna úr mönnum með þeim hætti að persónuvernd sé trygg, gætt sé hagsmuna lífsýnisgjafa og nýting lífsýnanna þjóni vísindalegum og læknisfræðilegum tilgangi og stuðli að almannaheill." eins og segir í 1. gr. laganna. Sett er skilyrði fyrir stofnun og starfsrækslu lífsýnasafna, stjórn þeirra og varðveislu sýna. Samkvæmt lögunum mun heilbrigðisráðherra gefa út leyfi fyrir rekstri lífsýnasafna en Persónuvernd, (stofnun sem kemur í stað tölvunefndar samkvæmt nýjum lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga) og Landlækni er falið eftirlit með starfsemi þeirra.
Lög um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000taka gildi 1. janúar nk. Við gildistöku þeirra falla úr gildi lög um fæðingarorlof nr. 57/1987 og löggjöfin flyst frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu til félagsmálaráðuneytisins. Nýju lögin fela í sér verulegar breytingar og hefur félagsmálaráðuneytið tekið saman ítarlegar upplýsingar um lögin og breytingar á reglum sem gildistaka þeirra hefur í för með sér.
Upplýsingasíða félagsmálaráðuneytisins >
---------------------
Gleðilegt nýtt ár
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
28. desember 2000