Hoppa yfir valmynd
27. desember 2000 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Úrskurður skipulagsstjóra ríkisins um mat á umhverfisáhrifum Hallsvegar felldur úr gildi.

Umhverfisráðherra hefur fellt úr gildi úrskurð skipulagsstjóra ríkisins frá 28. júní 2000 vegna mats á umhverfisáhrifum Hallsvegar frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi samkvæmt lögum nr. 63/1993. Þar var fallist á fyrirhugaða lagningu tveggja akreina Hallsvegar frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi með því skilyrði að tryggt yrði með mótvægisaðgerðum að hljóðstig frá umferð um Hallsveg verði undir 55 dB(A) við íbúðarhús við Garðhús. Þá var kveðið á um samráð um mótvægisaðgerðir við eigendur þeirra fasteigna sem þær miðast við.

Umhverfisráðuneytinu barst sameiginleg kæra frá eigendum og íbúum 30 húsa við Garðhús í Reykjavík vegna úrskurðar skipulagsstjóra ríkisins. Kærendur fóru fram á að átta tiltekin atriði yrðu tekin til skoðunar. Af hálfu kærenda var áhersla lögð á að Hallsvegur yrði skoðaður sem ein heild, það er fjögurra akreina vegur frá fyrirhugaðri Sundabraut að Vesturlandsvegi. Þá var farið fram á að gerð yrði úttekt á þeim möguleika að leggja Hallsveg í stokk og þriðja meginkrafa kærenda varðaði hávaðareglugerð og hvernig staðið yrði að hljóðvist frá fyrirhuguðum Hallsvegi frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi.

Eins og segir í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins hefur framkvæmdin umtalsverð áhrif á hljóðstig í íbúðabyggð við Garðhús. Ráðuneytið telur að ekki sé gerð fullnægjandi grein fyrir mótvægisaðgerðum vegna lagningar Hallsvegar frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi. Einnig telur ráðuneytið að kanna verði frekar þörf þess að Hallsvegur verði fjögurra akreina vegur.

Því skal fara fram frekara mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og í frekara mati skal:

1) kanna frekar þörf á breikkun Hallsvegar í fjórar akreinar,
2) gera grein fyrir heildaráhrifum framkvæmdarinnar á hljóðstig við Garðhús,
3) gera grein fyrir mótvægisaðgerðum sem miði að því að hljóðstig utan húss fari a.m.k.
ekki upp fyrir 55 dB(A) og 30 dB(A) innanhúss miðað við endanlega gerð vegarins,
4) gera grein fyrir hugsanlegum neikvæðum áhrifum mótvægisaðgerða,
5) gera grein fyrir hljóðstigi á hverri hæð fyrir sig,
6) afla álits Veðurstofu Íslands á áhrifum ríkjandi vindátta á framkvæmdasvæði á
dreifingu mengunarefna og hávaða,
7) gera grein fyrir möguleikum þess að leggja Hallsveg í stokk.

Fréttatilkynning nr. 28/2000
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta