Reglugerð um bókhald og ársreikninga sveitarfélaga nr. 944/2000
Hin nýja reglugerð kveður á um ýmsar veigamiklar breytingar í reikningsskilum sveitarfélaga. Gert er t.d. ráð fyrir að sveitarfélög hagi bókhaldi sínu og reikningsskilum í samræmi við ákvæði laga um bókhald nr. 145/1994 og ársreikninga nr. 144/1994 að svo miklu leyti sem sveitarstjórnarlög mæla ekki fyrir á annan veg eða reglugerðir settar á grundvelli þeirra. Þannig er gert ráð fyrir að ársreikningar sveitarfélaga verði byggðir á almennum reikningsskilaaðferðum en ekki sértækum aðferðum eins og hingað til hefur gilt um sveitarsjóð og þær stofnanir sveitarfélaga sem reknar hafa verið á sambærilegum grunni. Þetta þýðir m.a. að hverskyns fjárfestingar verða eignfærðar án þess að slíkt komi fram í rekstrinum en á móti er gert ráð fyrir að eignir verði endurmetnar og afskrifaðar líkt og gert er í reikningsskilum fyrirtækja.
Í reglugerðinni er ennfremur gert ráð fyrir að félagsmálaráðherra skipi sérstaka fjögurra manna reikningsskila- og upplýsinganefnd sem skuli m.a. stuðla að samræmingu í reikningsskillum sveitarfélaga og öðrum fjárhagslegum upplýsingum þeirra eftir því sem ráðuneytið ákveður. Þannig er gert ráð fyrir að nefndin taki við hlutverki bókhaldsnefndar Sambands ísl. sveitarfélaga sem ekki hefur haft reglugerðarstoð fram að þessu og að forræðið flytjist til ráðuneytisins. Gert er ráð fyrir að reglur sem nefndin setur og aðrar ákvarðanir hennar verði birtar í stjórnartíðindum eftir staðfestingu ráðuneytisins og því um að ræða stjórnvaldsákvarðanir sem sveitarfélög fari eftir.
Þrátt fyrir að reglugerðin taki gildi frá og með 1. janúar 2001 er sveitarfélögum heimilt að fara eftir ákvæðum eldri reglugerðar nr. 280/1989 við gerð fjárhagsáætlunar og ársreiknings fyrir rekstrarárið 2001. Fyrir rekstrarárið 2002 er hinsvegar gert ráð fyrir að öll sveitarfélög geri fjárhagsáætlun og ársreikning á grundvelli hinnar nýju reglugerðar.
Reglugerð um bókhald og ársreikninga sveitarfélaga nr. 944/2000