Nr. 01/2001 - Blaðamannaf. vegna innfl. á írskum nautalundum.
Blaðamannafundur
Landbúnaðarráðuneytið boðar til blaðamannafundar um umfjöllun fjölmiðla um innflutning á nautalundum frá Írlandi.
Fundurinn verður haldinn í Borgartúni 6, 4. hæð, kl. 15:00 í dag, 12. janúar 2001.
Í landbúnaðarráðuneytinu,
12. janúar 2001
12. janúar 2001
Úthendi vegna blaðamannafundar 12. janúar 2001
vegna umfjöllunar fjölmiðla um innflutning á nautalundum frá Írlandi
Í kjölfar umræðna í þjóðfélaginu um kúariðuvandann í Evrópu og þeirrar bókunar sem samþykkt var í gær af umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur þar sem því er harðlega mótmælt að leyfður hafi verið innflutningur á nautakjöti frá landi þar sem greinst hefur kúariða, að því er virðist í andstöðu við þær reglur sem í gildi eru, vill landbúnaðarráðuneytið koma eftirfarandi á framfæri:
Landbúnaðarráðuneytið fagnar umræðum um matvælaöryggi hér á landi, enda hefur það haft að leiðarljósi að tryggja íslenskum neytendum örugga og holla vöru í hvívetna. Ráðuneytið harmar hins vegar að umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur skyldi ekki hafa leitað eftir upplýsingum frá embætti yfirdýralæknis eða ráðuneytinu um þann tiltekna innflutning á írskum nautalundum, sem fyrrgreind bókun nefndarinnar tekur til. Hefði umfjöllun nefndarinnar og sú umræða sem hún hefur vakið verið upplýstari fyrir vikið. Landbúnaðarráðuneytið er reiðubúið til viðræðna við öll þar til bær yfirvöld um innflutning matvæla.
Við stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) árið 1995 tók Ísland ásamt öðrum aðildarríkjum á sig samningsskuldbindingar um markaðsaðgang fyrir landbúnaðarvörur, þ.m.t. hráar sláturafurðir. Fram til þess tíma hafði ríkt ófrávíkjanlegt innflutningsbann á ýmsar landbúnaðarvörur, sem gátu borið með sér dýrasjúkdóma, en slíkt bann var í andstöðu við nýgerða samninga WTO. Því var lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim breytt með þeim hætti að landbúnaðarráðherra var veitt heimild til að leyfa innflutning á þartilgreindum vörum að fengnum meðmælum yfirdýralæknis, enda þætti sannað að ekki bærist smitefni með þeim er olli dýrasjúkdómum. Um framkvæmd þessa ákvæðis fer eftir ákvæðum samnings WTO um beitingu ráðstafana um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna.
Túlkun og framkvæmd Íslands á þessum samningi WTO er að líkindum sú strangasta meðal aðildarríkja stofnunarinnar, sem endurspeglast m.a. í takmarkaðri nýtingu margra þeirra tollkvóta sem gilda um landbúnaðarafurðir, þ.m.t. hráar sláturafurðir. Sætir sú staðreynd gagnrýni á vettvangi WTO, en málflutningur Íslands hefur miðað að því að renna stoðum undir gildandi fyrirkomulag og það viðkvæma sjúkdómaástand búfjár sem hér ríkir sökum aldalangrar einangrunar. Meginreglan hérlendis er sú að innflutningur á hráum sláturafurðum og öðrum landbúnaðarvörum sem tilgreindar eru í 10. gr. laga nr. 25/1993 er bannaður þar til hann kann að vera leyfður að ströngum skilyrðum uppfylltum. Því fer víðs fjarri að hér sé opin gátt gagnvart afurðum sem kunna að bera með sér sjúkdóma á borð við kúariðu.
Embætti yfirdýralæknis hafnar án undantekninga þeim beiðnum um innflutning sem ekki fylgja tilskilin vottorð, sem sýna svo ekki verði um villst að strangar kröfur hérlendis eru uppfylltar. Embættið mælir einungis með innflutningi í þeim tilfellum þar sem tilskilin vottorð fylgja og gengið hefur verið úr skugga um að viðkomandi vara uppfyllir allar heilbrigðiskröfur, m.a. með nauðsynlegri gagnaöflun frá upprunaríkinu og viðkomandi alþjóðastofnunum.
Samningsskuldbindingar Íslands á vettvangi WTO kveða svo á um að ráðstafanir um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna verði að byggjast á vísindalegum meginreglum og sé ekki viðhaldið án fullnægjandi vísindalegra sönnunargagna. Þau ströngu skilyrði sem fram koma í reglugerðum og auglýsingum landbúnaðarráðuneytisins um innflutning landbúnaðarvara, sem settar hafa verið á grundvelli fyrrgreindra laga, ber að túlka í samræmi við lögin og þessar alþjóðlegu samningsskuldbindingar. Reglum um vottorð og önnur sönnunargögn er ætlað að gefa yfirdýralækni grundvöll til að leggja upplýst mat á það hvort tiltekin landbúnaðarafurð stenst heilbrigðiskröfur Íslands, áður en hann mælir með eða hafnar innflutningi. Upplýsingar um sjúkdómastöðu í upprunaríkinu gegna þar lykilhlutverki, en þyngra vegur áhættan á að smitefni berist með tiltekinni vöru og hvaða vísindaleg rök liggja fyrir þar að lútandi.
Sem matvælaframleiðandi hefur Ísland á alþjóðavettvangi lagt ríka áherslu á gildi vísindalegra raka í öllum aðgerðum er hafa áhrif á viðskipti með matvæli sem öruggustu leið til að styrkja trúverðugleika Íslands á alþjóðavettvangi og varðveita hagsmuni neytenda og framleiðenda til framtíðar. Málflutningur okkar hefur notið trausts og verður að gæta að því að grafa ekki undan mikilvægum þjóðarhagsmunum með aðgerðum sem eiga sér ekki vísindalegan grundvöll. Landbúnaðarráðuneytið vill undirstrika að kúariðuvandinn í Evrópu er grafalvarlegt mál sem krefst ábyrgrar og faglegrar meðferðar og taka aðgerðir þess mið af því.
Hvað varðar þann innflutning á írskum nautalundum sem er tilefni bókunar umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur skal upplýst að eingöngu er heimilt að leyfa innflutning til Íslands á úrbeinuðu nautgripakjöti. Bestu fáanlegu vísindi sýna að kúariða berst ekki í hreinum vöðvum og því stafar neytendum engin hætta af slíku kjöti. Kúariða getur hins vegar borist með heilum og hálfum kjötskrokkum og taugavefjum sem þeim fylgja, en óheimilt er með öllu að flytja slíkar afurðir inn til Íslands. Það eru ekki síst þessar afurðir sem nokkur ríki hafa undanfarið bannað frá löndum Evrópusambandsins, ásamt því að óska eftir vottorðum á borð við þau sem krafist hefur verið hérlendis undanfarin ár með öðrum hráum sláturafurðum. Öll nauðsynleg vottorð fylgdu umræddum nautalundum frá Írlandi og gagnaöflun embættis yfirdýralæknis frá hlutaðeigandi yfirvöldum á Írlandi og alþjóðastofnunum renndi stoðum undir að varan uppfyllti þær heilbrigðiskröfur sem hér gilda, sbr. lög nr. 25/1993 og þær alþjóðlegu skuldbindingar sem lögin innleiða. Það var því mat embættis yfirdýralæknis og landbúnaðarráðuneytisins að þessi innflutningur skyldi heimilaður, enda talið tryggt að honum fylgdi engin smithætta.
Það skal áréttað að embætti yfirdýralæknis og landbúnaðarráðuneytið afgreiða umsóknir um innflutning á grundvelli allra fáanlegra upplýsinga um þá tilteknu vöru sem um ræðir hverju sinni. Í þessu tilfelli voru strangar heilbrigðiskröfur uppfylltar, en svo hefur ekki verið í fjölmörgum öðrum tilfellum sem þá hefur verið vísað frá. Embætti yfirdýralæknis og landbúnaðarráðuneytið munu hér eftir sem áður fyrr standa vörð um að íslenskum neytendum séu tryggðar öruggar og hollar landbúnaðarafurðir.