Nr. 001, 18. janúar 2001 Ráðning framkvæmdastjóra Þróunarsamvinnustofnunar Íslands
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Að tillögu stjórnar Þróunarsamvinnustofnunar Íslands hefur Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, í dag skipað Sighvat Björgvinsson, alþingismann, framkvæmdastjóra stofnunarinnar frá 14. febrúar nk. Skipunin er skv. lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70 frá 11. júní 1996, lögum um Þróunarsamvinnustofnun Íslands nr. 43 frá 1981 og reglugerð nr. 86 frá 1998.
Alls sóttu 26 manns um stöðuna sbr. meðfylgjandi lista. Að mati stjórnar voru 5 umsækjenda best til þess fallnir að gegna starfinu og áttu fulltrúar stjórnar viðtöl við þá um starfið. Þessir umsækjendur voru, í stafrófsröð:
Jóhanna K. Eyjólfsdóttir,
Jón Sæmundur Sigurjónsson,
Jónína Einarsdóttir,
Sighvatur Björgvinsson,
Sigríður Lillý Baldursdóttir.
Á fundi sínum í gær var stjórn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands einróma sammála um þá niðurstöðu að Sighvatur Björgvinsson, alþingismaður og fyrrverandi ráðherra, væri best til þess fallinn að gegna stöðunni. Þar vóg þyngst að mati stjórnar reynsla hans og þekking á heilbrigðis-, orku- og sjávarútvegsmálum sem eru þrjú af meginsamstarfssviðum Þróunarsamvinnustofnunar, auk ábyrgðarstarfa á sviði stjórnmála og alþjóðasamskipta.
Stjórnin mælti með því við utanríkisráðherra, með öllum greiddum atkvæðum en einn sat hjá, að hann skipaði Sighvat Björgvinsson framkvæmda-stjóra Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 18. janúar 2001.