Hoppa yfir valmynd
26. janúar 2001 Heilbrigðisráðuneytið

19. - 25. janúar 2001

Fréttapistill vikunnar
19. - 25. janúar 2001


Heilbrigðisráðherra frá störfum um sinn

Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur verið frá störfum að undanförnu að ráði lækna og hefur Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra farið með málefni heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins í hennar stað. Ingibjörg hefur hvílst heima síðustu daga en tekur aftur til starfa strax og læknar telja það tímabært.

Frumvarp til breytinga á lögum um almannatryggingar samþykkt
Frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatrygginar var samþykkt á Alþingi í vikunni og taka lögin gildi 1. febrúar nk. Eins og segir í athugasemdum við lagafrumvarpið er bætt inn í lög um almannatryggingar sérreglu sem ætlað er að tryggja að öryrki hafi sjálfur a.m.k. ákveðnar lágmarkstekjur án tillits til tekna maka. Að tillögu starfshópsins sem vann frumvarpið er miðað við að sú tekjutrygging geti verið 300.000 kr. á ári, eða 25.000 kr. á mánuði og mun það tryggja að öryrkinn hafi sjálfur að lágmarki 43.424 kr. í tekjur á mánuði að grunnlífeyri meðtöldum, í stað 18.424 kr. áður. Fjárhæðin samkvæmt sérreglunni skerðist einungis með 2/3 hlutum af eigin tekjum öryrkjans. Ef örorkulífeyrisþegi er giftur og hefur eigin tekjur allt að 450.000 kr. á ári nýtur hann sérreglunnar um lágmarkstekjur, þannig að heildartekjur hans að meðtöldum örorkulífeyri, verða að lágmarki 671.088 kr. hversu háar sem tekjur maka hans kunna að vera. Tryggingastofnun ríkisins mun greiða öryrkjum í samræmi við ný lög þann 1. febrúar.

Árlegur tannverndardagur haldinn í 19. sinn
Tannverndarráð stendur fyrir árlegum tannverndardegi 2. febrúar nk. líkt og gert hefur verið undanfarin 18 ár. Að þessu sinni verður sérstaklega hugað að glerungseyðingu en samkvæmt nýlegum rannsóknum er talið að fimmti hver unglingur á Íslandi sé með glerungseyðingu á byrjunarstigi. Athygli verður vakin á þessu máli með sérstöku fræðsluátaki á tannverndardaginn þar sem almenningi verða kynntar helstu orsakir glerungseyðingar, afleiðingar hennar og ráð til að sporna gegn þessum skaðvaldi sem ógnar tannheilsu ungra Íslendinga. Margvíslegar upplýsingar um tannheilsu og tannvernd, þ.á.m. glerungseyðingu er að finna á heimasíðu Tannverndarráðs. Slóðin er: tannheilsa.is >

Íslendingar hafa ekki reykt minna en nú frá upphafi mælinga
Verulega hefur dregið úr daglegum reykingum fólks frá því að byrjað var að taka saman upplýsingar um reykingar almennings hér á landi. Niðurstöður þriggja kannana sem unnar voru fyrir Tóbaksvarnarnefnd á síðasta ári leiddu í ljós að færri Íslendingar reykja daglega nú en kannanir hafa áður sýnt. Fjórðungur fólks á aldrinum 18 - 69 ára reykir daglega, samkvæmt könnununum en til samanburðar reyktu 36% fólks í þessum aldurshópi daglega árið 1986. Reykingar hafa verið algengari meðal kvenna en karla allt frá árinu 1997, en nú hefur þetta snúist við og heldur færri konur en karlar reykja daglega.
Sjá Tóbaksvarnarnefnd>

Danmörk: Fjórar leiðir til að bregðast við skorti á menntuðu heilbrigðisstarfsfólki
Danir leggja nú á ráðin um það hvaða leiðir séu færar til að manna heilbrigðisþjónustuna eins og þörf er á, nú og í framtíðinni. Skortur á fagfólki, einkum hjúkrunarfræðingum og læknum er verulegt vandamál og fyrirsjáanlegt að verði ekkert að gert muni vandinn aukast á næstu árum og áratugum, ekki síst vegna breytinga á aldurssamsetningu þjóðarinnar. Nýlega kynnti danska heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið skýrslu þar sem fjallað er um málið og hvernig takast megi á við vandann úr ýmsum áttum. Áhersla er lögð á að ekki sé nóg að einblína eingöngu á nýráðningar starfsfólks. Einnig þurfi að huga vel að aðstæðum starfandi heilbrigðisstarfsfólks, skoða hvernig fagþekking þess er nýtt, hvort breytt verkaskipting kunni að vera nauðsynleg o.s.frv. Þá segir í skýrslunni að horfa þurfi út fyrir landamæri Danmerkur eftir menntuðu fólki og einnig að e.t.v. séu vannýttir möguleikar á því að ráða til starfa erlenda ríkisborgara sem hafa stundað heilbrigðisnám í Danmörku. Skýrslan heitir: Rekruttering, Fastholdelse og Faggrænser i sundhedssektoren - En analyse af arbejdsmarkedet for læger og sygeplejersker. Hægt er að nálgast skýrluna á heimasíðu danska heilbrigðisráðuneytisins, undir nýju efni á síðu ráðuneytisins í janúar 2001, dags. 15.01.
Sjá skýrsluna >




Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
25. janúar 2001

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta