Hoppa yfir valmynd
26. janúar 2001 Dómsmálaráðuneytið

Ráðherrafundur Evrópuráðsins í Róm 3. og 4. nóvember 2000

Fréttatilkynning



Ráðherrafundur Evrópuráðsins vegna 50 ára afmælis
Mannréttindasáttmála Evrópu í Róm dagana 3. og 4. nóvember
Undirritun 12. viðauka við sáttmálann um bann við mismunun.

    Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra og ráðherra mannréttindamála sækir ráðherrafund Evrópuráðsins sem haldinn verður í Róm á Ítalíu dagana 3. og 4. nóvember nk. Tilefni fundarins er að þann 4. nóvember nk. eru 50 ár liðinn frá því að Mannréttindasáttmáli Evrópu var samþykktur hjá Evrópuráðinu.

    Á ráðherrafundinum er stefnt að því að ganga frá tveimur samþykktum um mannréttindamál sem fjalla um eftirfarandi efni.
      • Samþykkt um stofnanir og skipulag til verndar mannréttindum í Evrópu
      • Samþykkt um virðingu fyrir mannréttindum sem lykilatriði fyrir stöðugleika og samstöðu í Evrópu
    Einnig mun ráðherrafundurinn samþykkja yfirlýsingu þar sem fjallað er um árangur sem náðst hefur með Mannréttindasáttmála Evrópu undanfarin 50 ár og rætt um framtíð mannréttindaverndar í Evrópu.

    Einn ráðherra frá hverju aðildarríki Evrópuráðsins sækir fundinn, annað hvort utanríkisráðherra eða dómsmálaráðherra, en aðildarríki Evrópuráðsins eru nú 41 talsins. Fundurinn hefst að morgni föstudagsins 3. nóvember. Við opnun fundarins taka til máls Walter Schwimmer aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Lamberto Dini, utanríkisráðherra Ítalíu og Russell-Johnston forseti ráðgjafarþings Evrópuráðsins. Því næst verður rætt efni framangreindra samþykkta fundarins. Í hádegishléi munu ráðherrar á fundinum hitta páfa í Vatikaninu. Eftir hádegi verður áfram rætt um efni fundarins. Sólveig Pétursdóttir mun flytja stutt ávarp þar sem fjallað verður um nauðsyn þess að tryggja áfram skilvirkni Mannréttindadómstóls Evrópu. Fundinum lýkur kl. 11. 30 á laugardeginum 4. nóvember, þar sem fyrrgreindar samþykktir og yfirlýsing fundarins verða samþykktar.

    Sérstakur hátíðafundur vegna 50 ára afmælis Mannréttindasáttmálans verður haldinn í kjölfar ráðherrafundarins. Þar flytja ávörp, auk aðalframkvæmdastjóra og forseta ráðgjafarþings Evrópuráðsins, Luzius Wildhaber forseti Mannréttindadómstóls Evrópu og Mary Robertsson mannréttindafulltrúi Sameinuðu Þjóðanna.

    Að loknum hátíðafundinum verður 12. viðauki við Mannréttindasáttmála Evrópu um bann við mismunun lagður fram til undirritunar fyrir aðildarríki Evrópuráðsins. 12. viðauki bætir við Mannréttindasáttmálann reglunni um bann við mismunun og að réttindi sem bundin eru í lögum séu tryggð öllum jafnt, en slíka reglu hefur skort í sáttmálann fram til þessa. Sólveig Pétursdóttir mun undirrita 12. viðauka fyrir hönd íslenska ríkisins. Viðaukinn tekur gildi 3 mánuðum eftir að tíu aðildarríki hafa fullgilt hann.

    Utanríkisráðherra Ítalíu býður til fundarins en Ítalía fer nú með formennsku í Evrópuráðinu. Fundurinn er skipulagður af ríkisstjórn Ítalíu og Evrópuráðinu. Sólveig Pétursdóttur leiðir íslensku sendinefndina á fundinum en aðrir í sendinefndinni eru Sveinn Björnsson sendiherra hjá Fastanefnd Íslands í Strasbourg og Björg Thorarensen skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu.


Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
1. nóvember 2000.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta