Hoppa yfir valmynd
30. janúar 2001 Utanríkisráðuneytið

30. janúar 2001 Sameiginleg fréttatilkynning utanríksráðuneytis og sjávarútvegsráðuneytis: Málþing um fiskveiðistjórnun

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
og sjávarútvegsráðuneytinu



Sendiráð Íslands í Brussel stóð fyrir málþingi um fiskveiðistjórnun, 25. janúar sl. Umræðum stjórnaði Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra. Rúmlega 60 þátttakendur voru á málþinginu, frá 17 löndum auk fulltrúa frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og ráðherraráðinu. Frummælendur komu víða að og fjölluðu um fiskveiðistjórnun frá ýmsum sjónarhornum. Eftir framsögu urðu líflegar umræður, ekki síst um kvótakerfi, og varðandi aukin áhrif einstakra svæða á fiskveiðistjórnun innan ESB. Fyrri hluta málþingsins voru ræðumenn fulltrúar stjórnvalda.

Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra gerði grein fyrir þróun fiskveiðistjórnunar á Íslandi, uppbyggingu þess kerfis sem nú er við líði, og þáttum sem munu hafa áhrif á stjórnkerfið í framtíðinni. John Farnell frá þeirri deild framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem sér um sjávarútvegsmál, fjallaði í sinni ræðu um endurskoðun sjávarútvegsstefnu ESB, sem stendur yfir. Af hálfu framkvæmdastjórnarinnar er verið að skrifa svokallaða græna bók, þar sem fyrstu hugmyndir varðandi endurnýjun sjávarútvegsstefnunnar verða reifaðar, og verður hún væntanlega gerð opinber í febrúar eða mars. Farnell gerði grein fyrir helstu atriðum sem þar eru tekin fyrir.

Svíar tóku við formennsku í ESB 1. janúar sl. og talaði Per-Göran Öjeheim af hálfu formennskulandsins. Hann ræddi um endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar og atriði sem Svíar leggja áherslu á í því sambandi. Því næst tók til máls Daniel Varela, formaður sjávarútvegsnefndar Evrópuþingsins. Hann lagði megináherslu á að byggja þurfi upp fiskistofna og stjórna nýtingu þeirra þ.a. þeir séu ekki ofnýttir. Hann nefndi síðan nokkur atrið sem hann telur mikilvæg í sambandi við endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar, og gagnrýndi framkvæmdastjórnina fyrir að vera ekki nægilega ákveðin í að vinna að því að fiskveiðistefnan verði raunverulega sameiginleg stefna. Hann lagði mikla áherslu á að kerfi byggt á framseljanlegum kvótum verði skoðuð betur en hingað til hefur verið gert. Otto Gregussen, sjávarútvegsráðherra Noregs, fjallaði einkum um stjórnun fiskistofna, og tók dæmi um hrun og uppbyggingu Norsk-íslensku síldarinnar og þorsks í Barentshafi. Seinni hluta málþingsins komu ræðumenn frá greininni og rannsóknaumhverfi.

Zbigniew Karnicki frá FAO fjallaði um sjávarútveg víðsvegar á jörðinni, helstu vandamál sem er við að glíma og aðgerðir sem gripið hefur verið til í því skyni að bæta fiskveiðistjórnun og nýta fiskistofna betur. Ragnar Árnason prófessor fjallaði um fiskveiðistjórnun frá fræðilegum sjónarhóli, með dæmum frá Íslandi. John Casey, fiskifræðingur frá Lowestoft, gerði grein fyrir sínum hugmyndum um helstu viðfangsefni fiskifræðinnar í fiskveiðistjórnun í framtíðinni.

Þrír síðustu ræðumennirnir komu frá atvinnuveginum og greindu frá sínum viðhorfum varðandi fiskveiðistjórnun í framtíðinni. Þeir eru Guðmundur Kristjánsson útgerðarmaður, Terje Martinussen framkvæmdastjóri samtaka fiskvinnslufyrirtækja í Noregi og Juan Liria Franch frá samtökum úthafsútgerða á Spáni.

Ræður eru fyrirliggjandi hjá sendiráði Íslands í Brussel og í sjávarútvegsráðuneytinu.


Utanríkisráðuneytið,
sjávarútvegsráðuneytið,
Reykjavík 30. janúar 2001

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta