Nr. 03/2001 - Blaðamannaf. v/álitsgerðar Eiríks Tómassonar, prófessors.
Fréttatilkynning frá landbúnaðarráðuneytinu nr. 03/2001
Blaðamannafundur
Landbúnaðarráðuneytið boðar til blaðamannafundar til kynningar á álitsgerð Eiríks Tómassonar, prófessors um innflutning á írskum nautalundum í desember s.l.
Fundurinn verður haldinn í sal 2 í Borgartúni 6, kl. 15:00 í dag, 31. janúar 2001.
Í landbúnaðarráðuneytinu,
31. janúar 2001
31. janúar 2001
Úthendi fyrir blaðamannafund 31. janúar 2001
1. Í kjölfar gagnrýni á embætti yfirdýralæknis og landbúnaðarráðuneytið vegna innflutnings á írskum nautalundum til Íslands þann 22. desember s.l. bað landbúnaðarráðherra Eirík Tómasson, lagaprófessor, að yfirfara hvort farið hafi verið að lögum þegar leyfi fyrir þennan innflutning var veitt. Álitsgerð Eiríks Tómassonar liggur nú fyrir. Hún er vönduð og ítarleg og eru staðreyndir málsins dregnar fram með skýrum hætti.
2. Í álitsgerðinni kemur fram að embætti yfirdýralæknis hafi farið eftir ákvæðum laga um dýrasjúkdóma og sinnt lögboðinni rannsóknarskyldu sinni þegar það mælti með því að innflutningur á umræddum írskum nautalundum yrði leyfður. Embættið hafi krafið innflytjanda vörunnar um öll gögn sem nauðsynleg voru, að mati embættisins, til að fullnægja skilyrði laga um að sannað þætti að ekki bærist smitefni með hinni innfluttu vöru. Eins og alþjóðlegar skuldbindingar mæla fyrir um liggja vísindaleg rök að baki þessu mati embættis yfirdýralæknis, m.a. niðurstöður vísindanefndar Evrópusambandsins, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar dýra og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.
3. Niðurstaða Eiríks er að með innflutningnum hafi ekki verið brotið efnislega í bága við lög um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Kemst hann og að þeirri niðurstöðu að tilgreind ákvæði auglýsingar landbúnaðarráðuneytisins nr. 324/1999 og reglugerðar nr. 479/1995 hafi ekki næga stoð í núgildandi lögum, sem eru þessum stjórnvaldsfyrirmælum æðri. Sú ákvörðun að fylgja lögum frekar en stjórnvaldsfyrirmælum hafi því verið rétt og að óbreyttum lögum ætti að breyta orðalagi stjórnvaldsfyrirmælanna til samræmis við núgildandi lagaákvæði.
4. Starfsmenn ráðuneytis og yfirdýralæknis hafa á undanförnum árum leitast við að túlka ákvæði núgildandi stjórnvaldsfyrirmæla til samræmis við lög og alþjóðlegar skuldbindingar og talið sig uppfylla skilyrði laga með annars konar upplýsingum en fyrirmælin kveða á um. Heppilegra hefði verið að breyta stjórnvaldsfyrirmælunum um leið og ágallar þeirra komu í ljós og er miður að svo hafi ekki verið gert. Í þessu sambandi skal nefnt að ríkisstjórn Íslands hefur falið Eiríki Tómassyni og Skúla Magnússyni, lektor, að gera úttekt á lögum, reglum og alþjóðlegum skuldbindingum Íslands, m.a. með tilliti til þess hvort auka megi takmarkanir á innflutningi kjöts og kjötvöru til þess að koma í veg fyrir að hingað til lands berist sjúkdómar, sem hættulegir geta verið heilbrigði manna og dýra. Landbúnaðarráðuneytið mun miða aðgerðir sínar við niðurstöður þeirrar úttektar, og gera þær tillögur um lagabreytingar sem nauðsynlegar kunna að vera til að treysta fyrirkomulag innflutningsmála og haga stjórnvaldsfyrirmælum sínum í samræmi við slíkar breytingar.
5. Það skal áréttað að túlkun og framkvæmd Íslands á samningi WTO um beitingu ráðstafana um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna er sú strangasta meðal aðildarríkja stofnunarinnar. Meginreglan hérlendis er sú að innflutningur á hráum sláturafurðum og öðrum landbúnaðarafurðum sem tilgreindar eru í lögum um dýrasjúkdóma er bannaður þar til hann kann að vera leyfður að ströngum skilyrðum uppfylltum. Ekki er vitað til þess að annars staðar ríki það almenna fyrirkomulag að bann skuli vera reglan og innflutningur undantekningin. Fyrir vikið hefur ekki verið talin ástæða til bráðaaðgerða vegna kúariðuvandans í Evrópu, eins og ýmsar þjóðir með opnara innflutningsfyrirkomulag hafa þurft að grípa til. Hérlendis er hægt að leggja vísindalegt mat á heilnæmi innfluttrar vöru, tilfelli fyrir tilfelli.
6. Í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar verða ráðstafanir um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna að byggjast á vísindalegum meginreglum og þeim má ekki viðhalda án fullnægjandi vísindalegra sönnunargagna. Sem matvælaframleiðandi sem er að verulegu leyti háður milliríkjaviðskiptum hefur Ísland lagt mjög ríka áherslu á gildi vísindalegra raka í öllum aðgerðum er hafa áhrif á viðskipti með matvæli. Það er mjög mikilvægt að rýra ekki það traust sem málflutningur okkar hefur notið og skapa óvissu um mikilvæga hagsmuni með aðgerðum sem eiga sér ekki vísindalegan grundvöll. Slíkt getur kallað á skaðlegar gagnaðgerðir með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
7. Í álitsgerð Eiríks má finna aðfinnslur hvað varðar stjórnsýslulega meðferð innflutnings landbúnaðarvara, sem falla undir tollkvótaskuldbindingar Íslands á vettvangi WTO. Skapast hefur verklag í samstarfi hlutaðeigandi ráðuneyta og stofnana sem hefur miðað að því að gera nokkuð íþyngjandi ferli viðráðanlegra, bæði fyrir yfirvöld og innflytjendur. Þannig hefur verið litið á að skilyrt heimild landbúnaðarráðuneytisins til innflutnings skv. búvörulögum nái jafnframt til þeirrar heimildar sem liggja þarf fyrir skv. lögum um dýrasjúkdóma. Í álitsgerðinni er bent á að þessar heimildir séu lögformlega aðskildar og því þurfi ráðuneytið í raun yfirfara og heimila sama innflutninginn tvisvar. Þó þessi formlegi ágalli hafi ekki haft efnisleg áhrif er hér á ferðinni verklag sem krefst lagfæringar og hafa fyrirmæli um nauðsynlegar breytingar þegar verið gefin.
Landbúnaðarráðuneytið, 31. janúar 2001