Hvatningarátak í menntunarmálum kvenna
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 2/2001
Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, jafnréttisnefnd Háskóla Íslands, Jafnréttisstofa, verkfræðideild Háskóla Íslands, Hagsmunafélag um eflingu verk- og tæknifræðimenntunar á háskólastigi og kvennanefnd Verkfræðingafélags Íslands boða til blaðamannafundar í iðnaðar og viðskiptaráðuneytinu fimmtudaginn 15. febrúar kl. 14.00 þar sem kynnt verður:
Hvatningarátak í öllum framhaldsskólum landsins sem miðar að því að fjölga kvennemendum í verk-, tækni- og tölvunarfræðinámi á háskólastigi.
Háskóli Íslands og Jafnréttisstofa, í samstarfi við fjögur ráðuneyti, fjögur fyrirtæki og tvenn samtök, munu á árunum 2000-2002 standa fyrir víðtæku jafnréttisátaki. Á framkvæmdaáætlun þess er m.a. hvatningarátak í framhaldsskólum sem miðar að því að fjölga kvennemendum í verk-, tækni- og tölvunarfræðinámi á háskólastigi, en hlutfall kvenna í þessum greinum er um og innan við 20% þótt vissulega hafi þeim fjölgað á undanförnum árum. Meginaðferð hvatningarátaksins er að kvennemendur og útskrifaðar konur í verk-, tækni- og tölvunarfræði hvetji kvennemendur í framhaldsskólum til að velja fögin sem námsbraut á efri stigum menntunar sinnar.
Konur, alls um fjörutíu talsins, sem ýmist hafa lokið eða stunda nám í verk-, tækni- og tölvunarfræðum munu frá og með 20. febrúar og til og með 15. mars nk. heimsækja alla framhaldsskóla landsins og kynna nám og störf í tæknigreinum. Þá munu fyrirtækin Eimskipafélag Íslands, Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur, Verkfræðistofan Línuhönnun, Marel, Hugvit, og fleiri fyrirtæki bjóða kvennemendum framhaldsskólanna í heimsókn, þar sem kynnt verður vinnuumhverfi og starfssvið tæknimenntaðs starfsfólks þeirra.
Á fundinum munu Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og eftirtaldir aðilar kynna hvatningarátakið:
Sigríður Þorgeirsdóttir, formaður jafnréttisnefndar Háskóla Íslands.
Valdimar K. Jónsson, deildarforseti verkfræðideildar Háskóla Íslands.
Ingi Bogi Bogason, Hagsmunafélagi um eflingu verk- og tæknifræðimenntunar.
Rósa Erlingsdóttir, verkefnisstjóri jafnréttisátaksins.
Ólafur Jón Arnbjörnsson, Félag íslenskra framhaldsskóla.
Kolbrún Reinholdsdóttir, rafmagnsverkfræðingur, Kvennanefnd VFÍ.
Valdís Björk Friðbjörnsdóttir, tölvunarfræðingur.
Margrét Edda Ragnarsdóttir, nemi í rafmagnsverkfræði við Háskóla Íslands.
Inga Björg Hjaltadóttir, Eimskipafélagi Íslands.
Helga Jóhannsdóttir og Margrét Óskarsdóttir, Landsvirkjun.
Guðmundur Ómar Hafsteinsson, fulltrúi Stúdentaráðs í verkefnisstjórn jafnréttisátaksins.
Reykjavík, 14. febrúar 2001.