Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 2001 Dómsmálaráðuneytið

Fréttatilkynning um námskeið í fíkniefnalöggæslu

Fréttatilkynning
nr. 06/ 2001

Námskeið í fíkniefnalöggæslu með sérstaka áherslu á fíkniefnaeftirlit á flugvöllum



Þrír sérfræðingar frá fíkniefnastofnun bandaríska dómsmálaráðuneytisins DEA eru nú staddir hér á landi til þess að halda námskeið í fíkniefnalöggæslu með sérstaka áherslu á fíkniefnaeftirlit á flugvöllum (Jetway Program). Haldin verða tvö tveggja daga námskeið og hefst það fyrra í dag 26. febrúar. Námskeið þetta er sérsniðið fyrir þá sem vinna við löggæslu og tollgæslu á flugvöllum. Auk starfsmanna Lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli sækja námskeiðið starfsmenn ávana- og fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík og aðrir lögreglumenn sem starfa við fíkniefnalöggæslu. Hefur bandaríska sendiráðið á Íslandi og í Kaupmannahöfn haft milligöngu um komu sérfræðinganna til landsins að beiðni dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra, en Lögregluskóli ríkisins hefur annast umsjón og skipulagningu námskeiðsins.

Á síðasta ári komst á samstarf íslenskra og bandarískra lögregluyfirvalda í kjölfar heimsóknar dómsmálaráðherra, Sólveigar Pétursdóttur til Bandaríkjanna í nóvember 1999. Þar átti hún fund með Janet Reno dómsmálaráðherra og háttsettum embættismönnum í löggæslumálum og forsvarsmönnum í baráttu gegn eiturlyfjavandanum. Á fundi þessum var meðal annars rætt um að koma á samvinnu milli ríkjanna um aðferðir í baráttunni við eiturlyfjavandanum, m.a. í þjálfun lögreglumanna bæði hvað varðar fíkniefnalöggæslu og þjálfun við landamæraeftirlit, nýjasta tækjabúnað sem beitt er í við leit að fíkniefnum og aðra fíkniefnalöggæslu.

Sólveig Pétursdóttir hefur í ráðherratíð sinni lagt mikla áherslu á að efla fíkniefnalöggæslu. Hefur hún beitt sér fyrir nánari samvinnu íslenskra og bandarískra lögregluyfirvalda, og er námskeið það sem hér um ræðir liður í því að íslenskir löggæslumenn fái markvissa þjálfun sem nýst getur þeim við baráttuna við eiturlyfjavandann. Með hliðsjón af þeim skyldum sem íslenska ríkið hefur tekist á herðar með aðild að Schengen samkomulaginu hefur ráðherra lagt á það áherslu að íslenskir lögreglumenn og aðrir þeir er koma að landamæravörslu og tengdum málaflokkum, fái þá tilsögn og þjálfun sem unnt er að veita, svo mögulegt verði að uppfylla þær auknu kröfur um öryggi og skilvirkni persónueftirlits sem skylt er samkvæmt samkomulaginu.

Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
26. febrúar 2001.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum