18. febrúar - 2. mars 2001
Fréttapistill vikunnar
18. febrúar - 2. mars 2001
Ráðstefna um menntun heilbrigðisstétta og mannaflaspár
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið efnir 3. apríl nk. til ráðstefnu um menntun heilbrigðisstétta og mannaflaspár heilbrigðisþjónustunnar. Ein af ástæðum þess að efnt er til þessarar ráðstefnu er nauðsyn þess að heilbrigðisþjónustunni verði tryggður nægjanlegur mannafli sem tileinkað hefur sér menntun, kunnáttu og færni sem svara kröfum og fyrirsjáanlegum þörfum fyrir þjónustu í framtíðinni. Ráðstefnan er jafnframt áfangi í þeirri viðleitni heilbrigðisyfirvalda að tryggja að menntun heilbrigðisstétta verði í betra samræmi við mannaflaspár og mat á mannaflaþörf í heilbrigðisþjónustunni.
Nánar>
Starfsemi Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar endurskipulögð
Frumvarp til breytinga á lögum um Heyrnar- og talmeinastöð Íslands (HTÍ) verður lagt fram nú á vorþingi. Fyrir liggja drög að samningi um árangursstjórnun við stofnunina og verið er að skoða möguleika þess að veita læknisfræðilega þjónustu við HTÍ á grundvelli þjónustusamnings við Háls- nef- og eyrnadeild Landspítala - háskólasjúkrahúss. Ferðir starfsmanna HTÍ út á land hafa að mestu legið niðri undanfarin ár vegna skorts á fjármagni og fagmenntuðu starfsfólki. Nú er í undirbúningi að taka þær upp að nýju og jafnframt er í athugun hvort stofnunin geti komið upp þjónustueiningum á landsbyggðinni. Þetta kom fram í svari Ingibjargar Pálmadóttur, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurnum um málefni HTÍ á Alþingi í vikunni. Ráðherra sagði brýnasta verkefnið nú að stytta biðtíma þeirra sem þurfa á þjónustu HTÍ að halda og markvisst væri unnið að því. Bið eftir heyrnarmælingu og læknisskoðun er að jafnaði þrír mánuðir, en bið eftir afhendingu heyrnartækja er mun lengri eða allt að ár í einstökum tilvikum. Eftirspurn eftir heyrnartækjum hefur aukist mjög mikið samhliða tækninýjungum og hækkaðs meðalaldurs þjóðarinnar. Ráðherra sagðist sannfærður um að með endurskipulagningu á starfsemi HTÍ batni þjónustan en kostnaður muni jafnframt aukast.
Tilmæli frá landlæknisembættinu
Landlæknisembættið hefur lagt bann við notkun catgut sauma við skurðaðgerðir og sárameðferð á Íslandi í samræmi við niðurstöðu eftirlitsnefndar um lækningatæki hjá Evrópusambandinu. Catgut er framleitt úr smáþörmum nautgripa og eru nautgripagarnir taldar geta borið kúariðusmit sé þeirra neytt. Mælst er til þess að brigðum sé eytt.
Nánar >
Krabbameinsfélag Íslands 50 ára
Krabbameinsfélag Íslands efnir til söfnunarátaks meðal landsmanna á morgun, 3. mars, í tilefni af hálfrar aldar afmæli félagsins. Krabbameinsfélagið gegnir margþættu hlutverki og hefur unnið mikið brautryðjandastarf á sviði krabbameinsleitar, fræðslu og rannsókna, auk þess sem það sinnir ráðgjöf og veitir sjúklingum og aðstandendum þeirra ýmsa þjónustu. Í tengslum við söfnunarátakið hefur Krabbameinsfélagið opnað sérstakan söfnunarvef á Netinu. Slóðin er:
http://www.krabbamein2001.is>
23.febrúar 2001