Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2001 Innviðaráðuneytið

Þjónustuver í Snæfellsbæ

Undirritaður var af samgönguráðherra, Sturlu Böðvarssyni, vegamálastjóra, Helga Hallgrímssyni, flugmálastjóra, Þorgeiri Pálssyni, forstjóra Siglingastofnunar, Hermanni Guðjónssyni, og bæjarstjóranum í Snæfellsbæ, Kristni Jónassyni, í gær í Ólafsvík samningur um þjónustuver samgöngumála í Snæfellsbæ.

Jafnframt kynnti samgönguráðherra á fundinum um flutning starfa á vegum stofnana samgönguráðuneytisins út á land.

Samgönguráðherra setti fram í bréfi, dags. 26. september 1999, til undirstofnana ráðuneytisins þá skýru stefnu að leita skyldi leiða til að flytja störf út á landsbyggðina. Í bréfinu sagði m.a.:

"Eins og kunnugt er þá hefur búsetuþróunin í landinu verið landsbyggðinni mjög óhagstæð hin síðari ár. Ástæður þeirrar þróunar eru margvíslegar. Talið er að fjölgun atvinnutækifæra á vegum opinberra aðila á höfuðborgarsvæðinu eigi sinn þátt í þessari óæskilegu þróun. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að með markvissum ráðstöfunum muni ríkisstjórnin beita sér fyrir því að undirstöður byggðar í landinu verði treystar. Liður í þeirri viðleytni er að auka fjölbreytni í atvinnutækifærum og staðsetja stofnanir utan höfuðborgarsvæðisins eftir því sem unnt er.

Með vísan til þessa, er hér með óskað eftir því við stofnanir ráðuneytisins að áður en nýtt starfsfólk er ráðið til starfa í ný verkefni eða starfsmenn færðir milli verkefna, verði kannað hvort unnt sé að vinna viðkomandi verk utan höfuðborgarsvæðisins, og þá helst á þeim svæðum þar sem atvinnulíf er einhæft."

Stofnanir samgönguráðuneytisins hafa brugðist við þessu bréfi með ýsmum hætti. Helst ber að nefna eftirtalin verkefni:

Þjónusta á flugvöllum á landsbyggðinni

Undirritaður hefur verið samningur milli Flugmálastjórnar og Akureyrarbæjar varðandi slökkvi- og björgunarþjónustu á Akureyrarflugvelli. Samninginn undirrituðu samgönguráðherra, varaflugmálastjóri f.h. flugmálastjóra og bæjarstjórinn á Akureyri.

Samningurinn felur í sér að Slökkvilið Akureyrar tekur að sér að annast slökkvi- og björgunarstörf og verkefni sem lúta að öryggismálum á Akureyrarflugvelli, sem Slökkvilið Akureyrarflugvallar á vegum Flugmálastjórnar hefur sinnt til þessa. Að auki mun Slökkvilið Akureyrar taka að sér faglega umsjón og þjálfun með slökkvi- og brunavarnarmálum á landsbyggðarflugvöllum Flugmálastjórnar, þ.e. öllum völlum öðrum en í Reykjavík og Keflavík. Þessi þjálfun hefur fram að þessu farið fram í Reykjavík. Slökkvilið Akureyrar mun bjóða þremur fastráðnum starfsmönnum flugvallarslökkviliðsins störf hjá sér, en í kjölfarið mun slökkviliðsmönnum á Akureyrarflugvelli verða fjölgað í sjö og hálft stöðugildi með tilkomu samningsins.

Með þessum samningi hefur Flugmálastjórn haldið áfram á þeirri braut að fela sveitarfélögum rekstur flugvallarslökkviliða. Stofnunin hefur gert sams konar samning við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs. um slökkvi- og björgunarþjónustu á Reykjavíkurflugvelli. Samningurinn er gerður til sex ára.

Um þessar mundir er verið að ráða í fjórar nýjar stöður vegna aukins viðbúnaðar á áætlunarflugvöllunum á Egilsstöðum, Höfn og Vestmannaeyjum. Nokkur reynsla er komin á samning um sameiginlegan rekstur slökkviliðs á Egilsstöðum á milli sveitarfélagsins og Flugmálastjórnar og í burðarliðnum er samningum við Fjarðarbyggð um rekstur flugvallarins í Norðfirði. Jafnframt hefur flugmálastjóra verið falið að undirbúa frekari samninga á þessu sviði, sbr. bréf ráðuneytisins til Flugmálastjórnar sl. haust er sagði m.a.:
"Í framhaldi af þeim samningum sem gerðir hafa verið að undanförnu um rekstur slökkviliðs á Reykjavíkurflugvelli og á Akureyrarflugvelli telur ráðuneytið mikilvægt að þessu verki verði haldið áfram og að leitað verði eftir samstarfi við önnur bæjarfélög um slökkviþjónustu á flugvöllum.
Í þessu sambandi hefur ráðuneytið í huga samstarf við Vestmannaeyjabæ, Ísafjarðarkaupstað, Hornafjarðarkaupstað og Sauðárkróksbæ.
Jafnframt verði samningur við Brunavarnir Héraðsbúa um slökkviþjónustu á Egilsstaðaflugvelli endurskoðaður með hliðsjón af fyrrgreindum samningum."
Þá er á vegum Flugmálastjórnar í auknum mæli keypt hönnunarvinna utan höfuðborgarsvæðisins, svo og ýmiskonar viðhaldsþjónusta.

Á heildina litið skapa þessar breytingar um það bil sex ný störf á landsbyggðinni.

Þjónustuver í Snæfellsbæ

Samgönguráðuneytið, Vegagerðin, Flugmálastjórn Íslands, Siglingastofnun Íslands og Snæfellsbær hafa gert með sér samning um rekstur þjónustuvers samgöngumála í Snæfellsbæ fyrir Snæfellsbæ og Snæfellsnes. Tilgangur samstarfs þessa er að þróa starfsaðferðir til að bæta þjónustu samningsaðila á svæðinu, samnýta tækjakost og starfskrafta eins og unnt er og tryggja öryggi þjónustunnar. Staðsetning starfseminnar verður í húsnæði Vegagerðarinnar í Ólafsvík og skal þjónustuverið rekið sem verkefni með sérstakri kennitölu.

Ákveðið hefur verið að ráðinn verði forstöðumaður fyrir þjónustuverið, sem hafi yfirumsjón með starfseminni, sé ábyrgur fyrir að framfylgja því þjónustustigi sem skilgreint verður, stjórni starfsmönnum samningsaðila og beri fjárhagslega ábyrgð gagnvart samningsaðilum. Starfsmenn þeirra stofnana sem þátt taka í verkefninu verða áfram starfsmenn viðkomandi stofnana, fyrst um sinn a.m.k. Í stjórn þjónustuvers verða þrír menn, einn frá samgönguráðuneyti, einn frá Vegagerðinni og einn frá Snæfellsbæ. Samningsaðilar eru sammála um að verkefni þetta sé tilrauna- og þróunarverkefni, þar sem taka getur þurft ákvarðanir um breytingar með stuttum fyrirvara. Skapist þær aðstæður skal öllum aðilum samnings þessa tilkynnt um slíkt. Samningurinn gildir til ársloka 2002. Við þessa breytingu verður til eitt nýtt starf.

Sjálfvirka tilkynningarskyldan og strandarstöðvaþjónusta

Mikilsverðir öryggishagsmunir eru tengdir strandarstöðvum en rekstur þeirra hefur verið í höndum Póst-og símamálastofnunar, Pósts og síma hf. og nú síðast Landssíma Íslands hf. Vegna væntanlegrar sölu fyrirtækisins og aukinnar áherslu á að fjarskiptaþjónusta lúti sjónarmiðum samkeppnisrekstrar var talið óhjákvæmilegt að aflétta þeirri kvöð af Landssímanum að hann starfræki strandarstöðvar með umtalsverðu tapi. Því var, eins og kynnt hefur verið í ríkisstjórn, á síðasta ári gerður samningur um strandarstöðvaþjónustu við skip við Íslandsstrendur á milli Póst- og fjarskiptastofnunar f.h. ríkisins við Landssíma Íslands hf. um þjónustu við strandarstöðvar. Samningurinn gildir til 1. janúar 2003 hið lengsta. Í strandarstöðvum fer fram mikilvæg starfsemi í þágu öryggis sæfarenda, m.a. rekstur sjálfvirkrar tilkynningarskyldu, rekstur og hlustun á neyðar- og öryggisþjónustu, almenn fjarskiptaþjónusta við skip og útsending á öryggistilkynningum (Navtex) til íslenskra sjófarenda. Samgönguráðherra hefur áður kynnt þá ákvörðun að bjóða út rekstur þessarar þjónustu úti á landi. Gert er ráð fyrir fjórum til sex stöðugildum við þjónustuna.

Útibú Siglingastofnunar

Siglingastofnun Íslands hefur sett af stað nokkuð umfangsmikið verkefni tengt flokkun og skráning skannaðra teikninga í útibúi sínu á Ísafirði. Jafnframt hefur verið ákveðið að þar verði unnið skipulag og úrvinnsla vegna skyndiskoðana fiskiskipaflotans. Um er að ræða tæpt stöðugildi.

Rannsóknarnefnd sjóslysa

Ákveðið hefur verið að Rannsóknarnefnd sjóslysa verði staðsett í Stykkishólmi. Gert er ráð fyrir að nefndin verði með aðsetur í flugstöðinni á Stykkishólmsflugvelli. Við nefndina er eitt og hálft stöðugildi á ársgrundvelli.

Upplýsingaþjónusta Vegagerðarinnar til Ísafjarðar

Ákveðið hefur verið að Vegagerðin flytji skiptiborð og hluta af upplýsingaþjónustu við vegfarendur til Ísafjarðar. Þar verður því aðal símsvörun Vegagerðarinnar og svarað í símanúmerið 1777 og veittar upplýsingar um færð og veður. Til athugunar er að öll símsvörun fyrir samgönguráðuneytið og aðrar stofnanir þess verði flutt vestur þegar reynsla er komin á verkefnið. Rætt hefur verið við Landssíma Íslands um tæknilega lausn á málinu.

Að ósk samgönguráðherra hefur Vegagerðin gert áætlun um eflingu starfsemi sinnar á landsbyggðinni. Er þar bæði um að ræða flutning verkefna frá Reykjavík út á land og staðsetningu nýrra starfa á landsbyggðinni. Vegagerðin lítur á þetta sem þróunarverkefni, sem standa muni yfir í allmörg ár. Þau störf sem um er að ræða, eru á sviði upplýsingaþjónustu, eftirlits af ýmsu tagi, gagnasöfnunar, gagnavinnslu, símsvörunar, umferðar- og umferðaröryggis og veghönnunar. Sum þessara starfa krefjast tæknimenntunar en önnur byggja á almennri menntun. Umdæmisskrifstofur Vegagerðarinnar eru á Selfossi, Borgarnesi, Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri og Reyðarfirði, og á þessum stöðum er þungi starfseminnar í hverju umdæmi. Miðað er við að hin nýju störf verði til á ofangreindum stöðum og þá einkum á þeim stöðum, sem fjær liggja höfuðborginni. Þó nokkur kostnaður mun fylgja þessum aðgerðum. Mun Vegagerðin gera tillögur til samgönguráðherra um hvernig honum verði mætt.

Vegagerðin kaupir mikið af þjónustu af einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum. Reynt verður að beina þessum kaupum í meira mæli til aðila á landsbyggðinni heldur en verið hefur til þessa. Jafnframt því, sem stefnan er ákveðin fyrir næstu ár, verður farið í athuganir og undirbúning að frekari eflingu starfsemi Vegagerðarinnar á landsbyggðinni í framtíðinni.

Fram til ársins 2002 stefnir Vegagerðin að því að efna til fjögurra til sex nýrra starfa á ári á landsbyggðinni eða alls tólf til átján störf. Er þá átt við störf flutt úr Reykjavík og ný störf hjá Vegagerðinni.

Íslandspóstur hf.

Á vegum Íslandspósts hf. hefur aðalskiptiborð og þjónustuver fyrirtækisins fyrir einstaklinga verið flutt til Akureyrar, pökkun fyrsta dags umslaga verið flutt til Ísafjarðar, frímerkjavarsla í Borgarnes, vinna við ársmöppur í Búðardal og unnið er að flutningi á smávörulager fyrirtækisins til Blönduóss. Þessar ákvarðanir þýða um það bil átta til tíu ársverk sem flutt eru út á land.

Landssími Íslands hf.

Svarað er í upplýsingasíma Landssímans, 118, á fjórum stöðum á landinu, það er í Reykjavík, Ísafirði, Akureyri og Egilsstöðum. Stjórn fyrirtækisins hefur nýverið samþykkt að fjölga um 20-30 störf við 118 á landsbyggðinni á þessu ári.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta