-Nýir vikulegir fréttapistlar - 18. febrúar - 2. mars 2001 - nánar
Ráðstefna um menntun heilbrigðisstétta og mannaflaspár
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið efnir 3. apríl nk. til ráðstefnu um menntun heilbrigðisstétta og mannaflaspár heilbrigðisþjónustunnar. Ein af ástæðum þess að efnt er til þessarar ráðstefnu er nauðsyn þess að heilbrigðisþjónustunni verði tryggður nægjanlegur mannafli sem tileinkað hefur sér menntun, kunnáttu og færni sem svara kröfum og fyrirsjáanlegum þörfum fyrir þjónustu í framtíðinni. Ráðstefnan er jafnframt áfangi í þeirri viðleitni heilbrigðisyfirvalda að tryggja að menntun heilbrigðisstétta verði í betra samræmi við mannaflaspár og mat á mannaflaþörf í heilbrigðisþjónustunni.
Nánar:
Norðurlandaþjóðirnar hafa í vaxandi mæli gert langtímaáætlanir um menntun heilbrigðisstétta og mannaflaþörf heilbriðisþjónustunnar. Svíar hafa um árabil stuðst við 10 - 15 ára áætlanir sem endurskoðaðar eru árlega. Danir hafa nýlega birt drög að langtímaáætlun á þessu sviði og í Noregi er slík áætlun í vinnslu. Ástæðurnar eru vaxandi skortur á vel menntuðu heilbrigðisstarfsfólki og fyrirsjánleg aukning á verkefnum heilbrigðisþjónustunnar, m.a. vegna aukins fjölda aldraðra. Ennfremur á heilbrigðisþjónustan í vaxandi samkeppni við aðrar atvinnugreinar um vinnuafl. Ráðstefnan hefst með því að Ingibjörg Pálmadóttir heilbrigðisráðherra setur ráðstefnuna og Davíð Á. Gunnarsson ráðuneytisstjóri fjallar síðan um áætlanir heilbrigðisyfirvalda til þess að tryggja nægjanlega mönnun heilbrigðisþjónustunnar. Á ráðstefnunni munu sérfræðingar frá Danmörku og Svíþjóð gera grein fyrir því hvaða leiðir þessar þjóðir telja færar til þess að manna heilbrigðisþjónustuna eins og þörf er á, nú og í framtíðinni. Rektorar Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands ásamt forsetum læknadeildar og hjúkrunarfræðideildar HÍ munu lýsa framtíðarsýn sinni varðandi menntun heilbrigðisstétta. Fulltrúar fagstétta munu gera grein fyrir mannaflaspám og aðgerðum til þess að ráða bót á skorti á heilbrigðisstarfsfólki. Í lok ráðstefnunnar stýrir Ragnheiður Haraldsdóttir skrifstofustjóri pallborðsumræðum fyrirlesara. Ráðstefnan verður haldinn í Salnum í Tónlistarhúsinu í Kópavorgi og hefst kl. 13.00 og lýkur um kl. 17.00.
Nánari upplýsingar um ráðstefnuna veita Ingimar Einarsson skrifstofustjóri og Margrét Björnsdóttir deildarstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu.