Hoppa yfir valmynd
2. mars 2001 Matvælaráðuneytið

Fundur fiskinefndar Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO. 02.03.01

Fréttatilkynning
frá sjávarútvegsráðuneyti og utanríkisráðuneyti

Á fundi fiskinefndar Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO, er lauk í dag voru fjölmörg mál á dagskrá er varða íslenskan sjávarútveg. Þar á meðal var ný skýrsla sérfræðingahóps FAO um ríkisstyrki í sjávarútvegi, en íslensk stjórnvöld hafa unnið markvisst að því, m.a. á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, FAO og OECD, að gert verði alþjóðlegt samkomulag um afnám ríkisstyrkja í sjávarútvegi. Megin niðurstöður skýrslunnar eru þær að þrátt fyrir að sterk rök séu fyrir því að ríkisstyrkir hafi áhrif á viðskipti með sjávarafurðir og ýti undir aukna sóknargetu og rányrkju þá liggi ekki fyrir fullnægjandi upplýsingar þessu til staðfestingar. Afla þurfi frekari upplýsinga og svara þurfi fjölmörgum spurningum. Niðurstaða sérfræðinganna vakti vonbrigði á fundinum og var skýrsla þeirra harðlega gagnrýnd fyrir of fræðilega nálgun viðfangsefnisins.
Að tillögu Íslands, sem studd var m.a. af Argentínu, Ástralíu, Bandaríkjunum, Chile, Namibíu, Nýja Sjálandi, Noregi og Perú samþykkti nefndin að vinnu sérfræðinganna yrði haldið áfram og að leitað verði svara við þeim spurningum sem þeir létu ósvarað. Jafnframt var ákveðið að gefa aðildarríkjunum kost á að tefla fram sínum sérfræðingum og upplýsingum um áhrif ríkisstyrkja á viðgang fiskistofna og viðskipti með sjávarafurðir. Auk þessa var FAO falið að safna saman og samræma upplýsingar um ríkisstyrki í sjávarútvegi sem liggja fyrir hjá öðrum alþjóðastofnunum.
Sendinefnd Íslands kynnti á fundinum hvernig norrænu ríkin vilja að unnið sé að umhverfismerkingum sjávarafurða. Mælt var með því að FAO fengi það hlutverk að þróa leiðbeinandi reglur og viðmið fyrir slíkar merkingar til að koma í veg fyrir að umhverfismerkingar sjávarafurða verði að tæknilegum viðskiptahindrunum og villi um fyrir neytendum.
Þá var á fundinum samþykkt valfrjáls alþjóðleg framkvæmdaáætlun um ólöglegar, óskráðar og ótilkynntar fiskveiðar.
Auk þessara mála voru til umfjöllunar mörg mál er varða hagsmuni íslensks sjávarútvegs eins og hvort CITES-samningurinn um viðskipti með dýr og plöntur í útrýmingarhættu eigi að taka til viðskipta með fiskafurðir.
Í málflutningi íslensku sendinefndarinnar var einnig lögð sérstök áhersla á að hrint verði í framkvæmd samstarfsverkefni Alþjóðabankans og FAO um aðstoð við þróunarríkin við að byggja upp ábyrga og sjálfbæra fiskveiðistjórnun. Íslensk stjórnvöld áttu verulegan þátt í að móta þetta brýna verkefni, enda hefur Ísland verið leiðandi í þróunaraðstoð á sviði sjávarútvegs. Mörg þróunarríki eiga auðug fiskimið og rúmlega 50% af fiskafurðum á alþjóðamörkuðum koma frá þróunarríkjunum. Mörg þessara ríkja hafa hins vegar enga eða litla fiskveiðistjórnun og mörg þeirra eru berskjölduð fyrir rányrkju erlendra fiskiskipa.
Fiskinefndin kemur saman annað hvert ár í Róm og sækja fundina fulltrúar ríflega 100 aðildarríkja FAO. Formaður íslensku sendinefndarinnar á fundi nefndarinnar var Kolbeinn Árnason, sjávarútvegsráðuneyti.
Reykjavík 2. mars 2001
utanríkisráðuneytið
sjávarútvegsráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum