Nr. 007, 2. mars 2001 Utanríkisráðherrafundur Norðurlanda í Helsinki, 28. febrúar til 1. mars 2001
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Nr. 007
Fundur utanríkisráðherra Norðurlanda var haldinn 28. febrúar - 1. mars s.l. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sat fundinn sem var sá fyrri af tveimur árlegum fundum ráðherranna.
Utanríkisráðherrarnir ræddu einkum stækkun Evrópusambandsins, niðurstöður leiðtogafundarins í Nice og hugsanlegar afleiðingar þeirrar þróunar fyrir samstarfið á Evrópska efnahagssvæðinu.
Þá lýstu ráðherrarnir áhyggjum sínum yfir framvindu mála í Mið-Austurlöndum og vonuðust til að friðarviðræður mættu komast aftur á skrið.
Ástandið á Balkanskaga var einnig umfjöllunarefni og þá sérstaklega með hvaða hætti bregðast megi við ofbeldisverkum sem grafa undan vonum um varanlegan frið á svæðinu.
Halldór Ásgrímsson hafði framsögu um evrópsk öryggis- og varnarmál. Hann lagði áherslu á nauðsyn náins samstarfs ESB við NATO um framtíðarhlutverk ESB í sameiginlegu öryggi Evrópuríkja. Þá áréttaði hann mikilvægi Atlantshafstengslanna. Í því samhengi vísaði ráðherra til ummæla Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á fundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins sem haldinn var í Brussel 27. febrúar s.l. Þar hefði Powell lýst stuðningi við frumkvæði ESB í varnarmálum, enda yrði það til þess að efla sameiginlegar varnir og styrkja NATO. Sagðist utanríkisráðherra hafa tekið undir þau orð.
Gert er ráð fyrir að halda næsta fund utanríkisráðherra Norðurlanda í lok ágúst n.k. í Finnlandi.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 2. mars 2001.