3. - 9. mars 2001
Fréttapistill vikunnar
3. - 9. mars 2001
Nýr framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunarinnar Ísafjarðarbæ
Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, hefur skipað Þröst Óskarsson, fjármálastjóra, í embætti framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunarinnar Ísafjarðarbæ í samræmi við tillögu stjórnar stofnunarinnar. Þröstur er skipaður frá 15. mars 2001 til næstu fimm ára. Sex sóttu um starfið, en umsóknarfrestur rann út 29. janúar sl. Þriggja manna matsnefnd sem metur hæfni umsækjenda um stöður framkvæmdastjóra sjúkrahúsa fór yfir umsóknirnar, í samræmi við 30. grein laga um heilbrigðisþjónustu. Fjórir umsækjenda uppfylltu skilyrði um menntun og reynslu í stjórnun.
Ellilífeyrisþegum tryggðar lágmarkstekjur án tillits til tekna maka
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur lagt fyrir Alþingi frumvarp um breyting á lögum um almannatryggingar, sem ætlað er að tryggja ellilífeyrisþegum sömu réttindi og örorkulífeyrisþegum voru tryggð með lögum nr. 3/2001 sem sett voru í framhaldi af dómi Hæstaréttar í máli nr. 125/2000. Samkvæmt frumvarpinu verða ellilífeyrisþegum tryggðar ákveðnar lágmarkstekjur án tillits til tekna maka. Lagt er til að tekjutryggingin verði 25.000 kr. á mánuði. Samkvæmt því mun ellilífeyrisþegi sem á maka sem ekki fær lífeyri, hafa að lágmarki 43.424 kr. á mánuði að ellilífeyri meðtöldum, í stað 18.424 kr. áður. Samsvarandi fjárhæð til ellilífeyrisþega sem nýtur hjónalífeyris verður 31.582 kr. í stað 16.582 kr. nú. Eins og fram kom í greinagerð með frumvarpi að lögum nr. 3/2001 er vörðuðu örorkulífeyrisþega var ekki litið svo á að dómur Hæstaréttar um þeirra mál ætti beint við um ellilífeyrisþega. Ríkisstjórnin telur hins vegar að til framtíðar eigi sömu efnisrök við um réttindi ellilífeyrisþega og öryrkja að þessu leyti. Miðað er við að greitt verði samkvæmt reglum frumvarpsins frá 1. janúar sl. og að lögin taki gildi 1. apríl nk. Samkvæmt útreikningum Þjóðhagsstofnunar nemur kostnaðarauki af frumvarpinu um 140 m.kr. árlega, miðað við að ákvæðið nái til allt að 1.200 ellilífeyrisþega. Til viðbótar gætu einhverji ellilífeyrisþegar sem ekki njóta tekjutryggingar átt rétt á greiðslu verði frumvarpið að lögum.
Sjá frumvarpið og greinargerð með því >
Ráðherra vill viðræður milli ríkisvalds og aðila vinnumarkaðarins um rétt foreldra langveikra barna
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra segir brýnt að taka upp viðræður milli ríkisvaldsins og aðila vinnumarkaðarins um rétt foreldra langveikra barna til að vera heima hjá börnum sínum. Þetta kom fram í svari ráðherra við fyrirspurn á Alþingi í vikunni um fjárstuðning við foreldra langveikra barna. Sagðist ráðherra sjá fyrir sér að svipuð leið yrði farin í þessu máli og þegar réttur til fæðingarorlofs var settur í forgang og honum breytt og að næsta skrefið gæti orðið að rýmka mjög rétt foreldra vegna veikra barna sinna. Í svari ráðherra kom fram að engin ríkisstjórn hefur varið jafn miklu fé á jafn skömmum tíma til að bæta þjónustu við langveik börn og aðstandendur þeirra. Minnti ráðherra á ný lög um fæðingarorlof, greiðslur dvalarkostnaðar við sjúkrahúsinnlögn barns yngri en 18 ára fjarri heimili sjá nánar >, breytingar á reglum um umönnunargreiðslur sjá nánar >, nýja barnadeild við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri þar sem aðstaða barna og foreldra er stórlega bætt og loks byggingu barnaspítala.
Breyting á reglum um umönnunargreiðslur
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur staðfest breytingu á reglugerð um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna og tók hún gildi 7. febrúar sl. Fyrir breytinguna var í 4. og 5. gr. reglugerðarinnar miðað við greiðslur vegna umönnunar barna með lífshættulega sjúkdóma, ef um var að ræða börn sem metin voru í 1. og 2. flokki samkvæmt reglugerðinni. Með nýrri reglugerð hefur orðalagi verið breytt og í stað ,,lífshættulegra sjúkdóma" koma orðin ,,alvarlega og langvarandi sjúkdóma". Tryggingastofnun ríkisins hefur ritað bréf til lækna, svæðisskrifstofa, fulltrúa foreldrafélaga, Þroskahjálpar og fleiri sem koma að þessum málum og tilkynnt um breytinguna. Þar er þeim jafnframt boðið að senda inn athugasemdir og ábendingar sem rétt væri að hafa til hliðsjónar þegar vinnureglur Tryggingaráðs verða endurskoðaðar í samræmi við breytta reglugerð.
Vaxandi nýgengi HIV-smits. Sóttvarnarlæknir vill efla forvarnir
Nýgengi HIV-smits hefur farið vaxandi frá árinu 1993. Á sama tíma hefur hins vegar dregið úr nýgengi alnæmis og dánartala vegna þess lækkað, einkum frá árinu 1996. Þetta kemur fram í tölum sem Sóttvarnarlæknir hefur tekið saman og ná til loka síðasta árs. Veruleg breyting hefur orðið á hlutfallslegri skiptingu áhættuhópa frá því að sjúkdómsins varð fyrst vart. Til ársins 1992 voru flestir þeirra sem smituðust samkynhneigðir karlar, en nú eru gagnkynhneigðir orðnir meirihluti þeirra sem greinast með smit. Flestir þeirra sem greinst hafa eru á aldrinum 25 - 29 ára. Frá upphafi hafa samtals verið tilkynnt til sóttvarnarlæknis 143 tilfelli HIV-sýkingar á Íslandi. Þar af hafa 46 sjúklingar greinst með alnæmi og 34 látist af völdum þess. Sl. ár greindust 7 karlar og 3 konur með HIV-smit og einn sjúklingur lést af völdum alnæmis. Enginn sjúklingur greindist hins vegar með alnæmi á liðnu ári. Nýgengi alnæmis hefur lækkað umtalsvert með tilkomu öflugrar lyfjameðferðar gegn HIV-sýkingu en enn greinast sjúklingar með alnæmi og sjúklingar látast vegna þess. Vaxandi nýgengi HIV-smits er áhyggjuefni og telur sóttvarnarlæknir brýna nauðsyn á því að efla forvarnir gegn HIV-smiti með öllum tiltækum ráðum.
Nánar á vef landlæknisembættisins>
9. mars 2001
Póstur til umsjónarmanns: