Fréttatilkynning Sameinuðu þjóðanna með frásögn af fundi íslenskrar sendinefndar með nefnd SÞ um afnám kynþáttamisréttis
Fréttatilkynning
Nr. 08/ 2001
Fundur íslenskrar sendinefndar með nefnd SÞ um afnám kynþáttamisréttis
Meðfylgjandi er fréttatilkynning Sameinuðu þjóðanna með frásögn af fundi íslenskrar sendinefndar með nefnd SÞ um afnám kynþáttamisréttis sem fram fór í Genf 7. mars sl. og fjallar um framkvæmd samnings SÞ frá 1965 um afnám alls kynþáttamisréttis á Íslandi. Ísland hefur verið aðili að samningnum frá 1967. Samkvæmt 9. gr. samningsins um afnám alls kynþáttamisréttis ber aðildarríkjum samningsins að skila reglulega til Sameinuðu þjóðanna skýrslu um ráðstafanir sem þau hafa gert til að fullnægja skuldbindingum sínum samkvæmt samningnum. Á síðasta ári skilaði Ísland 16. skýrslu sinni til nefndarinnar og var hún jafnframt send fjölmiðlum til upplýsingar þann 25. september 2000. Á fundinum í Genf voru ræddar 15. og 16. skýrslur Íslands um framkvæmd samningsins á Íslandi. Síðar í þessum mánuði mun nefndin skila formlegum niðurstöðum sínum með áliti á framkvæmd samningsins hér á landi.
Skýrslan og fyrri skýrslur um framkvæmd samningsins á Íslandi svo og annarra mannréttindasamninga á vegum sameinuðu þjóðanna eru birtar á heimasíðu ráðuneytisins.
Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 9. mars 2001.