Hoppa yfir valmynd
9. mars 2001 Dómsmálaráðuneytið

Skýrsla starfshóps sem skipaður var til að fara yfir núgildandi umferðarlöggjöf

Fréttatilkynning
Nr. 7/ 2001


Fréttatilkynning um skýrslu starfshóps sem skipaður var til að fara yfir núgildandi umferðarlöggjöf, umferðarlögin og reglugerðir samkvæmt þeim



Dómsmálaráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun skýrslu starfshóps sem skipaður var til að fara yfir núgildandi umferðarlöggjöf, umferðarlögin og reglugerðir samkvæmt þeim, í þeim tilgangi að gera tillögur og ábendingar til ráðuneytisins um atriði sem betur mega fara í því skyni að auka umferðaröryggi og bæta umferðina.

Í starfshópnum áttu sæti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir alþingismaður, sem jafnframt var formaður hópsins, Hjálmar Björgvinsson aðalvarðstjóri, tilnefndur af ríkislögreglustjóra, Ingvi Hrafn Óskarsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, Jakob Falur Garðarsson, aðstoðarmaður samgönguráðherra, og Óli H. Þórðarson, framkvæmdastjóri Umferðarráðs. Ritari starfshópsins var Sandra Baldvinsdóttir, lögfræðingur í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.

Starfhópurinn hefur lokið störfum og skilað skýrslu sinni. Helstu áhersluatriði starfshópsins og tillögur voru eftirfarandi:

Ökuskírteinaaldurinn.
Hlutdeild ungra ökumanna í umferðarslysum er mikil. Ungir ökumenn eru orsakavaldar umferðarslysa mun oftar en hlutdeild þeirra í umferðinni gefur tilefni til. Í ljósi þessa taldi starfshópurinn að grípa þurfi til sérstakra ráðstafana varðandi unga ökumenn. Telur starfshópurinn ekki ástæðu til að leggja til hækkun ökuskírteinaaldursins hér á landi að svo stöddu, þar sem rannsóknir hafa ekki leitt afgerandi í ljós að hækkun úr 17 árum í 18 ár muni skila árangri. Þess í stað leggur starfshópurinn til breytingar sem felast í stigskiptingu ökuréttarins og auknu aðhaldi að ungum ökumönnum. Ökuskírteinaaldurinn miðist eftir sem áður við 17 ár, en eftir ökupróf fái neminn útgefið bráðabirgðaskírteini til tveggja ára og þurfi færri punkta en aðrir til þess að missa ökuréttinn. Einnig er lagt til að til allra ökumanna á aldrinum 17 – 20 ára verði gerð 0 prómill áfengiskrafa. Hafi ökumaður verið án brota eða refsipunkta í 12 mánuði samfellt frá útgáfu bráðabirgðaskírteinis getur hann sótt um fullnaðarskírteini, en að öðrum kosti ekki fyrr en eftir 24 mánuði. Tillögurnar gera því ráð fyrir umbun fyrir þá ökumenn sem ekki brjóta af sér í umferðinni. Áður en fullnaðarskírteini er gefið út þarf ökumaður að gangast undir akstursmat þar sem gerð er úttekt á öryggi hans í akstri. Þær breytingar sem lagðar eru til breyta litlu fyrir meirihlutann eða þá sem sýna fyrirmyndar ökuferil.

Sambærilegar breytingar hafa verið gerðar víða í nágrannalöndum okkar og á síðasta áratug hefur um helmingur fylkja Bandaríkjanna tekið upp slíka stigskiptingu ökuréttinda vegna þess árangurs sem þau hún hefur náð til fækkunar slysa og dauðsfalla. Árangur þessara breytinga verði metinn eftir 2-3 ár, meðal annars með tilliti til þess hvort færa beri ökuskírteinaaldurinn upp í 18 ár.

Refsingar.
Á Íslandi eru sektir fremur lágar miðað við hin Norðurlöndin, í Noregi eru sektir t.d. að jafnaði 100-200% hærri en hér á landi. Rannsóknir sýna að háar sektir virðast hafa meiri áhrif á hegðun ökumanna en önnur viðurlög, t.d. fangelsun. Lagt er til að sektir hækki að jafnaði um a.m.k. 100% og að afsláttur vegna greiðslu sektar á vettvangi verði 25%, en annars 15%. Þá verði stofnaður sjóður, sem hlutdeild af sektum renni til, sem notaður verði í þágu umferðaröryggismála. Ennfremur er lagt til að refsipunktum fyrir hraðakstur og vanhöld á notkun bílbelta verði fjölgað. Þá verði svipt vegna 5 punkta í stað 7 punkta þegar um bráðabirgðaskírteini er að ræða. Jafnframt að handhafi fullnaðarskírteinis verði sviptur við 12 punkta, óháð fjölda brota.

Notkun farsíma í bifreiðum.
Notkun farsíma hefur tvímælalaust áhrif á umferðaröryggi og slysatíðni. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að farsímanotkun í bifreiðum getur haft jákvæð áhrif á umferðaröryggi. Því er lagt til að bönnuð verði notkun farsíma við akstur án handfrjáls búnaðar. Bannið taki gildi sex mánuðum eftir birtingu laganna og refsingar einu ári eftir gildistöku þeirra. Þá verði tollar og vörugjald á handfrjálsum búnaði felldir niður.

Lausaganga búfjár.
Starfhópurinn lagði áherslu á að lausaganga búfjár er verulegt vandamál hér á landi og ógnar umferðaröryggi. Brýnt er að málinu verði ekki lengur drepið á dreif og að gripið verði til aðgerða til að halda búfé frá öllum helstu vegum landsins.

Löggæsla og umferðarfræðsla.
Lagt er til að eftirlit lögreglu verði aukið þannig að lögreglan verði efld með meiri mannafla og auknum tækjabúnaði til eftirlits með þáttum eins og ölvunarakstri, hraðakstri, akstri gegn rauðu ljósi o.fl. Mjög mikilvægt er að umferðarfræðsla og allt fræðslustarf um umferðaröryggismál verði aukið frá því sem nú er.

Akstur undir áhrifum fíkniefna.
Skaðleg áhrif áfengis á hæfni ökumanns eru vel þekkt. Síðustu ár hefur aukin athygli beinst að akstri undir áhrifum fíkniefna með tilliti til umferðaröryggis. Ljóst er að fjöldi þeirra ökumanna sem aka undir áhrifum fíkniefna hefur aukist. Mun erfiðara er fyrir lögreglu að leiða í ljós hvort ökumaður sé undir áhrifum fíkniefna og lyfja heldur en áfengis. Lagt er til að reglur og viðmiðanir um fíkniefnanotkun ökumanna verði gerðar skilvirkari og einfaldari í framkvæmd fyrir lögreglu. Þar sem vandkvæði eru á ef ekki útilokað að setja tiltekin mörk við leyfilegu og óleyfilegu magni fíkniefna hjá ökumönnum, líkt og með áfengi, er lagt til að finnist ávana- og fíkniefni í blóði/þvagi ökumanns fari um slík brot sem ölvunarakstursbrot, nema efni hafi verið ávísað af lækni. Þá verði lögreglu heimilað að taka munnvatnssýni til að kanna hvort ökumaður er undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Vetrarhjólbarðar.
Í lögum og reglugerðum eru ekki bein ákvæði um skyldu til notkunar vetrarhjólbarða yfir vetrartímann. Starfshópurinn telur það vera mikilvægt umferðaröryggisatriði að notkun vetrarhjólbarða verði gerð skyld frá fyrsta vetrardegi til síðasta vetrardags. Hámarksþyngd nagla í almennum fólksbifreiðum verði 1,1 g. Samhliða fari fram fræðsla og kynning um vetrarhjólbarða og þá möguleika sem ökumenn hafa í því efni.

Öryggisbelti í hópbifreiðum.
Skortur á notkun bílbelta í fólksbifreiðum er ein af meginorsökum banaslysa síðustu ára. Sömu sjónarmið hljóta að eiga við um það öryggi sem bílbelti geta veitt í fólksbifreiðum sem og í hópbifreiðum. Lagt er til að stefnt verði að því koma á öryggisbeltum með öruggum hætti í hópbifreiðir sem allra fyrst. Þetta málefni er til skoðunar í annarri nefnd á vegum ráðuneytisins sem skila mun niðurstöðum bráðlega.

Aðrar tillögur og ábendingar
Starfshópurinn lagði ennfremur fram ýmar aðrar tillögur og ábendingar eins og varðandi umferðarmerki og yfirborðsmerkingar, samfléttureglu, aðstöðu lögreglu við umferðareftirlit, skráningarskyldu vinnuvéla og eftirvagna, o.fl.eins og nánar er fjallað um í skýrslunni.

Skýrsluna er hægt að nálgast í dómsmálaráðuneytinu.

Einnig má sjá hana hér á vef ráðuneytisins.

Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
9. mars 2001.




Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum