Hoppa yfir valmynd
13. mars 2001 Dómsmálaráðuneytið

Frumvarp dómsmálaráðherra um erfðaefnisskrá lögreglu

Fréttatilkynning
Nr. 9/ 2001


Frumvarp dómsmálaráðherra um erfðaefnisskrá lögreglu



Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að leggja fram frumvarp dómsmálaráðherra um erfðaefnisskrá lögreglu. Hinn 29. janúar 1999 skipaði dómsmálaráðherra nefnd til að vinna að undirbúningi reglna um DNA rannsóknir, nánar tiltekið um sýnatöku, skrásetningu sýna og vörslu þeirra, í þágu rannsóknar sakamála. Nefndin skilaði skýrslu sinni til dómsmálaráðherra 30. mars 2000 og byggist frumvarp þetta að meginstefnu á tillögum hennar, auk þess sem hliðsjón hefur verið höfð af dönskum lögum um þetta efni.

Með frumvarpinu er stefnt að því að koma á fót sérstakri lögregluskrá um upplýsingar um erfðaefni í þeim tilgangi að auðvelda lögreglu rannsókn alvarlegra sakamála, svo sem manndráps, nauðgunar, líkamsárásar og misnotkunar gegn börnum, en í slíkum málum skilja brotamenn oft eftir sig líffræðileg spor sem innihalda erfðaefni, tæk til rannsókna. Lagt er til að eingöngu verði heimilt að skrá upplýsingar um erfðaefni manna sem hafa verið fundnir sekir um brot með dómi eða dæmdir ósakhæfir og er því ekki gengið jafn langt og í ýmsum nágrannaríkjum okkar, svo sem í Danmörku og Bretlandi.

Skráin skiptast í tvo hluta, kennslaskrá og sporaskrá. Í kennslaskrá verður heimilt að skrá upplýsingar um erfðaefni einstaklinga sem hafa hlotið dóm fyrir alvarleg brot gegn ákvæðum almennra hegningarlaga, svo sem manndráp, alvarlegar líkamsmeiðingar, kynferðisbrot og alvarleg almannahættubrot. Þá er einnig heimilt að skrá upplýsingar um einstaklinga sem framið hafa brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess. Í frumvarpinu eru heimildir til skráningar í kennslaskrá mjög þröngar og er gengið skemur í þeim efnum en gert er í grannlöndum okkar, svo sem áður sagði. Í sporaskrá verða skráðar upplýsingar um erfðaefni sem fengin eru úr lífsýnum á brotavettvangi eða finnast á mönnum eða munum sem ætlað er að tengist broti án þess að vitað sé frá hverjum þau stafa. Í þeim tilfellum er ekki gerð krafa um vissan alvarleika brots og eru því rýmri heimildir til skráningar í sporaskrá en kennslaskrá.

Gert er ráð fyrir að ríkislögreglustjóri haldi skrána og annist skráningu í hana. Einnig er tekið fram að ríkislögreglustjóri beri ábyrgð á skránni í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000. Eingöngu verða skráðar í erfðaefnisskrána upplýsingar um nafn, kennitölu, heimilisfang og erfðagerð einstaklings ásamt vísun til dóms eða málsnúmers óupplýsts sakamáls. Þegar erfðagerð einstaklings hefur verið skráð í erfðaefnisskrá ber ríkislögreglustjóra að tilkynna honum það skriflega. Þá er í frumvarpinu kveðið á um hvenær upplýsingar verða máðar úr skánni.

Kostir slíkrar skrár eru margvíslegir. Ber þar fyrst að nefna að með aðgengilegum upplýsingum aukast möguleikar rannsóknaraðila til samanburðar-rannsókna. Bera má sýni sem finnst á brotavettvangi saman við skrásettar upp-lýsingar og getur það leitt til þess að maður sem sakfelldur hefur verið fyrir tiltekið brot verður fyrr tengdur nýju broti, eða fyrr hreinsaður af grun um brotið. Mikilvægi slíkra samanburðarrannsókna er ekki síst fólgið í því að hreinsa saklausa menn af grun um afbrot. Þá ber að nefna að með samanburðarrannsóknum sem þessum kann að komast upp um eldra brot, áður óupplýst, við samanburð sýnis af þeim brotavettvangi og sýnis frá manni sem tekið er í þágu rannsóknar nýs brots.

Sömuleiðis hefur verið nefnt að aðgangur að skrá um erfðaefni geri lögreglu kleift að bera saman sýni af fleiri en einum brotavettvangi og fá þannig upplýsingar um að brotin séu framin af einum og sama manni, þótt kennsl hafi enn ekki verið borin á hann. Þrátt fyrir að brotamaðurinn sé ókunnur geta slíkar upplýsingar haft mikilvæga þýðingu fyrir áframhaldandi rannsókn málsins. Að lokum ber að nefna að skráning upplýsinga um erfðaefni getur haft sérstök varnaðaráhrif. Brotamaður sem veit að upplýsingar um erfðaefni hans eru skráðar kann að halda sig frá afbrotum sem hann hefði annars framið, af ótta við að upp um hann komist.

Vegna þess eðlis erfðaefnis að geyma mótið að myndgerð líkama manna dylst engum að hér er um að ræða upplýsingar sem eru mjög persónulegar og viðkvæmar. Samkvæmt tilmælum ráðherranefndar Evrópuráðsins nr. R(97)5 frá 13. febrúar 1997 um verndun heilsufarsupplýsinga teljast sýni, sem innihalda mannsfrumur eða hluta úr þeim með kjarnasýrum og notuð eru til rannsókna á erfðaefni, til sérstaklega viðkvæmra persónuupplýsinga.

Í frumvarpi þessu eru gerðar strangar kröfur til skráningar og varðveislu upplýsinga um erfðaefni. Einnig er gert ráð fyrir að aðgangur að þessum upplýsingum verði mjög takmarkaður. Persónuvernd er falið að hafa eftirlit með því að skráning og meðferð skráðra upplýsinga sé í samræmi við gildandi lög og einnig að hafa eftirlit með því að óviðkomandi fái ekki aðgang að skránni eða geti haft áhrif á skráningu í hana. Að öðru leyti gilda lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, um skráningu og meðferð upplýsinga um erfðaefni samkvæmt lögum þessum.

Íslenskum stjórnvöldum stendur til boða að fá sérstakan gagnagrunn fyrir erfðaefnisskránar endurgjaldslaust á grundvelli samkomulags við bandarísku alríkislögregluna.

Frumvarpið má nálgast í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og á vef ráðuneytisins.


Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
13. mars 2001.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta