Hreinslun El-Grillo
12. mars 2001
Ákveðið hefur verið að olía úr flaki El-Grillo á botni Seyðisfjarðarhafnar verði hreinsuð. Ljóst er að veruleg mengunarhætta stafar af flakinu og mikilvægt að grípa til viðeigandi ráðstafana til að koma í veg fyrir frekari mengun. Mál þetta hefur verið í undirbúningi í umhverfisráðuneytinu undanfarna mánuði. Um er að ræða vandasama aðgerð sem hefur mikinn kostnað í för með sér. Áætlað er að tvö til fjögur þúsund tonn af olíu sé til staðar í flakinu. Tryggðir hafa verið fjármunir í verkið og hreinsun olíu úr flakinu boðin út. Útboðsgögn verða opnuð um næstu mánaðarmót. Um mánaðarmótin apríl/maí verður tekin ákvörðun um hvaða tilboði verði tekið. Stefnt er að því að hreinsun fari fram síðsumars og í haust.
Tilboðsgjöfum hefur verið gefinn kostur á að koma til Seyðisfjarðar og kynna sér aðstæður í dag og á morgun, ræða við bæjarstjórn, fulltrúa Ríkiskaupa og starfsnefndar um El-Grillo.
Á morgun, þriðjudaginn 13. mars, mun Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra, ásamt Júlíusi Ólafssyni forstjóra Ríkiskaupa, funda á Seyðisfirði með bæjarstjórn og starfshópi um El-Grillo. Fyrir hádegi verður skoðunarferð að flakinu og eftir hádegi fundað með starfshópnum og bæjarstjórn, þar sem farið verður yfir stöðu mála og tímasetningar.
Á morgun klukkan 15.00 mun Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra og Júlíus Ólafsson forstjóri Ríkiskaupa halda fréttamannafund í fundarsal bæjarstjórnar í íþróttarhúsinu á Seyðisfirði vegna málefna El-Grillo.
Fréttatilkynning nr. 2/2001
Umhverfisráðuneytið