Hoppa yfir valmynd
14. mars 2001 Utanríkisráðuneytið

Nr. 010, 14. mars 2001 Samráðsfundur Íslands og Rússlands um efnahags- og viðskiptamál

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 10


Hinn 12. mars 2001, fór fram í Moskvu samráðsfundur Íslands og Rússlands um efnahags- og viðskiptamál.
Um er að ræða fyrsta fund ríkjanna um efnahags- og viðskiptamál sem haldinn er samkvæmt nýgerðu samkomulagi landanna þar að lútandi, með vísan til sameiginlegrar yfirlýsingar frá 19. desember 1994. Ráðgert er að viðræður fari fram einu sinni til tvisvar á ári. Næsti fundur er fyrirhugaður á hausti komanda í Reykjavík. Markmið fundanna er að treysta sem kostur er viðskipti Íslands og Rússlands, sem hafa verið takmörkuð frá hruni Sovétríkjanna og lítil sem engin frá efnahagskreppunni í Rússlandi árið 1998. Formlegar viðræður um efnahags- og viðskiptamál hafa ekki verið haldnar síðastliðinn áratug.
Á fundinum var fjallað um efnhagsástand landanna og viðskiptamál almennt. Sérstaklega var tekin fyrir nauðsyn þess að treysta lagagrundvöll og öryggi viðskipta og fjárfestinga. Jafnframt var rætt mögulegt samstarf á sviði jarðhita, sjávarútvegsmála og hugbúnaðarþróunar. Einnig var rædd aðild Rússlands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) og tengsl ríkjanna við Evrópusambandið.
Fundurinn fór fram í efnahagsmálaráðuneyti Rússlands. Roald Piskoppel, vararáðherra, var í forsvari fyrir Rússland. Íslensku sendinefndina leiddi Sverrir Haukur Gunnlaugsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins. Auk fulltrúa utanríkisráðuneytisins, og sendiráðs Íslands í Moskvu, sátu fundinn fulltrúar sjávarútvegsráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 14. mars 2001.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta