Nr. 011, 16. mars 2001: 8. ráðherrafundur Barentsráðsins í Múrmansk
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Nr. 011
Þann 15. mars fór fram 8. ráðherrafundur Barentsráðsins í Múrmansk í Rússlandi, undir formennsku Rússlands.
Til umræðu var starf Barentsráðsins undanfarna 12 mánuði. Lýstu fundarmenn ánægju með þann árangur sem náðst hefur í þeim mörgu málaflokkum sem heyra undir ráðið, þar á meðal á sviði umhverfismála, orkumála, æskulýðsmála, samgöngumála og landamærasamstarfs. Lýst var sérstakri ánægju með þann árangur sem náðst hefur að undanförnu í samningum við Rússland um aðgerðaráætlun á sviði kjarnorkuöryggis og eyðingu kjarnaúrgangs.
Fundarmenn hvöttu til aukins samstarfs Barentsráðsins og annarra svæðaráða, svo sem Norðurskautsráðs, Eystrasaltsráðs og ráðherranefndar Norðurlandaráðs. Þá var sérstök áhersla lögð á mikilvægi náins samstarfs Barentsráðsins við Evrópusambandið, sérstaklega varðandi framkvæmd hinnar Norðlægu víddar.
Sverrir Haukur Gunnlaugsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, sat fundinn fyrir hönd utanríkisráðherra. Í ræðu sinni lagði ráðuneytisstjóri meðal annars áherslu á nauðsyn aukins samstarfs við önnur svæðaráð til að gera starf þeirra skilvirkara og árangursríkara. Einnig tók hann fram, að þar sem Barentsráðið hefði umtalsverða reynslu af framkvæmd verkefna á mörgum sviðum svæðasamstarfs, væri það á margan hátt kjörinn vettvangur til að hrinda í framkvæmd ýmsum áætlunum innan hinnar Norðlægu víddar Evrópusambandsins.
Svíþjóð, sem nú fer með formennsku í Evrópusambandinu, tekur nú við formennsku í ráðinu.
Yfirlýsing ráðherrafundarins fylgir hjálögð.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 16. mars 2001.