Eldri borgarar funda með fulltrúum ríkisstjórnar
Fréttatilkynning frá ríkisstjórninni
Fimmtudaginn 1. mars s.l. var að beiðni Landssambands eldri borgara haldinn fundur fulltrúa þeirra með fulltrúum ríkisstjórnarinnar, forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra, fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra. Fundarefnið var sá þáttur kjaramála aldraðra sem tengjast þótti ákvörðunum ríkisstjórnarinnar og Alþingis varðandi kjör tiltekins hóps öryrkja. Fundur var haldinn á ný á milli aðila s.l. þriðjudag.
Niðurstaðan er sú, að ríkisstjórnin muni leggja fyrir Alþingi frumvarp um breytingar á almannatryggingalögum. Þessar breytingar þýða að greiðslur til þeirra ellilífeyrisþega sem orðið hafa fyrir skerðingu vegna tekna maka munu hækka frá 1. janúar 2001 um sambærilega fjárhæð og varð hjá þeim öryrkjum sem bjuggu við þessa stöðu. Óskað verður eftir því við þingið að lagabreytingar nái fram að ganga áður en nefndavika þingsins hefst, svo inna megi af hendi greiðslur samkvæmt hinum breyttu lögum um næstu mánaðamót.