Hoppa yfir valmynd
22. mars 2001 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Aðalfundur Landssíma Íslands hf.

Aðalfundur Landssíma Íslands hf. var haldinn 19. mars s.l. og hélt Sturla Böðvarsson samgönguráðherra ræðu við það tilefni. Ræða ráðherra fylgir hér á eftir.


Fundarstjóri, stjórnarformaður, forstjóri - aðrir fundarmenn.
Ég vil byrja á því að þakka stjórnendum Símans fyrir góðan undirbúning þessa ársfundar, svo og ítarlegar og greinargóðar upplýsingar um gang fyrirtækisins sem hér eru settar fram í árskýrslu og ræðum stjórnarformanns og forstjóra. Þá vil ég þakka stjórn og öllu starfsfólki fyrir störfin í þágu félagsins á síðasta ári.

Miklar breytingar á fjarskiptamarkaði setja svip sinn á allt starf Símans og kalla á ný og breytt vinnubrögð. Eins og fundarmenn vita er unnið að undirbúningi þess að selja hlutabréf í Landssíma Íslands hf. Á næstunni verur lagt fram frumvarp fyrir Alþingi þar sem leitað verður heimildar til að selja hlut ríkisins í Símanum. Gert er ráð fyrir því að salan fari fram í áföngum. Sala ríkissjóðs á Landssíma Íslands er í samræmi við fyrirheit í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og tillögur framkvæmdanefndar um einkavæðingu sem hefur unnið að undirbúningi sölunnar allt frá því að ég fól nefndinni það verk 23. febrúar á síðast ári.

Gert er ráðfyrir að í fyrsta áfanga verði starfsmönnum gefið tækifæri til þess að kaupa hluta með sérstökum greiðslukjörum. Ég legg ríka áherslu á að starfsmenn geti eignast hlut og tel það raunar til þess fallið að auka verðgildi Símans að sem flestir starfsmanna verði hluthafar og sýni þannig í verki að þeir hafi trú á fyrirtækinu og framtíð þess.

Þróun á fjarskiptamarkaði hefur verið undra hröð síðustu misseri. Síminn og starfsmenn hans hafa lagt mikilvægan grunn að framþróun sem hefur leitt til þess að við Íslendingar erum taldir vera í fremstu röð við að nýta okkur fjarskiptatæknina. Þar á ég ekki eingöngu við hefðbundna síma og farsíma, heldur ekki síður þá staðreynd að við erum fremst þjóða að nýta okkur internetið þetta margslungna og víðfeðma net sem skapar okkur geysilega mikilvæga möguleika í nýja hagkerfinu - hagkerfi sem í raun og sanni byggir á sífellt ævintýralegri nýtingu á fjarskiptamöguleikunum, á margmiðlun og tölvutækni.

Viðþessar aðstæður er Síminn mikils virði með mikla markaðshlutdeild þegar kemur að sölu. Og Síminn er ekki síður mikils virði fyrir landsmenn alla. Vegna þess að hann á að geta og getur - tekist á við að verðuga verkefni að byggja upp öflug viðskipti og þjónustu um landið allt. Aðgangur að hverju einasta heimili í landinu er auðlind sem hefur mikið verðgildi í sjálfu sér.

Eitt af stærri verkefnum Símans á næstunni hlýtur m.a. að vera það að tileinka sér nýjungar við dreifingu myndefnis með gagnvirkri sjónvarpstækni og við uppbyggingu kerfa vegna þriðju kynslóðar farsíma. Ljóst er að þriðja kynslóðin hefur vakið enn frekari væntingar um möguleika fjarskiptanna, og því er það í raun og sanni mikil áskorun til fyrirtækisins að halda forystu sinni á þessu sviði sem öðrum - í þágu viðskiptavina sinna sem bíða í ofvæni eftir næstu tækifærum.

Því miður hefur hægt miðað með útbreiðslu sjónvarpssendinga um breiðbandið þrátt fyrir að mikil eftirspurn virðist vera eftir þeirri þjónustu. Af öllu landinu er spurt eftir því hvenær allar sjónvarpsstöðvarnar sem nú þegar eru til staðar í dreifingu í Breiðvarpinu verði í boði fyrir alla viðskiptavini Símans. Næsta átak hjá Símanum hlýtur að verða frekari útbreiðsla sjónvarpssendinga og þá ekki einungis í Vesturbænum og umhverfis póstnúmer 102 Reykjavík eða í því póstnúmeri eftir 2016 - heldur hvarvetna þar sem búnaður er til staðar.

Stafrænt sjónvarp er á næsta leyti og núverandi tækni við útbreiðslu sjónvarps því væntanlega á undanhaldi. Ég geri ráð fyrir að á næstunni verði veitt tilraunaleyfi til stafrænna sjónvarpssendinga. Því er komið að því að stokka upp spilin og úthluta leyfum fyrir slíkar rásir til sjónvarpsfyrirtækjan - en í dag eru rásir til sjónvarpssendinga takmarkaðar. Með stafrænu tækninni mun verða mikil breyting og því eðlilegt að undirbúa mjög vel úthlutun þeirra leyfa. Ég tel eðlilegt að Landsíminn hafi frumkvæði að samstarfi við allar sjónvarps og útvarpsstöðvar í þeim tilgangi að koma á tilraunasendingum sem væru undanfari þess að sjónvarpsstöðvarnar veldu sér þá kosti sem þær telja hagstæðasta við dreifingu á stafrænum sendingum.

Á Fjarskipta þinginu gerði ég grein fyrir fyrirhuguðu útboði á leyfum fyrir þriðju kynslóð farsíma. Allt bendir hinsvegar til þess að seinkun verð á því að þriðja kynslóðin komi á markaðinn. Það mun nýtast okkur til þess að undirbúa betur alla framkvæmd þess að nýta þá tækni farsímanna og um leið mun fjárfestingin í farsímunum gefa eitthvað meira af sér á meðan beðið er eftir þriðju kynslóðinni.

Á síðasta ársfundi fjallaði ég um nauðsyn þess að taka til endurskoðunar og lækkunar gjaldskrár vegna gagnaflutninga. Óskaði ég eftir því að stjórnin tæki það til meðferðar. Stjórn Símans og forstjóri hafa unnið vel að málinu. Veruleg lækkun varð á gagnaflutningskostnaði og gerður hefur verið samningur
um þá breytingu. Vil ég sérstaklega þakka fyrir hvernig tekið var á því máli sem ég tel að verði Símanum til mikilla hagsbóta í farmtíðinni og muni auka viðskipti - einkum og sérstaklega við fyrirtæki á landsbyggðinni. Má segja að þessi breyting á gjaldskrá vegna gagnaflutninga hafi verið mikilvægur hluti þeirrar undirstöðu sem þurfti til þess að sátt næðist um sölu Símans. Því er mikilvægt að Síminn fylgi þessari mikilvægu breytingu á gjaldskránni eftir og sýni fram á hversu miklu hún skiptir um að auka viðskipti, nýta netið og skapa störf um landið allt.

Ágætu fundarmenn. Þetta er væntanlega síðasti ársfundur Símans í eigu ríkissjóðs eins. Þær breytingar sem við sjáum fyrir okkur eru óhjákvæmilegur hluti þess breytta umhverfis sem fylgir frelsi á fjarskiptamarkaði og þeirri stefnu að ríkissjóður dragi sig út úr þeim sviðum viðskipta sem er á samkeppnismarkaði. Því frelsi er ætlað að bæta hag neytenda og örva framfarir og framþróun á sviði fjarskiptanna. Það er von mín að okkur takist að standa þann veg að málum að Síminn verði áfram eitt af flaggskipum á fjarskiptamarkaði í Evrópu og taki þátt í framþróun sem haldi okkur Íslendingum áfram í fremstu röð á sviði fjarskiptanna.

Það er bæði von mín og trú að Síminn vinni áfram í þeim anda sem ég sem ráðherra fjarskiptamála legg áherslu á, það er að fjarskiptin séu í senn bæði örugg og ódýr og um leið öllum aðgengileg.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta