Hoppa yfir valmynd
22. mars 2001 Matvælaráðuneytið

Fróðleikur um gin- og klaufaveiki

INNGANGUR:
Menn óttast að gin- og klaufaveiki geti borist til landsins með fólki eða varningi. Þetta er bráðsmitandi veirusjúkdómur, landlægur í Asíu, Afríku og S-Ameríku og hefur fundist í Evrópu annað kastið. Veiran er lífseig og getur lifað nógu lengi til að berast langar leiðir með ýmsu móti. Hættan fyrir okkur liggur í því að smitefni, sem kemst inn fyrir landsteina frá fyrrnefndum svæðum t.d. Bretlandi, berist í dýr hér á landi. Ef það gerist, er öruggt að mjög alvarlegt ástand skapast og tjón verður mikið því að sjúkdómurinn hefur aldrei borist til landsins svo vitað sé. Allt veltur á því, að veikin uppgötvist strax, svo að unnt verði að koma í veg fyrir útbreiðslu hennar á fyrstu stigum. Best er þó vitanlega, að afstýra því að veikin berist inn í landið. Hættan er meiri en áður hefur verið vegna meiri samgangs og samskipta okkar við önnur lönd. Þess vegna þurfa allir að vita um smitleiðir og helstu einkenni veikinnar. Brýnt er að umráðamenn búfjár láti strax vita um öll grunsamleg einkenni til héraðsdýralæknis eða embættis yfirdýralæknis. Skylda hvílir á dýralæknum og öllum einstaklingum í þessum efnum en þó mest á eigendum og umráðamönnum. Vakni grunur um gin- og klaufaveiki mun dýralæknir strax athuga aðstæður án kostnaðar fyrir eiganda.

SMITLEIÐIR:
Veikin berst með ýmsu móti milli staða og landa til dæmis með dýrum og dýraafurðum, sem ekki hafa fengið næga hitameðhöndlun svo sem kjöti og mjólkurafurðum. Öll matvæli frá sýktum löndum eru varasöm. Veiran getur borist með fólki, einkum með skóm og hlífðarfötum, en fólk getur einnig borið veiruna í sér. Þeir, sem verið hafa á smituðum svæðum og andað veirunni að sér geta borið hana í nefinu og dreift smiti í allt að 5 daga. Vitað er að veiran hefur borist með fuglum og vindi milli bæja og jafnvel milli landa. Dýr sem sýkjast eru klaufdýr fyrst og fremst: nautgripir, kindur, svín og geitur, villt klaufdýr (hreindýr) en einnig rottur. Sýkja má ýmis tilraunadýr. Hross sýkjast ekki. Gæludýr geta borið smit. Smituð dýr dreifa veirunni áður en þau veikjast sjálf. Fólk getur veikst en það er mjög sjaldgæft og er ekki alvarlegur sjúkdómur. Blandið ekki þessari veiki saman við barnasjúkdóm með sama enska nafni.

EINKENNI:
Byrjunareinkenni í nautgripum eru hár hiti lystarleysi, deyfð, stirðleiki í hreyfingum. Blöðrur myndast í munni, á fótum, milli klaufna og við klaufhvarf og oft á spenum. Froðukenndir slefutaumar fara frá munni. Hjá svínum ber mest á deyfð og lystarleysi, krömpum og skyndilegri helti. Blöðrur sjást oft á trýni. Hjá sauðfé og geitum ber mest á lystarleysi og helti. Einkenni hjá þeim geta verið mjög væg. Á því hafa ýmsir farið flatt í Bretlandi síðustu vikurnar og ekki tekið eftir einkennum í sauðfé. Veikin hefur þess vegna náð að breiðast út mun meira en ella og hefur nú (20. mars) fundist á fjórða hundrað bæjum, vítt og breitt um landið. Auk þess hefur veikin nú verið staðfest í Frakklandi, jafnvel í Hollandi og gæti fundist víðar. Blöðrur sjást ekki alltaf í munni kinda en finnast þá á bitgómi og stundum á tungu. Hjá hreindýrum er veikin enn vægari. Blöðrur sjást varla við klaufir þeirra.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum