Lokaathugasemdir Nefndar um afnám kynþáttamisréttis, 2001
[Þýðing úr ensku]
KYNÞÁTTAMISRÉTTIS CERD/C/58/Misc.16 Rev. 3
58. fundur 16. mars 2001
6.-23. mars 2001 Frumtexti á ENSKU
ÓENDURSKOÐUÐ ÚTGÁFA
Lokaathugasemdir Nefndar um afnám kynþáttamisréttis
ÍSLAND
ÍSLAND
1. Nefndin athugaði fimmtándu og sextándu reglulegu skýrslur Íslands, sem lagðar voru fram í tvennu lagi (CERD/C/338/Add.10 og CERD/C/384/Add.1) á 1441. fundi sínum (CERD/C/SR/1441) hinn 7. mars 2001. Á 1454. fundi hinn 15. mars 2001 samþykkti hún eftirfarandi athugasemdir.
A. Inngangur
2. Nefndin fagnar þeim skýrslum sem aðildarríkið hefur sent, lýsir ánægju sinni með hversu vel það stendur við reglubundnda afhendingu skýrslna sinna, og lýsir ánægju sinni með þær munnlegu viðbótarupplýsingar sem sendinefnd þess veitti. Nefndin veitir athygli hinum mikilvægu upplýsingum sem veittar eru í skýrslunum, sem settar eru fram í samræmi við leiðbeiningarreglur hennar um samningu á skýrslum aðildarríkja hvað snertir efni slíkra skýrslna. Fimmtánda og sextánda skýrsla eru uppfærsluskýrslur er lýsa þróun mála eftir að því tímabili lauk, sem fjórtánda skýrsla fjallar um.
3. Nefndin tekur fram að enda þótt fimmtánda og sextánda skýrsla veiti upplýsingar sem nefndin hafði farið fram á varðandi þjóðernislegan uppruna landsmanna og lög um innflytjendur, veita þær aðeins takmarkaðar upplýsingar varðandi flest þau umhugsunarefni og tilmæli sem fram komu í lokaathugasemdum hennar um hina fjórtándu skýrslu (CERD/C/304/Add.27).
B. Jákvæð atriði
4. Ásetningur aðildarríkisins til að fylgja Samningi um afnám kynþáttamisréttis og virða eftirlit Nefndar um afnám kynþáttamisréttis á framkvæmd hans er nefndinni fagnaðarefni. Hún veitir með ánægju athygli hinni jákvæðu viðleitni þess til að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli þjóðernisuppruna og til að tryggja hinum vaxandi fjölda innflutts og erlendis fædds fólks jafnrétti og vernd gegn mismunun, en sú breyting er nýleg fyrir lítið ríki.
5. Nefndin tekur enn fram að með stjórnarskrárbreytingunni 1995 var komið á viðamiklum viðbótum við ákvæði um mannréttindi, sem bættu samsvörun þeirra við alþjóðlegar mannréttindareglur. Hún fagnar þeim upplýsingum sem veittar voru í hinni sextándu skýrslu og af sendinefndinni um tilvísanir dómstóla til samninga um mannréttindi við túlkun ákvæða stórnarskrárinnar.
6. Nefndin telur lofsvert að aðildarríkið birtir skýrslur sínar og lokaathugasemdir nefndarinnar á heimasíðu dómsmálaráðuneytisins á internetinu og dreifir þeim til fjölmiðla, sem hvetur til vaxandi almenns áhuga á álitaefnum á sviði mannréttinda og auðveldar almenna umræðu um þau.
7. Nefndin fagnar stofnun nýrrar miðstöðvar fyrir innflytjendur á Vestfjörðum, sem mun taka til starfa í mars 2001, og undirbúningi að breytingu Upplýsinga- og menningarmiðstöðvar nýbúa í Reykjavík í Alþjóðahús með víðtækari dagskrá og starfsemi, meðal annars til að aðstoða innflytjendur og aðra útlendinga við nám í eigin tungu.
8. Nefndin fagnar því að nýjar námsskrár hafa gengið í gildi á leikskóla- og grunnskólastigi þar sem meiri athygli er veitt hlutverki skóla við aðlögun barna með mismunandi menningarlegan bakgrunn án þess að skorið sé á tengsl þeirra við eigin menningu. Hún veitir einnig athygli þeirri áherslu sem lögð er á að hvetja til umburðarlyndis, og viðurkenningu á þeirri nauðsyn að nemendum með mismunandi móðurmál sé séð fyrir sérkennslu í íslensku til að bregðast við örðugleikum á sviði menntunar og atvinnu.
9. Nefndin veitir athygli þeim upplýsingum sem veittar eru í sextándu skýrslu um hinar flóknu reglur laga um íslenskan ríkisborgararétt og annarra laga sem hér skipta máli. Hún fagnar lagabreytingunni frá 1998 til að bregðast við mismunandi rétti karla og kvenna varðandi ríkisborgararétt barna sinna, og afnámi þess skilyrðis fyrir veitingu íslensks ríkisborgararéttar að umsækjandi taki upp íslenskt föðurnafn.
10. Nefndin fagnar viðtöku aðildarríkisins á flóttamönnum til að byggja þar ný heimkynni og veitir athygli hinum góða árangri þess stuðningsfjölskyldukerfis sem það notar til að auðvelda aðlögun flóttamanna.
11. Nefndin fagnar þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar í júlí 2000 að fullgilda þær breytingar á 6. mgr. 8. gr. samningsins, sem samþykktar voru á 14. fundi aðildarríkja.
C. Umhugsunarefni og tilmæli
12. Nefndin mælist til þess að aðildarríkið rannsaki til hlítar hvort til séu félagssamtök sem hvetja til kynþáttamismununar og geri viðeigandi ráðstafanir samkvæmt 233a gr. almennra hegningarlaga og 74. gr. stjórnarskrárinnar, og endurskoði jafnframt slíka löggjöf ef hún reynist ófullnægjandi til að framfylgja að fullu ákvæðum 4. greinar samningsins. Nefndin mælist einnig til þess að aðildarríkið tryggi að ákvæði samningsins komi að fullu fram í gildandi landslögum, og að það athugi frekar þann möguleika að veita samningnum fullt lagagildi í hinu íslenska réttarkerfi eins og gert hefur verið hvað snertir Mannréttindasamning Evrópu.
13. Nefndin veitir því athygli að fá tilfelli um kynþáttamismunun hafa verið skráð hjá lögreglu. Nefndin mælist til þess að aðildarríkið athugi gaumgæfilega meintar móðganir eða hótanir á grundvelli kynþáttar sem innflytjendur verða fyrir, og að það taki til athugunar fleiri leiðir til að hvetja til þess að settar séu fram formlegar kærur í öllum slíkum málum, þar á meðal með birtingu yfirlýsingar aðildarríkis samkvæmt 14. gr. samningsins.
14. Um leið og nefndin fagnar hinni bættu meðferð sem veitt er samkvæmt lögum um ríkisborgararétt þegar umsækjandi er ríkisfangslaus, veitir hún því athygli að fólk sem sjálft sækir um ríkisborgararétt í öðru ríki glatar íslensku ríkisfangi, um leið og tvöfalt ríkisfang er heimilt útlendingum sem öðlast íslenskt ríkisfang. Nefndin mælist til þess að aðildarríkið athugi möguleika á aðild að samningnum frá 1954 um réttarstöðu ríkisfangslausra manna og samningnum frá 1961 um að fækka þeim tilvikum þegar menn eru ríkisfangslausir, en þeir banna að fólk sé svipt ríkisfangi á forsendum sem fela í sér mismunun og mæla svo fyrir að aðildarríki beri að veita ríkisborgararétt fólki sem fætt er á forráðasvæði þess og myndi að öðrum kosti vera ríkisfangslaust.
15. Nefndin veitir því athygli að frumvarp til nýrra laga um útlendinga var lagt fram á þingi haustið 2000, og að búist er við samþykkt þess vorið 2001. Nefndin væntir frekari upplýsinga um meðferð hælisumsókna og um efni frumvarps til laga um útlendinga í næstu reglulegu skýrslu, þar á meðal um meðferðarreglur varðandi heimild til landgöngu á landamærum.
16. Nefndin mælist til þess að skýrslur aðildarríkisins verði áfram gerðar auðveldlega aðgengilegar almenningi frá framlagningartíma þeirra, og að athugasemdir nefndarinnar um þær verði birtar opinberlega með sama hætti.
17. Nefndin mælist til þess að aðildarríkið leggi fram næstu reglulegu skýrslu sína með þeirri skýrslu sem væntanleg er hinn 4. janúar 2004, og taki þá til umfjöllunar öll þau atriði sem hér hefur verið vakið máls á.