Hoppa yfir valmynd
22. mars 2001 Dómsmálaráðuneytið

Lokaathugasemdir nefndar Sameinuðu þjóðanna um afnám kynþáttamisréttis

Nr. 13/ 2001

Fréttatilkynning

Lokaathugasemdir nefndar Sameinuðu þjóðanna um afnám kynþáttamisréttis.

Hér eru lokaathugasemdir nefndar Sameinuðu þjóðanna um afnám kynþáttamisréttis um það hvernig íslenska ríkið hefur framfylgt skuldbindingum sínum samkvæmt samningi SÞ um afnáms alls kynþáttamisréttis frá 1965. Athugasemdirnar eru gerðar í kjölfar fundar nefndarinnar með íslenskri sendinefnd í Genf í Sviss 7. mars sl. Samkvæmt 9. gr. samningsins um afnám alls kynþáttamisréttis ber aðildarríkjum samningsins að skila reglulega til Sameinuðu þjóðanna skýrslu um ráðstafanir sem þau hafa gert til að fullnægja skuldbindingum sínum samkvæmt samningnum. Á síðasta ári skilaði Ísland 16. skýrslu sinni til nefndarinnar og var hún jafnframt send fjölmiðlum til upplýsingar þann 25. september 2000. Á fundinum í Genf voru ræddar 15.skýrsla. (á ensku) og 16. skýrsla (á ensku) Íslands um framkvæmd samningsins á Íslandi.

Í athugasemdum nefndarinnar er lýst ýmsum jákvæðum atriðum varðandi framkvæmd samningsins, m.a. með stjórnarskrárbreytingar, sem bættu jafnræðisreglu og bann við mismunun við stjórnarskrána. Einnig er lýst ánægju með aðgerðum ríkis og sveitarfélaga um stofnun miðstöðva fyrir innflytjendur á Vestfjörðum og stofnun menningarmiðstöðvar nýbúa í Reykjavík í Alþjóðahúsi, svo og með breytingar sem gerða hafa verið á námskrám leikskóla og grunnskóla þar sem hvatt er til umburðarlyndis.

Nefndin mælist m.a. til þess að rannsakað verði til hlítar hvort til séu félög sem hvetja til kynþáttamismununar og geri viðeigandi ráðstafanir skv. 233. gr. a í almennum hegningarlögum, svo og að samningurinn um afnám alls kynþáttamsréttis verði lögfestur í heild sinni á Íslandi. Loks veitir nefndin því athygli að fá tilfelli um kynþáttamismunun hafa verið skráð hjá lögreglu og mælist til þess að stjórnvöld athugi gaumgæfilega meintar móðganir eða hótanir á grundvelli kynþáttar sem innflytjendur verða fyrir.

Skýrslur um framkvæmd samningsins á Íslandi svo og annarra mannréttindasamninga á vegum sameinuðu þjóðanna eru birtar á heimasíðu ráðuneytisins, domsmalaraduneyti.is

Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
22. mars 2001.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta