Hoppa yfir valmynd
25. mars 2001 Dómsmálaráðuneytið

Ávarp dóms- og kirkjumálaráðherra í tilefni af gildistöku Schengen samstarfsins á Norðurlöndum

Ávarp dóms- og kirkjumálaráðherra í tilefni af gildistöku Schengen samstarfsins á Norðurlöndum 25.mars 2001.



Góðir áheyrendur,


Í dag minnumst við þess að tímamót eru að verða í Evrópusamstarfi Íslendinga, þegar Schengen samstarfið tekur gildi hér á landi og í hinum Norðurlandaríkjunum.

Á miðnætti féll niður vegabréfaskoðun fyrir þá sem ferðast milli Norðurlanda annars vegar og annarra Schengen-ríkja hins vegar. Um leið voru tekin upp ný vinnubrögð við vegabréfaskoðun og útgáfu vegabréfsáritana fyrir þá sem fara milli Íslands og ríkja sem ekki eru aðilar að Schengen-samstarfinu, en þessi samstarfsríki okkar eru nú 14 talsins.

Ég ætla ekki að ræða um efni Schengen-samstarfsins við þetta tækifæri, það hefur ítarlega verið rakið að undanförnu og ég vil geta þess að gefinn hefur verið út sérstakur bæklingur á íslensku og ensku sem dreift verður til flugfarþega á næstunni og víðar.

Með gildistöku Schengen samningsins fáum við ný hjálpartæki í landamæraeftirliti okkar, en það er Schengen upplýsingakerfið og formbundið samstarf lögregluliða í Schengen-ríkjunum, sem virkt verður allan sólarhringinn. Þegar hefur komið í ljós hvert gagn er af þessu og þannig hefur þegar verið snúið til baka fólki sem hingað hugðist koma , en hafði að baki lögbrot í öðrum Schengen ríkjum. Í gærkvöldi átti þetta við um 3 einstaklinga. Einnig hefur kerfið komið að gagni við athugun á umsóknum um dvalarleyfi hér á landi, sem sendar voru til undirbúnings komu viðkomandi einstaklinga til landsins. Hefur þegar komið í ljós að sumir þeirra eru skráðir í Schengen upplýsingakerfið sem óæskilegir gestir á Schengen-svæðinu og eru mál þeirra nú í athugun.
Gerð Schengen samningsins og undirbúningur að gildistöku hans hefur kostað mikla vinnu, þar sem fjöldi manna hefur komið að, einkum starfsmenn á vegum utanríkis- og dómsmálaráðuneytanna. Löggæslumenn hafa fengið sérstaka þjálfun í þessu skyni. Mikil vinna hefur verið lögð í að koma á skjótu upplýsinga- og tölvusambandi við samstarfsríkin og sérstök skrifstofa hefur verið sett upp hjá embætti ríkislögreglustjóra til þess að annast lögreglusamvinnuna innan Schengen.

Er þá ekki talin þátttaka í nær ótal fundum, þar sem samvinnan hefur verið útfærð í smáatriðum. Þar má m.a. nefna ráðherrafundi, þar sem okkur hefur gefist tækifæri að komast í beint samband og samræður við dóms- og innanríkisráðherra ESB-ríkjanna.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að þakka þeim fjölmörgu sem lagt hafa sitt lóð á vogarskálina í því mikla átaki sem við fögnum hér í dag.

Schengen samstarfið á eftir að þróast og stuðla að einingu álfunnar, þar sem frjálsar ferðir fólks eru eitt af grundvallaratriðunum. Það á einnig eftir að hjálpa okkur til að hafa stjórn á ferðum fólks, sem kemur inn á Schengen-svæðið frá ríkjum utan þess. Hér er ekki verið að reisa múr gegn því fólki, en það er verið að stuðla að því að ákveðnar, ljósar og sanngjarnar reglur gildi um búferlaflutninga þess inn á svæðið og varna ólöglegu smygli með einstaklinga í ýmsum tilgangi, sem nú er viðfangsefni alþjóðlegra glæpasamtaka.
Ég vil ljúka máli mínu með því að þakka húsráðendum hér á staðnum fyrir tækifærið til að minnast þeirra tímamóta, sem við nú stöndum á.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta