Nr. 016, 30. mars 2001 Varnarmálaskóli NATO á Íslandi
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Nr. 016
Í gær kom til landsins 130 manna hópur frá varnarmálaskóla Atlantshafsbandalagsins í Róm í þeim tilgangi að kynna sér íslensk öryggis- og varnarmál. Nemendur skólans sem hér dvelja eru frá 26 ríkjum og flestir háttsettir embættismenn eða yfirmenn herja bandalagsins eða samstarfsríkja þess í Mið- og Austur-Evrópu. Þeir dvelja á Íslandi í boði utanríkisráðuneytisins. Í dag sátu nemendurnir ráðstefnu um íslensk öryggis- og varnarmál þar sem meðal annars fluttu erindi embættismenn utanríkisráðuneytisins og fulltrúar Landhelgisgæslunnar, Almannavarna ríkisins og Þjóðhagsstofnunar. Auk þess sátu ráðstefnuna fulltrúar varnarliðsins á Íslandi og hélt yfirmaður varnarliðsins jafnframt erindi. Heimsókn skólans lýkur á morgun með stuttri kynnisferð um Reykjanes áður en hópurinn heldur áfram til Kanada.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 30. mars 2001.