Hoppa yfir valmynd
6. apríl 2001 Heilbrigðisráðuneytið

31. mars - 6. apríl 2001

Fréttapistill vikunnar
31. mars - 6. apríl 2001



Þátttaka kvenna í leghálskrabbameinsleit hefur stóraukist en minnkað í brjóstakrabbameinsleit

Mæting kvenna í leghálskrabbameinsleit á þriggja ára fresti, á vegum leitarsviðs Krabbameinsfélagsins hefur aukist úr 50% árið 1982 í 82%. Þessi mikla aukning er rakin til endurskipulagningar á leitarstarfi Krabbameinsfélagsins. Þátttaka í brjóstakrabbameinsleit með brjóstamyndatöku hefur hins vegar minnkað og hefur tveggja ára mæting sem var um 70% í upphafi, 1988-89, fallið í um 62% á tímabilinu 1998-99. Lökust er þátttakan í þéttbýli en er allgóð og jafnvel ágæt víða í dreifbýli. Helstu ástæður lélegrar mætingar, samkvæmt könnunum, eru þær að konur telja sig ekki í áhættuhópi, eru hræddar við geislun, trúa meira á þreifingu brjósta en myndatökur eða leita til annarra en Leitarstöðvarinnar í leghálsskoðun og gleyma brjóstamyndatökunni.  Þessar niðurstöður benda til að auka þurfi fræðslu um þessa forvarnastarfsemi, meðal kvenna, heilbrigðisstétta og embættis- og stjórnmálamanna. Reynt hefur verið að bæta mætingu með aukinni samvinnu við heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu, auk þess sem haldnir hafa verið almennir fræðslufundir, gerðar sjónvarpsauglýsingar, fræðslubæklingar, veggspjöld og myndband um brjóstaskoðanir, birtar greinar í blöðum og tímaritum. Þessar upplýsingar o.fl. koma fram í skýrslunni ,,Forvarnir gegn krabbameinum og öðrum sjúkdómum þeim tengdum" sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra lagði fram á Alþingi nýlega.
Skoða skýrslu >

Staða framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunarinnar Siglufirði laust til umsóknar
Laust er til umsóknar embætti framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunarinnar Siglufirði. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipar framkvæmdastjóra til fimm ára að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar. Æskilegt er að framkvæmdastjóri geti hafi störf sem allra fyrst.
Nánar >

Samningur um árangursstjórnun við Heilbrigðisstofnun Austurlands
Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, undirritaði í vikunni samning um árangursstjórnun við Heilbrigðisstofnun Austurlands. Þetta er níundi samningurinn um árangursstjórnun við heilbrigðisstofnanir sem ráðuneytið gerir og er það í samræmi við Gæðaáætlun heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins sem kynnt var í lok síðasta árs. Samkvæmt samningnum skal stofnunin meta þörf fyrir heilbrigðisþjónustu á starfssvæði sínu og hvernig henni verði best mætt. Í því skyni skal stofnunin setja fram í áætlunum sínum til ráðuneytisins skýr markmið, m.a. töluleg, um leiðir að settu marki, um árangur og hvernig árangur skuli metinn. Með skýrum ákvæðum í samningi um stefnumörkun og árlegar áætlanir stofnana um markmið og helstu verkefni verður eftirlit með rekstri þeirra og mat á árangri skilvirkara, bæði innan stofnananna sjálfra og af hálfu ráðuneytisins. Gert ráð fyrir að í lok þessa árs hafi allar heilbrigðisstofnanir mótað sér áætlanir um gæðaþróun og að þá verði gerð árangursstjórnunarsamninga milli ráðuneytisins og heilbrigðisstofnana lokið.

Alþjóðaheilbrigðisdagur WHO 7. apríl
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, helgar 7. apríl, sem er alþjóðaheilbrigðisdagurinn, eflingu geðheilbrigðis. Stofnunin hvetur stjórnvöld og almenning um heim allan til taka höndum saman, efna til umræðu og hvetja fólk til umhugsunar um geðheilbrigðismál. Áhersla er lögð á að vinna gegn fordómum í garð þeirra sem búa við skerta geðheilsu. Að jafnaði þjást um 22-24% íslensku þjóðarinnar af geðheilsuvanda af einhverjum toga, eða nærri einn af hverjum fjórum landsmönnum. Landlæknisembættið og Geðrækt hafa í samvinnu veið fleiri aðila unnið að undirbúningi alþjóðaheilbrigðisdagsins 7. apríl, undir yfirskriftinni Ekki líta undan! - Láttu þér annt um andlega heilsu. Gefin hafa verið út veggspjöld, bæklingur og myndband til kynningar og fræðslu um geðheilbrigðismál. Nánari upplýsingar um alþjóðaheilbrigðisdaginn er að finna á heimasíðu WHO og á heimasíðu Geðræktar.

Fyrirkomulag sjúkraflugs
Íslandsflug hf. hefur tekið að sér að sinna sjúkraflugi fyrir Vestfjarða- og suðursvæði. Samgönguráðuneytið, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og Tryggingastofnun ríkisins gerðu samkomulag við félagið um sjúkra- og áætlunarflug í gær (4. apríl), í kjölfar þess að bundinn var endi á samning við Leiguflug Ísleifs Ottesen e.h.f. um þessa þjónustu. Leiguflug Ísleifs Ottesen sinnti samkvæmt samningi áætlunarflugi milli Reykjavíkur og Gjögurs og áætlunar- og sjúkraflugi á Vestfjarða- og suðursvæði en þessi þjónusta er nú öll í höndum Íslandsflugs.

Sameiginlegt lyfjavottorð innan Schengen-svæðisins
Sjúklingar sem að staðaldri nota lyf sem innihalda ávana- og fíkniefni þurfa að hafa vottorð læknis á ferðum sínum innan Schengen-svæðisins. Um er að ræða fáa sjúklinga og fá lyf, en á vottorðinu skal tilgreint hvaða lyf viðkomandi einstaklingur hefur meðferðis á ferðum sínum og í hvaða magni. Vottorðið gildir í allt að 30 daga og getur tekið til nauðsynlegrar lyfjanotkunar í jafnlangan tíma.
Nánar >




Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
06. apríl 2001

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta