Fréttatilkynning: Úttekt á hópbifreiðum og öryggisbúnaði þeirra.
Nr. 15 / 2001
Dómsmálaráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í dag skýrslu nefndar sérfræðinga sem skipuð var í nóvember í fyrra til að gera úttekt á hópbifreiðum í notkun og öryggisbúnaði þeirra. Tilefni úttektarinnar var ábending Rannsóknarnefndar umferðarslysa vegna margra alvarlegra umferðarslysa hér á landi á undanförnum árum þar sem farþegar í hópbifreiðum hafa slasast og í nokkrum tilfellum látist. Ábendingu um stofnun starfshóps sérfræðinga setti rannsóknarnefndin fram í bréfi til ráðuneytisins í kjölfar rannsóknar á þremur alvarlegum slysum á síðasta ári.
Nefndin hefur nú lokið störfum en þar áttu sæti Birna Hreiðarsdóttir, deildarstjóri Löggildingarstofu, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Ragnhildur Hjaltadóttir, skrifstofustjóri samgönguráðuneytinu, Lárus Sveinsson, fulltrúi hjá Skráningarstofunni hf., Benedikt Guðmundsson, formaður Félags hópferðaleyfishafa, Óli H. Þórðarson, framkvæmdastjóri Umferðarráðs og Þorleifur Þór Jónsson, hagfræðingur, Samtökum ferðaþjónustunnar.
Í starfi nefndarinnar var aðaláhersla lögð á að athuga möguleika á því að lögleiða öryggisbelti í þeim hópbifreiðum sem ekki hafa slíkan búnað. Í því sambandi var kannað hvernig ganga megi frá festingum slíkra öryggisbelta, þannig að þau uppfylli ítrustu öryggiskröfur. Einnig var hugað að öðrum öryggisþáttum, sem einkum varða hópbifreiðir og ekki verða greindir frá því meginmarkmiði með skipun nefndarinnar að koma með tillögur sem lúta að auknu öryggi í hópbifreiðaakstri. Helstu niðurstöður nefndarinnar eru sem hér segir:
- Meginniðurstaða nefndarinnar er að leggja til að gerðar verði breytingar á reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 915/2000 til að tryggja að lagaskylda verði að hafa öryggisbelti í öllum hópbifreiðum hér á landi sem ætlaðar eru til sérleyfis- og hópferðaaksturs.Veittur verði frestur til 1. jan. 2004 til að koma þessum málum í rétt horf. Ekki er þó gerð krafa um að hópbifreiðir sem skráðar voru fyrir 30. janúar 1998 séu búnar rúlluöryggisbeltum. Gerð verði sú krafa að nýskráðar notaðar hópbifreiðir sem fluttar eru til landsins eftir að ofangreind ákvæði í reglugerð um gerð og búnað ökutækja taka gildi séu búnar öryggisbeltum áður en þær eru skráðar hér á landi. Að öðru leyti gildi sömu reglur um notaðar hópbifreiðir sem fluttar eru til landsins.
- Gerðar verði breytingar á 71. grein núverandi umferðarlaga nr. 50/1987 með því markmiði að gera reglur um skyldubundna notkun öryggisbelta skilvirkari. Jafnframt verði reglur nr. 204/1993 um undanþágu frá notkun öryggisbelta felldar niður, en í þeirra stað komi reglur eða eftir atvikum reglugerð, sem fjallar nánar um notkun og undanþágu frá notkun öryggisbelta í ökutækjum.
- Lagt er til að 59. gr. umferðarlaga verði endurskoðuð þannig að öryggis- og verndarbúnaður falli undir þann búnað sem skylda er að hafa í góðu ástandi.
- Ákvæði umferðarlaga um kennslu í umferðarlögum, 117. gr., verði breytt þannig að tryggt verði að fræðslan nái til notkunar öryggisbelta í ökutækjum, ekki síst hópbifreiðum. Reglugerð um umferðarfræðslu nr. 534/1989 verði endurskoðuð í því skyni að efla umferðarfræðslu á grunn- og leikskólastigi. Efld verði samvinna dómsmála- og menntamálaráðuneytis á sviði umferðarfræðslu.
- Sett verði í umferðarlög ákvæði um framkvæmd eftirlits á markaði með búnaði ökutækja til að aðgreina eftirlits- og stjórnvaldsþátt með þessum vöruflokki.
- Settur verði á stofn starfshópur sem hafi það hlutverk að gera úttektir á frágangi og festingum ísettra öryggisbelta. Í starfi nefndarinnar verði tekið mið af þeim prófunum á festingum öryggisbelta sem fram koma í fskj. VI við skýrslu þessa. Starf þessa starfshóps verði að mestu leyti kostað úr ríkissjóði.
- Samræmdar verði reglur sem fram koma í skoðunarhandbók vegna leyfisskoðunar hópbíla og skoðunarhandbókar vegna almennrar skoðunar hópbifreiða með það að markmiði að gera reglur um skoðanir vegna fólksflutningaleyfa skilvirkari en nú er.
- Könnuð verði starfsemi Efnahagsráðs Evrópu, UN-ECE, með það að markmiði að meta hvort æskilegt sé að Ísland gerist aðili að ráðinu. Jafnframt verði gerð athugun á tengslum tilskipana ESB og reglna UN-ECE.
Skýrsluna má nálgast á vef ráðuneytisins www.raduneyti.is/dkm og beint með því að smella hér.
6. apríl 2001.