Nr. 027, 11.04.2001 Ársskýrsla Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, um efnahagsmál á Íslandi
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Nr. 027
Ársskýrsla Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, um efnahagsmál á Íslandi kemur út í dag.
Í skýrslunni kemur fram að hagvöxtur hefur verið mikill undanfarin ár og er landsframleiðsla nú umfram framleiðslugetu hagkerfisins, þrátt fyrir að dregið hafi úr vexti á árinu 2000. Innlend eftirspurn er mikil sem og fjárfesting, þ.á m. opinber fjárfesting. Vegna hækkandi olíuverðs og hærri afborgana af lánum eru ráðstöfunartekjur minni en ella. Einkaneyslu hefur þannig verið haldið uppi með auknum lántökum. Þótt innlend eftirspurn hafi vaxið hefur útflutningur lítið vaxið og viðskiptahalli því aukist.
Á þessu ári er útlit fyrir töluvert minni hagvöxt en á síðustu árum vegna minni fiskafla og ástands á peningamarkaði. Jafnframt er útlit fyrir að atvinnuleysi muni vaxa. Þrátt fyrir þetta telur Efnahags- og framfarastofnunin að viðskiptahalli muni aukast frá fyrra ári.
Efnahags- og framfarastofnunin leggur mikla áherslu á nauðsyn þess að gæta aðhalds í efnahagsmálum til að halda áhættuþáttum í lágmarki. Nauðsynlegt er að hægja á vexti eftirspurnar og minnka þrýsting á verðlag og laun. Seðlabanki gegnir lykilhlutverki í að sjá til þess að verðbólga minnki. Hlutverk hans verður auðveldara ef stjórnvöldum tekst að halda ríkisútgjöldum innan fjárlaga og eru tilbúin að grípa til aðgerða ef nauðsynlegt reynist. Þá leggur Efnahags- og framfarastofnunin til að Fjármálaeftirlit verði eflt til að minnka hættu á áföllum í fjármálakerfinu.
Að mati Efnahags- og framfarastofnunarinnar eru þær breytingar sem kynntar hafa verið á starfsemi Seðlabanka Íslands, þar sem horfið er frá fastgengisstefnu að verðbólgumarkmiði, jákvæðar og í takt við fyrri ráðleggingar stofnunarinnar.
Í skýrslunni er einnig sérstök úttekt á skattkerfinu. Í heild fær það ágæta einkunn þar sem fá skattþrep og breiður skattstofn þykja til fyrirmyndar. Þó er í skýrslunni bent á ýmislegt sem mætti betur fara. Þótt tekin hafi verið framfaraskref í skattlagningu fjármagns er skattlagning þess ekki hlutlaus heldur fer t.d. eftir formi sparnaðar. Þá leggja skýrsluhöfundar til að eignaskattar og stimpilgjöld verði lögð niður og skattlagningu erfðafjár breytt.
Í skýrslunni er einnig bent á leiðir til að bæta skattlagningu á vöru og þjónustu sem og leiðir til að bæta skattlagningu tekna. Efnahags- og framfarastofnunin bendir einnig á að auðlindir séu lítið sem ekkert skattlagðar og bendir á sjávarútveg, vatnsorku og útvarpsbylgjur sem hugsanlegan grunn skattlagningarauðlinda þótt þeir telji uppboð á leyfum jafnvel enn æskilegri kost.
Meðfylgjandi er skýrsla stofnunarinnar á rafrænu formi. Sé óskað eftir útprentuðu eintaki er hægt að nálgast það í utanríkisráðuneytinu eða Þjóðhagsstofnun. Verið er að leggja lokahönd á íslenska þýðingu á niðurstöðukafla skýrslunnar sem verður dreift um leið og hún liggur fyrir.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 11. apríl 2001.