Hoppa yfir valmynd
23. apríl 2001 Heilbrigðisráðuneytið

Forsíðufrétt - Samstarfsverkefni um öldrunarrannsóknir23-04-2001 - nánar

Fylgirit - dreift á blaðamannafundi við undirritun samningsins
23.apríl 2001


Öldrunarrannsókn Hjartaverndar


Öldrunarrannsókn Hjartaverndar er samvinnuverkefni milli Öldrunarstofnunar bandaríska heilbrigðisráðuneytisins (National Institute on Aging, NIA) og Hjartaverndar. Rannsóknin er styrkt af Bandarísku heilbrigðisstofnuninni (National Institutes of Health) sem er hluti bandaríska heilbrigðisráðuneytisins.

Rannsóknin nýtur einnig stuðnings Íslenskra heilbrigðisyfirvalda sem hluti af stuðningi þeirra við Hjartavernd. Þessi stuðningur er mjög mikilvægur til að halda forræði Hjartaverndar og vísindamanna þar í rannsókninni. Hann gerir Hjartavernd einnig kleift að fara í þetta samstarf án þess að fórna allri annarri starfsemi. Einkum er það markvisst forvarnastarf Hjartaverndar og vísindarannsóknir til að afla upplýsinga um forvarnastarf við íslenskar aðstæður sem mun geta haldið áfram. En eins og menn vita þá hefur Hjartavernd undanfarin ár sérstaklega unnið markvisst að því að efla forvarnir í samvinnu við heilsugæsluna þannig að beita megi þeim um allt land. Hjartavernd og Öldrunarstofnun Bandaríkjanna hafa það markmið sameiginlegt að niðurstöður úr rannsóknum sem þessum skuli verða beitt í þágu almennings eins fljótt og auðið er.

Stjórn rannsóknarverkefnisins er í höndum íslenskra og bandarískra vísindamanna. Á Íslandi er aðalforsvarsmaður Vilmundur Guðnason, læknir og erfðafræðingur, dósent við læknadeild Háskóla Íslands. Hans rannsóknir hafa einmitt lotið að rannsókn á flóknum margþátta sjúkdómum eins og hjarta- og æðasjúkdómum, þar sem hann hefur einkum rannsakað samspil erfða og umhverfis í tilurð og þróun sjúkdóma. Vilmundur Guðnason er forstöðulæknir Rannsóknarstöðvar Hjartaverndar. Aðrir stjórnendur rannsóknaverkefnisins hérlendis eru: Gunnar Sigurðsson, læknir og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands. Hann er sérfræðingur í efnaskiptasjúkdómum og hefur verið leiðandi rannsóknaraðili í beinþynningu á Íslandi. Gunnar Sigurðsson er formaður stjórnar Hjartaverndar. Guðmundur Þorgeirsson, læknir og prófessor við Háskóla Íslands, hann hefur um árabil stundað rannsóknir á hjarta- og æðasjúkdómum með sérstaka áherslu á æðaþel. Guðmundur Þorgeirsson er formaður Rannsóknastjórnar Hjartaverndar. Pálmi V. Jónsson, læknir og dósent við Háskóla Íslands, er sérfræðingur í öldrunarlækningum. Hann hefur stundað margvíslegar rannsóknir á sviði öldrunarlækninga. Pálmi V. Jónsson er forstöðumaður öldrunarsviðs Landspítala - háskólasjúkrahúss, Landakoti.

Af hálfu Bandaríkjanna er Tamara Harris, læknir og faraldsfræðingur. Hún hefur stundað rannsóknir á mjög mörgum sviðum öldrunar og faraldsfræði öldrunar. Tamara Harris er í forsvari fyrir öldrunarfaraldsfræðisviði og rannsóknarstofu í faraldsfræði á Öldrunarstofnun Bandaríkjanna. Lenore Launer er doktor í faraldsfræði heila- og taugasjúkdóma og hefur um árabil stundað rannsóknir á heilasjúkdómum, einkum heilabilun. Hún er forsvarsmaður taugafaralsfræðihluta rannsóknarstofu í faraldsfræði hjá Öldrunarstofnun Bandaríkjanna.

Undir samninginn skrifa dr. Richard Hodes, sem er forstöðumaður Öldrunarstofnunar Bandaríkjanna. Hann er vel þekktur ónæmisfræðingur og hefur verið forstöðumaður Öldrunarstofnunarinnar síðan 1993. Af hálfu Hjartaverndar skrifa undir samninginn Vilmundur Guðnason, forstöðulæknir Rannsóknarstöðvar Hjartaverndar, og Gunnar Sigurðsson, formaður stjórnar Hjartaverndar.

Framkvæmd rannsóknar:
Í rannsókninni verða rannsökuð öll helstu líffærakerfi sem tengjast færni og lífsgæðum á efri árum. Við rannsóknina verður notuð fullkomnasta tækni eins og segulómun, tölvusneiðmyndir og ómskoðanir. Hver einstaklingur þarf að koma tvisvar sinnum til rannsóknar sem síðan endar með læknis-skoðun og viðtali við lækni og sérþjálfaðan öldrunarhjúkrunarfræðing. Þar verða helstu niðurstöður úr rannsókninni á einstaklingnum kynntar fyrir honum, og ef eitthvað þarf að grípa inn í, þá verður honum beint inn á þær brautir sem þarf. Til glöggvunar þá eru hér talin upp helstu líffærakerfi sem til rannsókna verða tekin og nefndar forsendur og ástæður fyrir rannsóknunum á þeim kerfum.

Heili:
Heilabilun er sá þáttur í heilsu aldraðra sem hefur hvað mest hamlandi og örkumlandi áhrif á lífsgæði einstaklingsins og færni hans til daglegra athafna. Þetta eru einnig þeir þættir sem ákvarða helst þörf á langtíma umönnun heima eða vistun á stofnunum.

Heilabilun verður könnuð með ítarlegum vitrænum prófum. Ef vísbending er um að einstaklingurinn sé heilabilaður verður hann sendur til frekari rannsókna og meðferðar á minnismóttöku Landspítala - háskólasjúkrahúss á Landakoti, en sérstakur samningur verður gerður við þá deild um rannsóknina. Auk ofangreindra prófa þá verður gerð segulómun af heila allra einstaklinga. Markmiðið með því er að reyna að átta sig á hvort einhver merki sjáist með þessari rannsóknaraðferð sem tengja má minnisprófunum eða þeim mældu þáttum og öðrum rannsóknum sem gerðar verða á einstaklingnum. Þessar vísbendingar má svo hugsanlega nota til að greina fyrr einstaklinga eða jafnvel koma upp með nýja meðferðarmöguleika.

Hjarta- og æðakerfi:
Kransæðasjúkdómur og afleiðingar hans hafa veruleg áhrif á lífsgæði einstaklinga og getu til að lifa óháð hjúkrun eða umönnun. Hjartabilun er vaxandi vandamál meðal aldaðra alls staðar í heiminum og því brýnt að reyna að átta sig á hvaða þættir það eru sem ákvarða heilbrigði hjartans á elliárum.

Allítarlegar rannsóknir verða gerðar á hjartanu með tölvusneið-mynda-tækni þar sem reynt verður að greina kalk í kransæðum, sem þá væri mælikvarði á kransæðasjúkdóm. Að auki er með þeim aðferðum unnt að átta sig á þykkt hjartaveggja og getu hjartans til að dragast saman o.s.frv. ákveðinn undirhópur verður síðan rannsakaður með segulómun að auki til að reyna að glöggva sig enn frekar á hjarta-starfsemi. Auk þessa þá verða með tölvusneiðmyndum teknar myndir af æðum niður í ganglimi og með sérstakri ómskoðun verða kannaðar hálsæðar. Þessir þættir verða síðan tengdir mældum þáttum á öðrum þeim þáttum sem rannsakaðir verða. Gildi þessara rannsókna eykst einnig samfara tengingu við eldri rannsóknarniðurstöður.

Bein:
Beinþynning er vaxandi vandamál aldaðra og eitt af þeim vandamálum sem hafa veruleg áhrif á færni einstaklingsins. Brot á beinum, hvoru tveggja samfallsbrot á hrygg og lærleggsbrot eða handarbrot, eru stórt vandamál aldraðra. Mikilvægt er að reyna að greina þá þætti sem ákvarða hættu á beinþynningu. Með aðferðum sem hér verður beitt er vonast til að unnt verði að átta sig betur á og mæla þætti sem gefa okkur meiri upplýsingar um beinþynningu og brotahættu. Allir einstaklingar fara í gegnum sérstaklega þróaða tölvusneiðmyndatöku af hrygg til að meta beinþéttni. Tölvu-sneið-myndir verða einnig teknar af lærlegg og lærleggshaus, þar sem sérstaklega verður reynt að átta sig á þáttum sem hafa áhrif á brotahættu. Einnig verður tekin upp að gerð verður ómskoðun af hælbeini til þess að reyna að átta sig á beinþéttni þar. Vonast er til að þessir þættir mældir ásamt öðrum mældum þáttum varpi ljósi á beinþynningu. Sérstaklega skal bent á að með þessari rannsókn þá fást í fyrsta sinn á Íslandi (og reyndar hefur þetta ekki verið kannað á mörgum stöðum í heiminum til þessa) upplýsingar um beinþynningu í karlmönnum.

Að auki verður gerð undirrannsókn á slitgigt í hné sem er vandamál hjá stórum hluta aldraðra og því verulega ákvarðandi um hreyfifærni. Þessi rannsókn verður gerð með segulómun.

Vöðva- og fitudreifing líkamans:
Þekkt er að með auknum aldri þá minnkar vöðva-massi einstaklingsins. Þessir þættir geta haft veruleg áhrif á færni einstaklingsins. Fitudreifing ákvarðar einnig áhættu á ýmsum sjúkdómum og
hefur því veruleg áhrif á heilbrigði öldrunar. Í öllum einstaklingum verða þessir þættir kannaðir með tölvu-sneið-myndatökum úr kvið og í gegnum læri. Einnig verða sérstakir þar til gerðir stólar notaðir til þess að meta hreyfifærni stoðkerfis og styrk Upplýsingar sem þarna fást verða síðan tengdar öðrum mældum þáttum og skoðunum.

Jafnvægi og hreyfigeta:
Sérstök áhersla veður lögð á að rannsaka hreyfifærni og jafnvægi. Gerð verða ýmis konar jafnvægispróf þar sem notaður verður sérstakur pallur til að meta jafnvægi einstaklinganna..Þessir þættir verða svo tengdir öðrum mældum þáttum. Einnig verður sérstaklega kannað mataræði þáttakenda með fæðulista.

Ávinningur Öldrunarrannsóknar Hjartaverndar:
Úr ofangreindum rannsóknum er það von rannsakenda að upplýsingar fáist um samband á milli mælanlegra þátta semma á ævi einstaklingsins og þróun sjúkdóma í ellinni og ekki síst samband við heilbrigði öldrunar. Ljóst er að fyrir einstaklinginn er mögulegur ávinningur í greiningu sjúkdóma jafnvel á forstigi í þessari rannsókn þó líklegt sé að aðalávinningurinn sé fyrir komandi kynslóðir.

Helsti ávinningurinn af þessum rannsóknum fyrir framtíðina er sá að upplýsingar fást sem nýta má í fyrirbyggjandi læknisfræði til að auka færni einstaklingsins á efri árum og þar með lífsgæði hans. Vonast er til að upplýsingarnar nýtist til að fækka sjúkrahúslegum og seinka verulega sjúkdómum sem herja á ellina. Líklegt er að mikilvægar upplýsingar fáist um framlag gena til þróunar sjúkdóma sem herja á aldraða.


Talsmaður rannsóknarinnar á Íslandi er dr. Vilmundur Guðnason forstöðulæknir Rannsóknarstöðvar Hjartaverndar og forsvarsmaður Öldrunarrannsóknar Hjartaverndar [email protected].





Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta