05/2001 Dagur umhverfisins
Fréttatilkynning nr. 5/2001
Afhending viðurkenninga í Selásskóla
Haldið verður upp á Dag umhverfisins miðvikudaginn 25. apríl, í þriðja sinn eftir að ríkisstjórnin ákvað að helga þann dag umhverfismálum. Dagurinn er haldinn á fæðingardegi Sveins Pálssonar, fyrsta íslenska náttúrufræðingsins og þess manns sem segja má að hafi einna fyrstur vakið athygli á umhverfisvandamálum á Íslandi. Viðburðir verða í tilefni dagsins m.a. á Akureyri, í Hveragerði, Reyðarfirði, Reykjavík og Vestmannaeyjum.
Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra mun í tilefni dagsins veita viðurkenningar fyrir góð störf í þágu umhverfisverndar, í Selásskóla kl. 10:30. Fulltrúum fjölmiðla er boðið að vera viðstaddir við þá athöfn.
Í hádeginu mun umhverfisráðherra síðan heimsækja ÍSAL og kynna sér aðgerðir álversins í umhverfismálum.
Umhverfisráðherra verður síðan viðstödd hátíðarfund bæjarstjórnar Hveragerðis í Garðyrkjuskólanum, Reykjum, kl. 14 á Degi umhverfisins, þar sem samþykkja á Staðardagskrá 21 fyrir Hveragerðisbæ. Að fundinum loknum verður dagskrá í Garðyrkjuskólanum, þar sem kynnt verða ýmis verkefni í umhverfismálum í Hveragerði og Ölfusi. Fjölmiðlum er velkomið að vera viðstaddir, en Hveragerðisbær veitir nánari upplýsingar um þennan viðburð.
Af öðrum viðburðum í tilefni Dags umhverfisins, sem umhverfisráðuneytinu er kunnugt um, má nefna:
- Reykjavík: Verðlaunaafhending frjálsra félagasamtaka fer fram í Ráðhúsi Reykjavíkur, kl. 16:30
- Akureyri: Dagskrá verður í tilefni Dags umhverfisins: Boðið verður upp á kynningu og leiðbeiningar um umhverfisvænt líf á Glerártorgi, kvöldganga verður um Glerárgil kl. 20 og opið hús verður í Lystigarðinum, Gróðrarstöðinni Krókeyri og í Kjarnaskógi.
- Reyðarfjörður: Ólafur K. Nielsen vistfræðingur flytur fræðsluerindi um rjúpuna í Safnaðarheimilinu á Reyðarfirði kl. 20:00.
- Vestmannaeyjar: Skógræktarfélag Vestmannaeyja gengst fyrir gróðursetningu trjáa í landgræðsluskóginum (Hraunskógi) í nýja hrauninu austan við bæinn. Hafist verður handa klukkan 20.