Greiðsluafkoma ríkissjóðs fyrsta ársfjórðung ársins 2001. Greinargerð 25. apríl 2001
Greiðsluafkoma ríkissjóðs janúar-mars 2001. Greinargerð
25. apríl 2001
Nú liggja fyrir tölur um afkomu ríkissjóðs eftir fyrsta ársfjórðung. Uppgjörið hér á eftir sýnir sjóðshreyfingar og er sambærilegt við almenn sjóðsstreymisyfirlit. Tölurnar eru því ekki sambærilegar við ríkisreikning eða fjárlög ársins sem eru sett fram á rekstrargrunni.
Heildaryfirlit
Fyrstu þrjá mánuði ársins var handbært fé frá rekstri neikvætt um tæpan 1S milljarð króna, samanborið við 4S milljarða jákvæða stöðu í fyrra. Þessi niðurstaða er 800 m.kr. hagstæðari en gert var ráð fyrir. Bæði tekjur og gjöld eru umfram áætlanir, tekjurnar um 1,7 milljarð og gjöldin 0,9 milljörðum króna.
Tekjur hækka um 4,3 milljarða frá fyrra ári sem einkum má rekja til skatta á tekjur og hagnað. Gjöldin hækka hins vegar mun meira, eða um 10,3 milljarða króna. Tveir þriðju hlutar þessarar hækkunar stafa af sérstökum tilefnum sem ástæða er til að nefna. Þannig nemur hækkun vaxtagreiðslna 2,6 milljörðum, sérstakar greiðslur til öryrkja nema 1,3 milljörðum króna; 1,1 milljarður skýrist af bættri greiðslustöðu Tryggingastofnunar ríkisins vegna sjúkratrygginga, uppkaup á fullvirðisrétti bænda nema 0,8 milljörðum og sérstök hækkun framlaga til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 0,7 milljörðum.
(Í milljónum króna)
Hreinn lánsfjárjöfnuður var neikvæður um 3,8 milljarða króna sem er um hálfum milljarði hagstæðari útkoma en áætlað var, en rúmlega 10 milljörðum lakara en í fyrra. Skýringin á lakari útkomu en í fyrra er, auk þess sem áður er nefnt, að þá komu til greiðslu 5,5 milljarðar króna vegna sölu á hlutabréfum í ríkisbönkunum á árinu 1999.
Á fyrstu þremur mánuðum þessa árs voru auk þess greiddir 3,8 milljarðar króna í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins til að grynnka á framtíðarskuldbindingum ríkissjóðs, en samkvæmt fjárlögum 2001 er áformað að greiða 15 milljarða í LSR.
Greiðsluafkoma ríkissjóðs á fyrstu þremur mánuðum ársins 2001 reyndist neikvæð um tæplega 800 m.kr., samanborið við 500 milljarða neikvæða stöðu á sama tímabili árið áður.
Tekjur
Heildartekjur ríkissjóðs námu 54 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins, tæpum 1,7 milljörðum umfram áætlun. Þetta samsvarar um 8,7% aukningu milli ára sem er einungis þriðjungur þess sem var á sama tíma árið 1999 og þriðjungi lægra en í fyrra. Sömu þróunar gætir í skatttekjum og er þetta enn frekar til marks um minnkandi eftirspurn í hagkerfinu.
(Í milljónum króna)
Skattar á tekjur og hagnað aukast þó enn töluvert á milli ára, eða um tæplega 20%, en það stafar einkum af mikilli aukningu í innheimtu á tekjuskatti lögaðila og fjármagns-tekjuskatti. Innheimta á tekjuskatti einstaklinga eykst mun minna, eða um 13S%. Hér vekur athygli að hækkunin er ívið meiri en á sama tíma í fyrra þrátt fyrir að tekjuskattshlutfallið hafi lækkað um 0,33% frá síðustu áramótum. Skýringin á þessu er fyrst og fremst sú að hækkun launa samkvæmt kjarasamningum kom til framkvæmda á öðrum fjórðungi síðasta árs og áhrifa þeirra gætti því ekki fyrr en fyrr en þá. Tekjuskattur mun því hækka mun minna þegar líður á árið. Eignarskattar hækka um 460 milljónir króna á milli ára eða um 21,5%. Þessa hækkun má að mestu rekja til hækkunar á fasteignamati, en auk þess eykst innheimta stimpilgjalda og sértækra eignarskatta um 130 m.kr. milli ára.
Þróun almennra veltuskatta, og þá sérstaklega virðisaukaskattsins, gefur góða mynd af þróun eftirspurnar í hagkerfinu. Mikið hefur hægt á veltunni í efnahagslífinu undanfarin misseri og á fyrstu þremur mánuðum þessa árs hækkuðu veltuskattar einungis um 0,5% frá sama tíma í fyrra. Í þessu sambandi er vert að benda á að verðlag hefur á sama tímabili hækkað um tæplega 4% og endurspeglar þessi þróun því nokkurn samdrátt að raungildi. Þessa þróun má meðal annars rekja til verulegs samdráttar í vörugjöldum af ökutækjum og bensíni, en innflutningur af ökutækjum hefur dregist saman um 30% milli ára. Stærsti tekjuliður ríkissjóðs, virðisaukaskatturinn, hefur einungis aukist um 2,3% á milli ára sem gefur ótvírætt til kynna að verulega sé farið að draga úr veltuaukningu í hagkerfinu.
Gjöld
Heildargreiðslur ríkissjóðs námu um 55S milljarði króna á fyrsta ársfjórðungi ársins og hækka um 10,3 milljarða frá fyrra ári, en af þeirri fjárhæð eru 2,6 milljarðar vegna hærri vaxtagreiðslna. Greiðslurnar eru 0,9 milljörðum umfram ramma áætlunar fjárlaga. Þar sem tímabilið til umfjöllunar er aðeins þrír mánuðir má gera ráð fyrir því að frávik á einstökum liðum skýrist af tilfærslu milli mánaða.
(Í milljónum króna)
Útgjöld til almennra mála, en þar falla undir æðsta stjórn ríkisins, dómgæsla, löggæsla o.fl., standa nánast í stað milli ára. Lækkun almennra mála skýrist af 100 m.kr. lægri greiðslum vegna umsýslu fasteigna og að á síðasta ári voru útgjöld verkefna tengd árþúsundaskiptunum um 150 m.kr. Þá lækka greiðslur vegna innheimtu og tollamála um 60 m.kr. Hækkun gjalda löggæslu og öryggismála um 200 m.kr. skýrist af framkvæmdum við snjóflóðavarnir.
Meira en helmingur af útgreiðslum á tímabilinu rann til ýmissa félagsmála, svo sem fræðslu- menningar-, heilbrigðis- og tryggingamála. Útgjöld til þessa málaflokks hækka í heild um 5,2 milljarða króna milli ára. Hækkun vegna fræðslumála, 900 m.kr. kemur að hálfu fram í greiðslum til framhalds- og sérskóla, eða um 450 m.kr., sem m.a. skýrist af viðbótaryfirvinnu eftir lok verkfalls framhaldsskólakennara. Þá eru einnig nokkrar tilfærslur milli mánaða. Þær koma fram sem hækkun greiðslna til Háskóla Íslands, 100 m.kr. og Lánasjóðs íslenskra námsmanna, 100 m.kr. Framlög til heilbrigðismála hækka um 1,9 milljarða króna sem að stærstum hluta skýrist af bættri greiðslustöðu Tryggingarstofnunar ríkisins en hún ofmetur hækkun hjá sjúkratryggingum milli ára. Þá hækka rekstrarframlög til sjúkra- og öldrunarstofnana um 800 m.kr. milli ára. Greiðslur almannatrygginga hækka um 2,2 milljarða eða nær 30%. Þar munar mestu um 1.300 m.kr. fjármögnun vegna dóms Hæstaréttar í málefnum öryrkja, sem er afturvirk hækkun, 4 ár aftur í tímann. Auk þess hækka greiðslur til ellilífeyrisþega í samræmi við dóminn en taka þó aðeins til yfirstandandi árs. Greiðslur til Atvinnuleysistryggingasjóðs eru nær óbreyttar milli ára, enda lækkar atvinnuleysi lítillega milli ára, eða 1,5% á móti 1,8% á sama tíma í fyrra. Ný lög um fæðingarorlof hafa leitt til 250 m.kr. gjalda það sem af er árinu.
Útgjöld til atvinnumála hækka samtals um tæpa 2 milljarða króna, sem er 31% hækkun frá því í fyrra. Mestu munar um uppkaup ríkisins á fullvirðisrétti bænda, en 780 m.kr. eingreiðsla fór til þess verkefnis í janúar. Þá hækka greiðslur til samgöngumála um 550 m.kr. og framlög til Byggðastofnunar hækka um 300 m.kr. milli ára.
Vaxtagreiðslur hækka um 38%, eða tæpa 2,5 milljarða króna. Þar af hækka greiðslur vegna spariskírteina um 1,8 milljarða sem skýrist af því að stór flokkur spariskírteina kom til innlausnar í febrúar. Þá hækka vaxtagreiðslur vegna erlendra skammtímalána um rúmar 200 m.kr. milli ára.
Önnur útgjöld hækka um 760 m.kr. milli ára og skýrast nær alfarið af hærri greiðslum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
Lánahreyfingar
Greiðslur fjármunahreyfinga voru 2,3 milljarðar króna en á sama tíma í fyrra námu innborganir 2,3 milljörðum. Skýring á þessum mun kemur einkum fram í því að í janúar á síðasta ári voru innborganir vegna sölu á hlutabréfum í ríkisbönkunum 5,5 milljarðar króna.
Afborganir lána ríkissjóðs námu 6,4 milljörðum króna og eru nær eingöngu vegna spariskírteina. Í febrúar var á innlausn flokkur spariskírteina frá árinu 1990 og voru bréf innleyst fyrir um 8,4 milljarða króna en þar af voru afborganir 4,6 milljarðar. Auk þess hafa spariskírteini verið forinnleyst í uppkaupaútboðum úr tveimur spariskírteinaflokkum fyrir 1,9 milljarða króna að markaðsvirði. Þar af nema afborganir 1,5 milljörðum. Uppkaup með þessum hætti beinast að þeim flokkum spariskírteina sem ekki eru nægilega seljanlegir á eftirmarkaði.
Ákveðið hefur verið að ráðstafa hluta lánsfjárafgangs ríkissjóðs til greiðslu lífeyrisskuldbindinga hans hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Greiðslur til sjóðsins eru 3.750 m.kr. samanborið við 1.500 m.kr. í fyrra.
Lántökur ríkisins námu um 13,1 milljarði króna. Um helmingur þess fjármagns var aflað með sölu ríkisvíxla og stækkaði með því stofn víxla um 6,8 milljarða króna. Þá voru seld ríkisbréf í nýjum 6 ára flokki fyrir um 2,5 milljarða króna. Erlendar skammtímalántökur námu 3,7 milljörðum króna en þær verða greiddar upp í aprílmánuði.