Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2001 Heilbrigðisráðuneytið

21. - 27. apríl 2001

Fréttapistill vikunnar
21. - 27. apríl 2001



Tryggingastofnun heimilt að neita samningagerð við heimilislækna

Tryggingastofnun ríkisins var stætt á að neita að ganga til samninga við sérfræðinga í heimilislækningum, þótt stofnunin hafi gert sérstaka samninga við aðra sérfræðinga. Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur sem staðfesti með dómi sínum í gær (26. apríl) niðurstöðu samkeppnisráðs og áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Heimilislæknar lögðu málið á sínum tíma fyrir Samkeppnisstofnun á þeim forsendum að Tryggingastofnun hefði brotið samkeppnislög þar sem hennir væri ekki stætt á að neita þeim um sambærilega samninga sem stofnunin gerir við aðra sérfræðinga á sviði lækninga. Niðurstaða samkeppnisráðs var sú að skýr lagasetning væri fyrir tvískiptingu heilbrigðiskerfisins og grundvallarmunur á starfskjörum lækna sem annast almenna heilsugæslu og annarra sérfræðinga. Heimilislæknar áfrýjuðu úrskurðinum en áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfesti hann. Héraðsdómur Reykjavíkur komst svo að sömu niðurstöðu í gær, þ.e. að Tryggingastofnun hefði verið heimilt að neita heimilislæknum um samninga. Í dómsorði segir m.a. að heimilislæknar og sérfræðingar á öðrum sviðum læknisfræðinnar starfi ekki á sama markaði og eigi því ekki í samkeppni sín á milli, þótt eðli málsins samkvæmt hljóti störf þeirra einhvers staðar að skarast. Því sé ekki hægt að verða við kröfu félagsins á grundvelli ákvæða samkeppnislaga.

Viðurkenningar fyrir sjálfboðin störf í þágu aldraðra
,,Sjálfboðið starf meðal aldraðra - verðmæti fyrir íslenskt samfélag" var yfirskrift ráðstefnu sem haldin var í Áskirkju í Reykjavík í dag. Ráðstefnan var haldin að frumkvæði nefndar sem skipuð var af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á liðnu ári, en hlutverk hennar er að vinna að breyttri ímynd öldrunar og starfa í þágu aldraðra. Á ráðstefnuna kom m.a. gestafyrirlesari frá Danmörku, Lise Legath, sem sagði frá þjóðarátaki Dana í Árósum um sjálfboðastarf, en Lise er verkefnisstjóri átaksins. Anna Birna Jensdóttir, formaður nefndarinnar, segir reglubundna þátttöku fólks í sjálfboðaliðastarfi meðal aldraðra mikilvæga og hana þurfi að efla, einkum með það í huga að veita öldruðum félagsskap og liðsinni í daglegu lífi. Á ráðstefnunni voru veittar viðurkenningar fyrir sjálfboðin störf í þágu aldraðra og var Kvennadeild Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands meðal þeirra sem hlutu viðurkenningu fyrir öflugt starf á sjúkrastofnunum fyrir aldraða síðastliðin 40 ár.
Meira >

Ný lög um lækningatæki
Frumvarp til laga um lækningatæki var samþykkt á Alþingi í vikunni. Lögin taka til framleiðslu, sölu, markaðssetningar, markaðseftirlits, viðhalds og notkunar lækningatækja og eftirlits heilbrigðisyfirvalda með þeim. Markmið þeirra er að koma í veg fyrir að notendur lækningatækja verði fyrir tjóni og tryggja að framleiðsla, viðhald og notkun lækningatækja sé í samræmi við bestu fagþekkingu á hverjum tíma, eins og segir í 2. gr. laganna.
Sjá lögin >

Stofnun félags fagfólks í endurhæfingu
Stofnað hefur verið félag fagfólks í endurhæfingu. Stofnfundur félagsins var haldinn í Hlíðarsmára í Kópavogi í dag (27. apríl). Að félaginu standa allar starfsstéttir heilbrigðisþjónustunnar sem koma að endurhæfingu á einhvern hátt. Tilgangur félagsins er að fjalla um endurhæfingarmál á breiðum grunni. Hugmyndina að stofnun félagsins má að hluta rekja til vinnu starfshóps um endurhæfingu sem lauk störfum í fyrra. Skýrsla starfshópsins sem fjallaði um þverfaglega sýn í endurhæfingu var gefin út af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu.

Mælt fyrir frumvarpi um ávana- og fíkniefni
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, mælti á Alþingi í dag fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 65/1974 um ávana og fíkniefni. Eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu var það unnið eftir tillögum starfshóps sem dómsmálaráðherra skipaði til að fara yfir löggjöf og reglur um vörslu og meðferð ávana- og fíkniefna. Hópurinn var settur á fót að tillögu ríkissaksóknara vegna óvissu sem reis í kjölfar dóma þar sem sýknað hafði verið af ákærum þar sem refsiheimilidir á þessu sviði þóttu ófullnægjandi. Vegna þess hafði ákæruvaldið ekki talið fært að höfða opinber mál vegna þeirra efna sem frumvarpið tekur til. Með frumvarpinu verður ráðherra heimilt að grípa fljótt inn í og banna tiltekin efni á íslensku yfirráðasvæði. Vegna ákvæða alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að hefur það ekki verið hægt til þessa, nema efnin séu á alþjóðlegum listum um ávana- og fíkniefni. Þegar ný efni koma upp, sem ástæða þykir til að banna sem ávana- og fíkniefni, er því ekki unnt að banna þau hér á landi nema breyting hafi verið gerð á alþjóðasamningum. Slíkar breytingar geta hins vegar tekið langan tíma, á meðan er ekki unnt að refsa fyrir sölu og meðferð efnanna og það skapar hættu á að löggjafinn sé ávallt skrefi á eftir.

Fundur fíkniefnanefndar Norðurlandaráðs haldinn í Finnlandi
Fundur var haldinn í fíkniefnanefnd Norðurlandaráðs í Saariselkä í Finnlandi 18. til 20. apríl sl. og sátu hann 35 fulltrúar frá norrænum ráðuneytum og undirstofnunum þeirra. Fundarmenn lýstu áhyggjum yfir óstöðvandi flæði fíkniefna um Norðurlönd. Eins var rætt um stöðu Eystrasaltsríkjanna sem virðast áhugalaus um samvinnu við Norðurlandaþjóðirnar sem stafar líklega af því að þau líti til inngöngu í Evrópubandalagið sem frekari lausn sinna mála. Fram kom að Finnar hafa vaxandi áhyggjur af landamæravörslu sinni því á hinum 1300 km. löngu landamærum Finnlands og Rússlands hefur vörðum verið fækkað og því greiðara en áður að koma ólöglegum fíkniefnum vestur yfir landamærin. Áherslur Norðurlandaþjóðanna á sviði fíkniefnavarna eru nokkuð ólíkar eftir legu landanna og var á fundinum rætt um nauðsyn þess að styrkja samheldni þjóðanna í baráttunni gegn fíkniefnum. Af hálfu Íslands sátu fundinn Ingibjörg Broddadóttir frá félagsmálaráðuneytinu og Hrafn Pálsson frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu.

Menntun heilbrigðisstétta og mannaflaspár
Hinn 3. apríl sl. stóð heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið fyrir ráðstefnu um menntun heilbrigðisstétta og mannaflaspár. Umfjöllunarefni ráðstefnunnar var mikilvægi þess að heilbrigðisþjónustunni verði tryggður nægjanlegur mannafli sem tileinkað hefur sér menntun, kunnáttu og færni sem svara kröfum og fyrirsjáanlegum þörfum fyrir þjónustu í framtíðinni. Erindi sem flutt voru á ráðstefnunni, ásamt glærum, eru nú aðgengileg á heimasíðu ráðuneytisins. Þá er hér vakin athygli á skýrslu danska heilbrigðisráðuneytisins Rekruttering, Fastholdelse og Faggrænser i sundhedssektoren - En analyse af arbejdsmarkedet for læger og sygepleyjersker. Januar 2001 en hægt er að lesa hana alla á heimasíðu ráðuneytisins.
Erindi og glærur >

Landspítali - háskólasjúkrahús: Stjórnunarupplýsingar, janúar - febrúar 2001
Rekstraruppgjör Landspítala - háskólasjúkrahúss fyrstu tvo mánuði þessa árs sýnir 47 m.kr. umfram fjárheimildir, eða 1,5% frávik frá fjárheimildum tímabilsins. Launagjöld nema tæpum 72% af heildargjöldum sjúkrahússins en rekstrarkostnaður tæpum 26%. Tæp 80% starfsmanna sjúkrahússins eru konur, 98% hjúkrunarfræðinga, 100% ljósmæðra, 96% sjúkraliða og 92% þjálfa. Um fjórðungur lækna eru konur. Þessar upplýsingar og margar aðrar má lesa í Stjórnunarupplýsingum Landspítala - háskólasjúkrahúss sem birtar eru á heimasíðu Landspítalans.
Nánar >




Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
27. apríl 2001

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta