Hoppa yfir valmynd
27. apríl 2001 Matvælaráðuneytið

Brottkast. 27.04.01

Fréttatilkynning


Þann 5. júlí síðastliðinn boðaði sjávarútvegsráðherra Árni M. Mathiesen til blaðamannfundar þar sem kynntar voru aðgerðir til þess að meta umfang brottkasts. Á honum var tilkynnt að nefnd, sem starfaði undir formennsku Gunnars I. Birgissonar alþingismanns, myndi standa fyrir rannsókn sem framkvæmd yrði á vegum Gallup. Tilgangur könnunarinnar skyldi vera að kanna viðhorf sjómanna til brottkasts á fiski og málefni er því tengjast til að varpa megi skýrari mynd af hugsanlegu brottkasti. Nefndin setti sér eftirfarandi markmið með vinnu sinni:

· Afla haldgóðra upplýsinga um umfang brottkasts, magn, stærð og tegundir sem kastað er.
· Afla upplýsinga um brottkast með tilliti til notkunar veiðarfæra og skipa.
· Afla upplýsinga um ástæður brottkasts.
· Afla upplýsinga um viðhorf sjómanna til þessa vandamáls í víðum skilningi.
· Leggja grunn að góðri umgengni sjávarútvegsins á auðlindinni.
· Leggja grunn að nýju viðhorfi til umgengni um sjávarauðlind þjóðarinnar.

Einnig var skipuð verkefnissjórn undir forystu Jóns B. Jónassonar skrifstofustjóra í sjávarútvegsráðuneytinu sem hefur látið meta brottkast út frá lengdarmælingum þorsks og ýsu á sjó og landi.

Rannsókn Gallup

Rannsóknin var framkvæmd með símaviðtölum á tímabilinu frá 8. desember 2000 - 25. janúar 2001. Í úrtakinu voru 2246 manns sem teknir voru úr skrá Siglingamálastofnunar yfir sjómenn, einnig var safnað úrtaki meðal sjómanna á smábátum. Eins og fram kemur hér að neðan þá var svarhlutfall 76,9 % sem telst gott og talsvert yfir meðaltali. Einnig má geta þess að sjómenn voru spurðir að því hvort þeim hefði þótt þægilegt eða óþægilegt að svara spurningunum í könnuninn og var niðurstaðan sú að 97% sögðu að það væri þægilegt eða að þeim væri alveg sama.

Fannst þér óþægilegt eða þægilegt að svara þessum spurningalista
eða var þér alveg sama?


Stærð úrtaks og svörun

Upphaflegt úrtak 2246
Búsettir í útlöndum 115
Veikir 2
Látnir 0
Endanlegt úrtak 2129
Neita að svara 142
Næst ekki í 349
Fjöldi svarenda 1638
Svarhlutfall 76,9%


Niðurstöður rannsóknarinnar, helstu atriði


Viðhorf til brottkasts

Kannað var viðhorf sjómanna til brottkasts og telja naumlega 60% svarenda að brottkast sé siðferðilega rangt í öllum tilvikum, en tæp 40% telja það vera réttlætanlegt í sumum eða öllum tilvikum.
      Siðferðislega afstaða sjómanna til brottkasts
Um 36% segja að brottkast hafi aukist, 64% að það hafi staðið í stað eða að það hafi minnkað á síðustu þremur árum.

Þegar spurt var um brottkast sögðust 20 % sjómanna hafa orðið vör við brottkast í síðustu veiðiferð en 80% höfðu ekki orðið vör við það.

Þegar svarendur voru spurðir um brottkast á eigin skipi í samanburði við önnur skip, kom í ljós að einungis tæplega 2% telja brottkast vera meira á eigin skipi en öðrum skipum. Á hinn bóginn telur tæplega 31% brottkastið vera svipað, en tæplega 68% telja brottkast vera minna á eigin skipi en öðrum skipum.

Ríflega 58% svarenda telja að brottkast fari ekki eftir stærð skipa. Tæplega 16% telja að brottkast sé meira á minni skipum, en tæplega 26% telja það vera meira á stærri skipum.

Þeir sjómenn sem telja að brottkast sé mismikið stundað eftir landshlutum segja að brottkast sé mest stundað á Vestfjarðamiðum eða tæplega 47% svarenda. Tæplega fimmtungur nefndi Vesturland, tæplega 18% nefndu Norðurland og svipað hlutfall nefndi Suðurland.

Svarendur voru beðnir um að meta brottkast á þorski. Eins og sést á myndinni hér fyrir neðan telja þeir að brottkast á undirmálsþorski sé umfangsmest. Ef lagt er saman hlutfall þeirra sem telja að mjög miklu og frekar miklu af undirmálsfiski sé hent þá er það 71%. Ekki kemur á óvart að sjómenn telja brottkast á stærri þorski vera umfangsminna, þannig telja einungis tæp 3% þeirra að miklu sé hent af stórum þorski.



Svarendur voru beðnir um að nefna aðrar fisktegundir sem hent er. Tæplega 31% nefndi karfa, ríflega fjórðungur nefndi ufsa og rúmlega 18% nefndu ýsu. Aðrar tegundir voru nefndar sjaldnar.

Síðasta veiðiferð

Eins og áður segir var ríflega fimmtungur svarenda var við brottkast á fiski í síðustu veiðiferð. Tæplega 12% þeirra segja að brottkastið hafi verið meira en vanalega, en aðrir sögðu það hafa verið minna en vanalega eða svipað og áður.

Myndir þú segja að það hafi verið meira brottkast í þessari veiðiferð en venjulega, minna brottkast en venjulega eða svipað og alltaf er?


Þeir sem urðu varir við brottkast í síðustu veiðiferð greina að meðaltali frá því að 5,9 tonnum hafi verið hent af bolfiski.

Ef einn sjómaður varð var við brottkast var gert ráð fyrir því að á skipinu væri brottkast.




Í ljósi þess að umræðan um brottkast hefur fyrst og fremst snúist um þorskinn þá er rétt að taka fram að rannsóknin sem slík gerir ekki greinarmun á tegundum. Ef við hins vegar gefum okkur það að þorski sé kastað í réttu hlutfalli við það sem hann vegur af bolfiskkvótanum þá eru það 60%. Samkvæmt því mætti ætla að heildarbrottkast þorsks sé í kringum 15.000 tonn.

Þegar svarendur voru beðnir um að nefna þær tegundir sem kastað var í síðustu veiðiferð, kom í ljós að rúmlega 71% nefndi þorsk. Tæplega 19% nefndu karfa, tæp 15% ýsu og naumlega 12% ufsa. Færri nefndu aðrar tegundir.

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá skiptingu veiðarfæra hjá þeim svarendum sem urðu varir við brottkast í síðustu veiðiferð. Hjá þeim sem urðu varir við brottkast er botnvarpa algengasta veiðarfærið (43,1%). Önnur veiðarfæri eru sjaldgæfari hjá þeim sem urðu varir við brottkast í síðustu veiðiferð.


Takmörkun brottkasts og eftirlit, nokkrir áhugaverðir punktar

· Athyglisvert er að 73,4% sjómanna telja að eftirlit með brottkasti sé of lítið og aðeins 3,8% telja að það sé of mikið.

· 58% sjómanna telja refsingar of vægar.

· 78% sjómanna eru fylgjandi því að fá eftirlitsmenn um borð.

· Tæplega 39% sjómanna telja að lítið verðmæti fisks sé helsta ástæða brottkasts.

· Tæplega 31% kennir þröngri kvótastöðu/kvótaleysi helst um brottkast, en ríflega fimmtungur nefnir kvótakerfið sem helstu ástæðu brottkasts á fiski. Aðrar ástæður voru nefndar mun sjaldnar.

· Ríflega 23% svarenda telja að koma megi í veg fyrir brottkast með því að leyfa skipum að landa öllum afla eða undanskilja undirmálsfisk frá kvóta.

· Tæplega 15% telja að aukið eftirlit og hert viðurlög komi í veg fyrir brottkast.

· Slétt 11% telja afnám kvótakerfisins eða breytta fiskveiðistjórnun vera vænlegasta til árangurs í baráttunni gegn brottkasti.

Á myndinni fyrir neðan má sjá viðhorf svarenda til þess að fá eftirlistmenn og eftirlitsmyndavélar um borð. Á henni sést að þrátt fyrir að 43% telji að eftirlitsmyndavélar dragi úr brottkasti eru einungis 34% sammála því að nota eigi eftirlitsmyndavélar um borð í skipum við eftirlit á brottkasti, en 57% svarenda eru beinlínis ósammála því. Á hinn bóginn er mikill meirihluti, eða slétt 78% svarenda sammála því að fá eftirlitsmenn um borð, en tæp 15% eru því ósammála.




Annað áhugavert
Í rannsókninni kemur fram að rúmlega 44% svarenda eru hlynnt aflamarkskerfinu, um 40% eru andvíg.

Rúmlega 13% svarenda greina frá því að þau hafi lent í útistöðum við útgerð eða yfirmann vegna brottkasts.

Þegar spurt var um hvort vigtun á fiski í höfnum væri í lagi töldu 88% að hún væri alltaf eða oftast í lagi. Þrátt fyrir það þá telja tæplega 76% svarenda að eitthvað sé um að fiski sé smyglað framhjá vigt.

Tæplega fimmtungur svarenda greinir frá því að hafa orðið var við að afli sé falinn í stað þess að honum sé hent.

Að lokum skal þess getið að sjómenn voru spurðir að því hvort þeir teldu rannsókna sem þessa koma þeim til góða eða ekki. Niðurstaðan var sú að að 82% töldu svo vera.


Sjávarútvegsráðuneytið föstudaginn 27. apríl, 2001



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum