Nr. 034, 2. maí 2001, Dimitrij Rupel, utanríkisráðherra Slóveníu, kemur til Íslands
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Nr. 034
Dimitrij Rupel, utanríkisráðherra Slóveníu, kemur til Íslands í dag til viðræðna við Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra. Tvíhliða samskipti Íslands og Slóveníu og leiðir til að efla viðskipti landanna verða efst á baugi á fundi ráðherranna. Þá verður stækkun Evrópusambandsins rædd út frá sjónarhóli aðildarumsóknar Slóveníu og áhrif stækkunar sambandsins á EES samninginn og samskipti Íslands við Slóveníu.
Ráðherrarnir munu einnig ræða umsókn Slóveníu um aðild að Atlantshafsbandalaginu, en slóvensk stjórnvöld gera sér vonir um að landinu verði boðin aðild að bandalaginu haustið 2002. Ástand mála á Balkanskaga, samskipti Slóveníu við grannríkin og öryggismál almennt verða einnig á dagskrá.
Dimitrij Rupel mun ennfremur eiga fund með Davíð Oddssyni, forsætisráðherra, Guðmundi Árna Stefánssyni, varaforseta Alþingis og Tómasi Inga Olrich, formanni utanríkismálanefndar Alþingis.
Boðað er til blaðamannafundar í kjölfar fundar ráðherranna og hefst hann á morgun, fimmtudaginn 3. maí, kl. 09.50 í fundarsal á 2. hæð í utanríkisráðuneytinu, Rauðarárstíg 25.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 2. mai 2001.