Hoppa yfir valmynd
3. maí 2001 Heilbrigðisráðuneytið

28. apríl - 4. maí 2001

Fréttapistill vikunnar
28. apríl - 4. maí 2001



Tæplega 4.000 einstaklingar fengu greidda leiðréttingu á tekjutryggingu frá Tryggingastofnun 1. apríl sl.

Þann 1. apríl sl. greiddi Tryggingastofnun ríkisins út leiðrétta tekjutryggingu til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega í samræmi við lög nr. 3/2001 um breytingu á lögum um almannatryggingar. Lagabreytingin var gerð í kjölfar dóms Hæstaréttar í svokölluðu öryrkjamáli. Tæplega 4.000 einstaklingar fengu eingreiðslu frá Tryggingastofnun vegna leiðréttingarinnar, 2.982 konur og 955 karlar. Um var að ræða endurreikning tekjutryggingar fyrir árin 1997 - 2000. Að meðaltali nam eingreiðsla til hvers einstaklings um 329.000 kr., eða um 223.000 kr. eftir staðgreiðslu skatta. Hæstu greiðslur námu tæplega 1,5 millj. kr. en alls fengu 69 einstaklingar eingreiðslu að upphæð 1.4 millj. kr. eða meira. Eingreiðslu að upphæð 1.0 millj. kr. og hærri fengu 273 einstaklingar. Þessar upplýsingar o.fl. koma fram í skriflegu svari ráðherra við fyrirspurn á Alþingi, 2. maí sl.
Svar ráðherra >

Ný reglugerð um sérfræðileyfi fyrir sjúkraþjálfara
Sett hefur verið reglugerð um veitingu sérfræðileyfa í sjúkraþjálfun, nr. 318/2001. Reglugerðin er sett samkvæmt 12. gr. laga um sjúkraþjálfun nr. 58/1976 og hefur þegar öðlast gildi. Til þess að sjúkraþjálfari geti átt rétt á sérfræðileyfi er skilyrði að hann hafi hlotið starfsleyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra til að starfa sem sjúkraþjálfari hér á landi. Hann þarf að hafa lokið meistaraprófi eða doktorsprófi frá viðurkenndum háskóla eða hafa sambærilega menntun. Einnig þarf hann að hafa starfað við sjúkraþjálfum minnst tvö ár eftir sérnám við þá sérgrein sem hann sækir um sérfræðileyfi í.
Sjá reglugerð >

Nýr bæklingur Manneldisráðs: Matur fyrir aldraða
Manneldisráð Íslands hefur gefið út bækling sem nefnist Matur fyrir aldraða. Bæklingurinn er ætlaður öllum sem starfa við hjúkrun og umönnun aldraðra, hvort sem er á stofnunum eða í heimahúsum. Fjallað er m.a. um æskilega líkamsþyngd, breytingar á orkuþörf fólks eftir aldri, hvernig best megi fylgjast með næringarástandi aldraðra, sérfæði fyrir aldraða o.m.fl. Einnig er fjallað nokkuð ítarlega um mismunandi fæðuflokka, veittar ráðleggingar um fæðuval og gefnar hugmyndir að maðseðlum. Nánari upplýsingar um bæklinginn er að finna á heimasíðu Manneldisráðs.
Nánar >

Rætt um stöðu kvenna í læknastétt á Íslandi
Læknafélag Íslands heldur málþing um stöðu kvenna í læknastétt á Íslandi, 17. maí næstkomandi, undir yfirskriftinni Skref til framtíðar - hvert stefnum við í jafnréttismálum. Málþingið verður haldið í Hlíðarsmára 8 í Kópavogi.

Tillögur starfshóps landlæknisembættisins um forvarnir gegn sjálfsvígum:
Starfshópur á vegum landlæknisembættisins hefur kynnt tillögur sínar um eflingu forvarna gegn sjálfsvígum og sjálfsvígstilraunum á Íslandi. M.a. er lagt til að stofnuð verði Rannsóknar- og forvarnardeild sjálfsvíga innan landlæknisembættisins, embættinu til ráðgjafar og til að skapa yfirsýn yfir allt sem gert er í forvarnar- og meðferðarskyni. Áhersla er lögð á að virkja sem flesta, bæði fagfólk og almenning í forvarnarstarfinu, styðja við þau úrræði sem fyrir eru og auka samþættingu alls þess starfs sem þegar er unnið á þessu sviði.
Nánar >



Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
6. maí 2001

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta