Hoppa yfir valmynd
3. maí 2001 Dómsmálaráðuneytið

Ávarp dómsmálaráðherra við heimsókn á Neyðarmóttöku vegna nauðgunar

Ávarp ráðherra við heimsókn á Neyðarmóttöku vegna nauðgunar á slysa- og bráðadeild Landspítala - háskólasjúkrahúss


Góðir gestir.

Ég vil byrja á því að þakka fyrir boð ykkar hérna í Neyðarmóttökunni. Mér finnst mjög ánægjulegt að fá tækifæri til þess að hitta ykkur hér í húsakynnum ykkar og fá tækifæri á að ræða málin. Það er ekki nokkur vafi í mínum huga að þjónusta sú sem veitt er á Neyðarmóttökunni hefur reynst mikilvægur stuðningur við þá sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi. Það er þakkarvert að Neyðarmóttakan hefur stuðlað að meiri umræðu og skilningi á því hve alvarleg brot þessi eru og hve mikils virði það er að geta veitt skjót og áhrifarík viðbrögð og þjónustu þeim sem fyrir slíkum brotum verða. Ég hef átt kost á mjög góðu samstarfi við Neyðarmóttökuna og mun halda því áfram.

Nýlega ræddi ég við starfsmenn Neyðarmóttökunnar þar sem þeir lýstu fyrir mér þróun þessara mála undanfarin ár og stöðu þeirra í dag. Er full ástæða til að hafa áhyggjur af þeirri þróun. Ungur aldur og mikil áfengisneysla virðist einkenna þær aðstæður þar sem kynferðisbrot eru framin, en er viðnám brotaþola þá lítið eða ekkert. Það gladdi mig hins vegar að heyra að samstarf Neyðarmóttökunnar og lögreglunnar hefur verið með ágætum og er á skipulegum grunni. Tilgangur þessa fundar hér í dag er að bregðast við upplýsingum sem ég hef fengið um stöðu þessara mála, leiða saman sérfræðinga sem koma að þeim og ræða leiðir til að bregðast við vandanum. Við vitum að á nágrannalöndum okkar hefur meðal annars verið brugðist við þessu með því að leggja meiri áherslu á misneytingarþátt kynferðisbrota og er rétt að skoða það sérstaklega hér á landi.

Fundarefnið er alvarlegt mál sem því miður snertir okkur öll. Kynferðisleg misnotkun er alvarlegt vandamál í okkar þjóðfélagi sem erfitt er við að eiga. Ljóst er að sá málaflokkur sem hér er til umræðu hefur hlotið verðskuldaða athygli undanfarin ár og mikil vinna verið lögð í úrbætur á lagaumgjörð og málsmeðferð. Hins vegar er jafnframt ljóst að mál af þessum toga eru vandasöm og viðkvæm og krefjast þess að við höldum vöku okkar og skirrumst ekki við að grípa til þeirra aðgerða sem þörf er á. Umræður sem hafa orðið í þjóðfélaginu hin síðustu ár um refsingar, ganga í þá átt að of vægt sé tekið á brotamönnum. Á það ekki síst við þegar rætt er um refsingar fyrir brot eins og kynferðisbrot, ofbeldisbrot og fíkniefnabrot. Það er gömul saga og ný að fjölgi brotum af ákveðnu tagi eða þau fá aukna umfjöllun í fjölmiðlum þá koma fram þau viðbrögð fyrst og fremst að refsingar við þessum brotum beri að þyngja sérstaklega. Þess ber hins vegar að gæta, að umræður um þessi mál blandast oft tilfinningahita vegna tiltekinna afbrota, en nauðsynlegt er að fara varlega í þessum efnum. Það stríðir gegn réttlætisvitund manna og reglum um jafnræði að þynging refsidóma eigi sér stað í stökkum heldur verður slíkt að eiga sér stað með þróun í dómaframkvæmdinni. Eðlilegt er að líta svo á að dómarar hafi svigrúm til til að meta refsingar innan ákveðins ramma. Hefur refsistefna á Norðurlöndum því almennt verið sú að auka vald dómstóla til ýmiss konar ákvörðunar og mats í þessum efnum, frekar en hitt. Það er því æskilegt að varðveita svo sem kostur er sjálfstætt mat dómstóla í þessum efni. Skapist hins vegar verulegt misræmi milli refsiákvarðana dómstóla í þessum og öðrum brotaflokkum annars vegar og almennar réttarvitundar og siðmats fólks hins vegar svo og ef brotum á þessu sviði fjölgar verulega þá þarf að bregðast við því. Lögbundin lágmarksrefsing er undantekning í almennum hegningarlögum, hér á landi sem og á öðrum Norðurlöndum, nauðgun er eitt fárra brota þar sem lögð er ákveðin lágmarksrefsing. Einnig er refsirammi slíkra brota hár hér á landi eða allt að 16 ára fangelsi. Hér má nefna að refsirammi vegna sambærilegra brota í Danmörku er 10 ára fangelsi.

Oft og tíðum er dómstólum og réttarvörslukerfinu í heild sinni gagnrýnt fyrir meðferð kynferðisbrotamála. Það eru ríkir almannahagsmunir að alvarleg ofbeldisbrot verði upplýst og brotamönnum refsað. Tölur um niðurfellingu mála og sýknudómar í slíkum málum hafa kallað fram reiði almennings. Það má þó nefna að samkvæmt bráðabirgðatölum fengnum úr rannsókn á ákvörðun refsingar við afbrotum, að alls komu mál 57 ákærðra fyrir nauðgun til Hæstaréttar á tímabilinu frá 1950 til ársins 1998. Af 57 ákærðum voru 49 sakfelldir, eða 86% en 8, eða 14% sýknaðir. Ekki liggur fyrir könnun á dómum hérðaðsdómstólanna fyrir allt þetta tímabil, heldur einungis árin 1993-2000. Á framangreindu 8 ára tímabili voru 59 einstaklingar ákærðir fyrir nauðgun. Mál 56 gengu til dóms en 3 voru afturkölluð eða frávísað. Af 56 málum sem gengu til dóms var sakfellt í 37 (66%) málum en sýknað í 19 (34%) málum.

Ég tel að sú umræða sem fram hefur farið að undanförnu gefi tilefni til þess að almenningi sé kynnt betur en nú er það mikilvæga starf sem fram fer í dómstólum landsins. Þess er nauðsynlegt að gæta að jafnan sé byggt upp traust almennings á dómstólum. Kynning og uppfræðsla um starfsemi dómstólanna, ekki síst fyrir upprennandi kynslóðir, getur verið mjög þýðingarmikil í þessum efnum. Ég hef fært þetta í tal við dómstólaráð og vakti meðal annars máls á þessu á dómsmálaþingi fyrir tveimur árum.

Ég hef í ráðherratíð minni lagt mikla áherslu á úrbætur á stöðu brotaþola í þessum málum og þá sérstaklega barna sem hafa orðið þolendur kynferðisafbrota. En um langan aldur lágu kynferðisafbrot gegn börnum í þagnargildi. Þögnin hefur nú verið rofin og mikið hefur verið gert til þess að rétta hlut þeirra sem mátt hafa þolað misgjörðir. Á þeirri braut verður haldið áfram. Hér má meðal annars nefna þá nýlegu breytingu sem gerð var á lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, þar sem rýmkaður var bótaréttur barna sem verða fyrir kynferðisbrotum. Einnig má nefna viðamikla breytingu sem gerð var á lögum um meðferð opinberra mála þar sem meðal annars var mælt fyrir um skyldu til að tilnefna börnum réttargæslumann ef um kynferðisbrot gegn börnum er að ræða. Reyndar var öllum þolendum ofbeldis- og kynferðisbrota veitt þessi réttarbót. Jafnframt hafa vinnubrögð og aðstaða við yfirheyrslur verið bætt mikið. Þá vil ég einnig geta frumvarps um nálgunarbann sem afgreitt var frá Alþingi á síðasta löggjafarþingi. En markmið nálgunarbanns er meðal annars að vernda fórnarlömb ofbeldisbrota og fyrirbyggja frekara ofbeldi. Ég er sannfærð um að þetta geti orðið öflugt tæki á framtíðinni til að stemma stigu við kynferðisbrotum. Ég vill einnig nota tækifærið og greina frá breytingu sem varð á reglum hegningarlaga um fyrningu sakar, árið 1998. Með þeirri breytingu var komið á sérreglu varðandi fyrningu kynferðisbrota gegn börnum, en samkvæmt henni byrja brot ekki að fyrnast fyrr en að barn nær 14 ára aldri. Breyting þessi var reist á þeim röksemdum, að hætt er við að fyrningarfrestur sé liðinn þegar börn hafa náð þeim þroska, sem þarf til að gera sér grein fyrir því að um refsivert brot hafi verið að ræða. Einnig verður að gæta þess, að gjarnan standa börn í sérstökum tengslum við geranda og því kann þeim í raun að vera ómögulegt að kæra slík afbrot. Á hinn bóginn verður einnig að hafa hliðsjón af þeim almennu lagarökum, sem búa að baki fyrningarreglum hegningarlaga. Þau rök lúta að þeim hagsmunum sakbornings, að ekki sé löngu síðar unnt að saka hann um brot, en jafnframt er torvelt að rannsaka mál og afla sönnunargagna þegar kæra er síðbúin. Á Norðurlöndunum má finna sambærilegar reglur, í Svíþjóð byrjar fyrningarfresturinn að líða við fimmtán ára aldur, en í Danmörku og Noregi við átján ára aldur. Vissulega eru rök fyrir því að lengja enn frekar fyrningarfrest vegna kynferðisbrota gegn börnum, en ljóst að tillögur þar að lútandi mega ekki ganga gegn þeim lagarökum, sem búa að baki fyrningarreglum og almennt eru viðurkennd, heldur að reyna eftir fremsta megni að ná eðlilegu jafnvægi milli þessara sjónarmiða. Ég hyggst láta gera könnun á þeim breytingum sem orðið hafa á norrænni kynferðisbrotalöggjöf og í framhaldinu athuga hvort rök séu fyrir því að taka sambærileg lagaákvæði hérlendis til endurskoðunar.

Ég vil ennfremur nefna nýlega rannsókn sem dómsmálaráðuneytið lét gera á vændi á Íslandi og félagslegu umhverfi þess, þar sem meðal annars kemur fram að vændi fyrirfinnist í einhverjum mæli á Íslandi. Af því tilefni hef ég skipað nefnd sem hefur það hlutverk að gera tillögur um viðbrögð við þeim niðurstöðum sem fram koma í áðurgreindri rannsókn. Nefndinni er falið að meta þennan vanda af þverfaglegum sjónarhóli og út frá öllum hliðum hans. Meðal annars verði farið yfir gildandi refsilög sem varða vændi og kynferðislega misnotkun, rannsókn og meðferð slíkra mála, þ.m.t stuðning við þolendur og hvort unnt sé að veita börnum og unglingum ríkari refsivernd á þessu sviði. Ég minni þó á að ekki alls fyrir löngu, eða árið 1992, var allur kynferðisafbrotakafli almennra hegningarlaga endurskoðaður.

Ég vil leggja á það áherslu að af hálfu yfirvalda er kostað til kapps um að gera þessi mál sem best úr garði svo vel megi við una, þótt ég telji verulega margt hafa áunnist á þessu sviði undanfarin áratug er brýn þörf á að halda áfram þeirri vinnu að bæta stuðnings og meðferðarúrræði fyrir fórnarlömb kynferðisbrota. Jafnframt þarf að kanna hvernig betur er hægt að tryggja aðbúnað og aðstöðu þeirra sem leita réttar síns vegna kynferðisbrota, enda ljóst að hér er um mjög vandmeðfarin tilfinningamál að ræða og ber okkur skylda til að auðvelda þolendum kæru- og dómsferilinn eins og kostur er. Mál þessi eru í sífelldri skoðun í dómsmálaráðuneytinu sem og í refsivörslukerfinu. Á árunum 1998-2000 komu 58 nauðgunarmál til meðferðar hjá embætti ríkissaksóknara. Af þeim voru 45 mál felld niður, þar sem þau þóttu ekki líkleg til sakfellingar. Mat á sönnun getur verið margslungið og ekki óeðlilegt að sitt sýnist hverjum í þeim efnum. Mál af því tagi sem hér um ræðir eru hins vegar skoðuð ofan í kjölinn af mjög hæfum sérfræðingum og má sem dæmi nefna að ríkissaksóknari hefur myndað starfshóp til að gera könnun á meðferð nauðgunarmála, rannsókn og saksókn, meðal annars vegna þeirrar umræðu í þjóðfélaginu að mikill hluti nauðgunarmála falli niður í meðferð lögreglu og ákæruvalds. Og er það vel.

Ég vil að lokum leggja áherslu á að ábyrgðin í þessu máli hvílir ekki aðeins á stjórnvöldum, þó að vissulega sé brýnt að yfirvöld skerpi á í baráttunni. Þetta er vandi sem allt samfélagið stendur frammi fyrir og okkur ber að vinna saman að því að leysa úr því. Ég vænti áframhaldandi góðs samstarfs við starfsfólk Neyðarmóttökunar í þessu baráttumáli og óska þeim alls góðs í því mikilvæga starfi sem þau hafa með höndum á þessu sviði.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta