Hoppa yfir valmynd
3. maí 2001 Heilbrigðisráðuneytið

Forsíðufrétt - Tillögur starfshóps um forvarnir gegn sjálfsvígum 03-05-2000


03.05: Tillögur starfshóps um forvarnir gegn sjálfsvígum
Starfshópur á vegum landlæknisembættisins kynnti í dag tillögur sínar um eflingu forvarna gegn sjálfsvígum og sjálfsvígstilraunum á Íslandi. M.a. er lagt til að stofnuð verði Rannsóknar- og forvarnardeild sjálfsvíga innan landlæknisembættisins, embættinu til ráðgjafar og til að skapa yfirsýn yfir allt sem gert er í forvarnar- og meðferðarskyni. Áhersla er lögð á að virkja sem flesta, bæði fagfólk og almenning í forvarnarstarfinu, styðja við þau úrræði sem fyrir eru og auka samþættingu alls þess starfs sem þegar er unnið á þessu sviði.

Landlæknir skipaði í desember 1999 nefnd þriggja manna til að undirbúa gerð tillagna um forvarnir gegn sjálfsvígum og sjálfsvígstilraunum. Í nefndina voru skipaðir Sigurður P. Pálsson, geðlæknir. Wilhelm Norðfjörð, sálfræðingur og Högni Óskarsson, geðlæknir, formaður nefndarinnar. Í fyrstu vann nefndin einkum að því að draga saman upplýsingar um stöðu þessara mála á Íslandi og í nálægum löndum. Þegar kom að tillögugerð fékk nefndin fleira fólk til liðs við sig og komu alls átta manns að þeirri vinnu. Tillögurnar voru jafnframt sendar hartnær sjötíu aðilum til umsagnar.

Tillögur starfshóps landlæknis eru afar víðtækar og fjalla jafnt um fræðslu og upplýsingar til almennings, stuðning við grasrótarstarf, eflingu sérfræðiþjónustu, samvinnu stofnana og aukið þverfaglegt samstarf. Áhersla er lögð á leit að áhættuhópum, bættan aðgang að almennri þjónustu og sérfræðiþjónustu, virka nærþjónustu heima í héruðum o.m.fl. Talið er að árlega geri um 400 einstaklingar tilraun til sjálfsvígs og að árlega falli 25 - 30 einstaklingar fyrir eigin hendi. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra svaraði skriflega fyrirspurn á Alþingi um sjálfsvígstilraunir í desember sl. og er svarið aðgengilegt á heimasíðu Alþingis. Minnt er á heimasíðu Geðræktar en Geðrækt er heilsueflingarverkefni á vegum Geðhjálpar, landlæknisembættisins og geðsviðs Landspítala - háskólasjúkrahúss.

Greinargerð og tillögur starfshóps landlæknisembættisins
Tenging við heimasíðu landlæknisembættisins með aðgangi að tillögum starfshópsins ásamt ýmsum upplýsingum um geðheilbrigiðsmál

Svar við fyrirspurn á Alþingi um sjálfsvígstilraunir >


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta