Hoppa yfir valmynd
11. maí 2001 Innviðaráðuneytið

Aðgengi að Internetinu

Niðurstöður rannsóknar um aðgang að Interneti í mars og apríl 2001 sem PricewaterhouseCoopers vann fyrir Verkefnisstjórn um upplýsingasamfélagið 

Í lok mars og byrjun apríl 2001 lét Verkefnisstjórn um upplýsingasamfélagið sem starfar á vegum forsætisráðuneytis framkvæma könnun þar sem mældir voru ýmsir þættir er snúa að Internetnotkun landsmanna. Slíkar kannanir hefur Verkefnisstjórnin látið gera með reglubundnum hætti undanfarin ár. Líkt og í september síðastliðnum annaðist PricewaterhouseCoopers framkvæmd könnunarinnar. Úrtak var 1200 manns á aldrinum 16-75 ára, sem dreifðist jafnt á milli kjördæma, en svarhlutfallið var 65,6%.

Helstu niðurstöður:

Eftir mikla aukningu síðustu ár á Internetaðgengi landsmanna mælast nú litlar breytingar á aðgengi miðað við niðurstöður könnunar sem gerð var í september 2000. Helstu niðurstöður nýjustu könnunarinnar eru að 76,9% landsmanna hafa aðgang að tölvu með Internettengingu. Í september 2000 mældist aðgengi 77,8% og er munurinn á aðgengi í september og apríl ekki marktækur.

Ekki kemur fram marktækur munur á aðgengi eftir kynjum en fólk eldra en 55 ára hefur síður aðgang en þeir sem yngri eru. Þeir sem lokið hafa framhaldsmenntun hafa frekar aðgang að Internetinu en þeir sem minni menntun hafa. Yfir 90% stjórnenda, sérfræðinga, tækna og nema hafa aðgang að Internetinu. Íbúar höfuðborgarsvæðisins hafa frekar aðgang að Internetinu en þeir sem búsettir eru úti á landi. Rúmlega 87% þeirra sem hafa Internettengingu eru með tölvupóstfang. Rúmlega 63% fólks með Internetaðgang nota tölvupóst mjög eða frekar oft.

Rúmlega helmingur þeirra sem hafa aðgang að Interneti, eða 57,5%, nota það fimm sinnum í viku eða oftar, þar af nota ríflega 49% Netið oft á dag eða daglega. Aukning í notkun hefur orðið á þann veg að nú segjast fleiri nota Netið oft á dag en í september 2000. Karlar nota Netið marktækt oftar í viku en konur. Þeir sem elstir eru fara sjaldnast á Netið. Með hækkandi tekjum og auknu námi eykst Internetnotkun fólks.

Tæplega 27% þeirra sem vinna launaða vinnu vinna hluta hennar heima hjá sér með aðstoð tölvu og/eða Internetsins. Fleiri karlar en konur vinna heima með aðstoð tölvu og/eða Internets. Hærra hlutfall íbúa á höfuðborgarsvæðinu vinnur hluta af vinnunni heima hjá sér samanborið við íbúa utan höfuðborgarsvæðisins.

Um 14,5% landsmanna hafa keypt vöru á Netinu á síðastliðnum 3 mánuðum og 2,2% hafa keypt þar þjónustu. Þetta er mjög svipað hlutfall og kom fram í könnun PricewaterhouseCoopers í september síðastliðnum. Þegar eingöngu þeir sem eru með aðgang að Interneti eru skoðaðir kemur í ljós að nærri 19% hafa keypt vörur og tæplega 3% þjónustu. Öryggi greiðslna skiptir fólk mestu máli þegar verslað er á Netinu en tímasparnaður og verð skiptir fólk einnig nokkru máli.

Mikill meirihluti landsmanna nýtir sér GSM síma eða ríflega 8 af hverjum 10. Fleiri nýta sér ferðatölvur nú en í fyrra og hið sama gildir um Vit. Karlar nýta sér ýmis samskiptatæki og þjónustu (s.s. ferðatölvur og Vit) í ríkari mæli en konur.

Ríflega helmingur svarenda hefur farið á tölvunámskeið eða stundað einhvers konar tölvunám. Munur kemur fram eftir kynjum en konur hafa frekar farið á tölvunámskeið eða stundað tölvunám en karlar. Þessi munur kemur þó ekki fram á meðal fólks á aldrinum 16-29 ára.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta