Nr. 040, 15. maí 2001 Sýningin "Varnarsamstarf í 50 ár"
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Nr. 040
Ljósmyndasýningin "Varnarsamstarf í 50 ár" haldin í Þjóðarbókhlöðunni
Opnuð hefur verið ljósmyndasýningin "Varnarsamstarf í 50 ár" í Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni (Þjóðarbókhlöðunni). Sýningin er haldin í tilefni þess að 50 ár eru liðin frá gerð varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna. Sýningin er samstarfsverkefni utanríkisráðuneytisins og varnarliðsins á Íslandi og veitir hún yfirlit yfir þróun varnarmála undanfarin 50 ár. Gerð er m.a. grein fyrir hlutverki varnarliðsins, sögulegu yfirliti yfir varnarsamstarfið, samskiptum stjórnvalda, varnarsvæðum, varnaræfingum, björgunarstörfum og samskiptum Íslendinga og varnarliðsins.
Hluti ljósmyndasýningarinnar var fyrst sýndur í Þjóðmenningarhúsinu 4. maí s.l. á málþingi sem Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra setti: "Ísland og öryggi á Norður-Atlantshafi í fortíð, nútíð og framtíð". Varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna var gerður á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins og var undirritaður í Reykjavík 5. maí 1951.
Ljósmyndasýningin stendur yfir frá 15. maí til 6. júní 2001. Þjóðarbókhlaðan er að Arngrímsgötu 3, Reykjavík. Opnunartímar 15. til 20. maí eru mánudaga til föstudaga kl. 8:15 til 22, föstudaga kl. 8:15 til 19, laugardaga kl. 9-17 og sunnudaga kl. 11-17. Eftir 20. maí eru opnunartímar mánudaga til föstudaga kl. 9 til 17 og laugardaga kl. 10 til 14. Sýningin er bæði á íslensku og ensku. Henni fylgir ítarleg sýningarskrá, sem má einnig skoða á vefsetri utanríkisráðuneytisins, www.utanrikisraduneytid.is undir "Nýtt".
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 15. maí 2001.