Hoppa yfir valmynd
17. maí 2001 Utanríkisráðuneytið

Nr. 042, 16. maí 2001: Fundur utanríkisráðherra ESB og samstarfsríkja þess um sameiginlega öryggis- og varnarstefnu ESB (ESDP)

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 042


Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sat í Brussel í dag tvo fundi utanríkisráðherra Evrópusambandsins (ESB) og samstarfsríkja þess um framkvæmd sameiginlegrar öryggis- og varnarmálastefnu ESB (ESDP). Á fyrri fundinum (15+15*) var fjallað um stöðu stefnunnar, m.a. með tilliti til hættuástandsstjórnunar, friðargæslu og átakavarna, og stöðu mála á Balkanskaga. Á seinni fundinum (15+6**) var fjallað um samskipti ESB og Atlantshafsbandalagsins (NATO).
Í innleggi sínu hrósaði utanríkisráðherra Svíum fyrir góða frammistöðu í formennsku ráðherraráðs ESB og viðleitni þeirra til að tryggja samstarfsríkjum sambandsins upplýsingar og möguleika til að hafa áhrif á mótun sameiginlegrar öryggis- og varnarmálastefnu ESB. Hann fagnaði því góða samstarfi sem ESB og NATO hafa átt í að koma í veg fyrir útbreiðslu átaka í Makedóníu og sagði árangurinn af því samstarfi vera skýra vísbendingu um hverju stofnanirnar geta áorkað í sameiningu. Í umræðum um ástandið á Balkanskaga lagði ráðherra áherslu á að öfgahópar fái engu framgengt með vopnavaldi. Ennfremur ítrekaði hann að réttindi allra þjóðarbrota til fullrar þátttöku í lýðræðisþróun á svæðinu yrði að tryggja.
Síðdegis í dag sótti utanríkisráðherra síðan einnig fund norrænna varnarmálaráðherra í sendiráði Finnlands í Brussel. Fóru ráðherrar yfir stöðu mála á Balkanskaga og þróun ESDP. Í þeim umræðum kom m.a. fram hve stór hlutur Norðurlanda er í því friðar- og uppbyggingarstarfi sem fram fer á svæðinu. Þá greindi varnarmálaráðherra Svíþjóðar frá áherslum Svía í formennskunni í ESB, m.a. undirbúningi að stofnun borgaralegrar friðargæslusveitar á vegum sambandsins.
Samhliða fundi utanríkisráðherranna í morgun var haldinn fundur varnarmálaráðherra ESB og samstarfsríkja þess (15+15 og 15+6). Stefán Skjaldarson, skrifstofustjóri alþjóðaskrifstofu, sat fundinn fyrir hönd utanríkisráðherra. Efni fundarins var þróun mála varðandi framlög aðildar- og samstarfsríkja til uppbyggingar svonefnds meginmarkmiðs ESB, þ.e. sameiginlegrar getu til átakavarna og friðargæslu. Var þar gerð grein fyrir undirbúningi að stofnun Íslensku friðargæslunnar í samræmi við það markmið sem ríkisstjórnin hefur sett sér um þátttöku Íslendinga í alþjóðlegri friðargæslu.

*15+15 eru ESB-ríkin 15 og samstarfsríkin 15, sem eru ríkin 12 sem eiga í aðildarviðræðum við ESB, þ.e. Eistland, Lettland, Litháen, Pólland, Tékkland, Slóvakía, Ungverjaland, Slóvenía, Rúmenía, Búlgaría, Malta og Kýpur, og evrópsku NATO-ríkin 3 sem ekki hafa sótt um ESB-aðild eða ekki eru í aðildarviðræðum við ESB, Ísland, Noregur og Tyrkland.

**15+6 eru eftirtalin ríki: ESB-ríkin 15 og evrópsku NATO-ríkin 6 utan ESB: Ísland, Noregur, Tyrkland, Ungverjaland, Tékkland og Pólland.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 15. mai 2001.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta